Í síðustu grein fjallaði ég um hvað aðstæðurnar á Íslandi 2008 svipuðu til Þýskalands 1918: Efnahagsrústin, ofurskuldirnar, stórglæpirnir og stórspillingin, ógnarleg skaðabótakrafan, handrukkun Evrópu og gífurlega reiðin, gagnvart valdaelítunni sem olli Hruninu og kröfuhöfum heimila og þjóðar.
Engum vafa er undirorpið að langöflugasta áróðurselíta landsins, valdaelítan í kringum Davíð Oddsson (Eimreiðarelítan) áttaði sig á þessu langt á undan öllum öðrum – á vissan hátt áttaði hún sig á þessu fyrir Hrun og hóf fyrirbyggjandi áróður um umsátur vogunarsjóða og erlendra þjóða um Ísland. Þá strax var byrjað að brýna rýtinginn.
Annar lítt þekktur hópur, Indefence-hópurinn, sem myndaðist strax eftir Hrun til að mótmæla framgöngu Breta gagnvart Íslandi, áttaði sig fljótlega á samsvörun ástandsins á Íslandi við Weimar-lýðveldið. Hópurinn líkti Icesave-kröfunum ítrekað við Versalasamninginn enda kom síðar í ljós að helsti áróðursráðgjafi hópsins, Jóhannes Þór Skúlason,hafði sérstakt dálæti á Mein Kampf Hitlers og geymdi hana í „efstu skúffunni“. Þessir hópar framar öllum öðrum hófu strax haustið 2008 að keyra upp þjóðernishyggjuáróður á Íslandi í magnaðri strámannsherferð um íslensku þjóðina sem fórnarlamb hryðjuverkaásakana Breta.
Fyrsta áróðurstaktík Sigmundar og Davíðs í stjórnarandstöðu – fyrir utan stórsóknina í völdin yfir fjölmiðlum landsins - var að endurvekja gamalt áróðursvopn sem hafði ekki verið notað á Íslandi síðan í kalda stríðinu: Stríðstungumálið, sem nasistarnir töluðu í Þýskalandi. Í stríðstungumálinu liggur lífið alltaf við og aðeins annað tveggja sigrar: Hinn góði ofurvilji hetjunnar eða hinn hreinræktaði illvilji erkibófans. Í stríðstungumálinu er aldrei nein sátt, engin málamiðlun og hvorki tilviljanir, neyð eða þvingun.
Það var í kæfandi hrópum þessa æsingatungumáls sem Sigmundur og Davíð hófu að beina ósefandi reiði þjóðarinnar frá gömlu valdaflokkunum að vinstri stjórninni. Frá fortíðinni að núinu. Þeir hófu að spinna saman eina stóra skýringarsögu um Hrunið, algjörlega að fyrirmynd nasista: Valdaelítan gerði fátt rangt. Fjármálakerfið hefði ekki hrunið nema vegna árása og svika útlendinga, aðallega jafnaðarmanna (bresku ríkisstjórnarinnar). Heimilin ekki í skuldavandræðum nema vegna landráða vinstri manna með erlendum kröfuhöfum - valdaelítan samþykkti ekki komu AGS (fullveldisafsalið, uppgjafarsamningarnir), skrifaði ekki undir íslensku Versalasamningana (Icesave-samningana) og hefði bjargað skuldum heimilanna á skömmum tíma ef þeir hefðu ekki verið hraktir frá völdum með ofbeldi. Smám saman kom íslenska rýtingsstungan í ljós en í stað gyðinganna fengum við hrægammana.
Það er sérstaklega athyglisvert að mesta klikkunin, og um leið mesta snilldin, í rýtingsstungu nasistanna var líka útfærð á Íslandi. Það var sú kengbogna kenning að kommúnistar og alþjóða auðvald væru saman í landráðum gegn þjóðinni. Útgáfa Hitlers hefur kannski nauman vinning í klikkuninni en sú íslenska veitir harða samkeppni. Hitler sagði Rússa-kommúnista-gyðinga og alþjóða-gyðinga-auðvaldið saman í samsæri gegn þýsku þjóðinni, sem sagt einn allsherjar bófi og límið: Gyðingurinn. Í útgáfu Sigmundar og Davíðs voru vinstri menn á Íslandi í landráðum með alþjóða- auðvalds-hrægömmum, en einnig ESB og bresku stjórninni gegn íslensku þjóðinni, allt sami bófinn og límið: Jafnaðarmaðurinn.
Snilldin í áróðursofstækinu var sú og er sú að samsæriskenningin er svo galin að skynsemin getur ekki fangað hana. Hún er handan skilningsins - á því sviði sem við köllum hið óhugsanlega: Ó-hugsanlega (sjá Hannah Arendt um lamandi áhrif hins óhugsanlega í verkum nasista). Og það er snilldin.
Þjóðfélagsþegninn stendur frammi fyrir óleysanlegri þversögn, hyldýpisgjá. Hann getur ekki skilið ásökunina og hefur þá tvo kosti: Að trúa eða trúa ekki. Ef hann trúir þá tekur hann trúarstökk út í hyldýpið í nafni leiðtogans mikla. Ef hann trúir ekki þá stendur hann líklega stjarfur á gjárbrúninni, horfir niður og veltir því fyrir sér hvað í ósköpunum allir þessir afglapar eru eiginlega að gera, saman í mauki, á botninum á vitfirringunni. Báðir aðilar kveðja óhjákvæmilega skynsemina.
Það var án efa til þess að styrkja þessar svikakenningar rýtingsstungunnar að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hófu óvænt og allt í einu árið 2009 að stimpla vinstri stjórnina sem „kommúnistaríkisstjórn“ – sjokkið kom ekki síst til vegna þess að kommúnistar voru og eru vandfundnir í landinu - að því leyti var íslenska rýtingsstungan enn klikkaðri en áróður Hitlers.
Eins og í Weimar-lýðveldinu var bylting forveri stjórnarbreytinga á Íslandi nema hvað Búsáhaldabyltingin var aldrei nein bylting í hefðbundnum skilningi þó íslenska valdaelítan hafi ekki hikað við að nota hugtakið „valdarán“ og frasann „komust til valda með ofbeldi“ á sama hátt og þjóðernispoppúlistarnir í Þýskalandi með sama tilgangi: Að grafa undan lögmæti og pólitísku réttmæti vinstri stjórnarinnar (að því leyti var íslenska rýtingsstungan enn falskari en áróður Hitlers).
Á svipaðan hátt var ný lýðræðisleg stjórnarskrá (Búsáhaldabyltingarinnar) túlkuð sem árás á stjórnskipun og stjórnkerfi landsins, eins og nasistarnir gerðu enda afnámu þeir Weimar-stjórnarskrána (óformlega) sem fyrsta verk á leið sinni til einræðis en íslenska valdaelítan lét sér nægja misnotkun Hæstaréttar og takmarkalaust málþóf til að koma lýðræðislegri stjórnarskrá fyrir kattarnef.
Svo var það hrægammurinn – erlendi kröfuhafinn. Í heimi nasistanna: Kakkalakkinn, gráðugi gyðingurinn sem þurfti að fjarlægja. Á Íslandi: Hrægammurinn, gráðugu vogunarsjóðirnir sem þurfti að fjarlægja. Sumpart teiknaðir upp eins og í Lukku-Láka bók, miskunnarlausir gráðugir kroppinbakar sem sátu um skuldara í bið eftir að kroppa úr þeim augun. Í Þýskalandi nasistanna varð til svipuð teikning af gyðingnum, kölluð „Kolaklóin“.
Hægt er að geta sér til um, með nokkurri vissu, hvenær þessi normalísering var fullkomnuð. Það gerðist fljótlega eftir að gamla valdaelítan náði völdum aftur 2013 með rýtingsstunguna að sínu aðalvopni - en þá skýringu ætla ég að láta bíða seinni tíma.
Þegar það rann upp fyrir mér að mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar trúði þessari vitfirrtu þjóðernisfasísku rýtingsstungu féllust mér hendur við að gefa út rannsóknir mínar á spillingunni fyrir Hrun og ég skildi loksins, eftir öll þessi ár, eina mestu ráðgátu vestrænna stjórnmála, sem ég hafði brotið heilann yfir frá því ég 12 ára gamall fletti í djúpu sjokki hryllilegri bók foreldra minna um nasismann: Hvernig venjulegt fólk, eins og íslenska þjóðin, eins og þýska þjóðin í Weimar-Þýskalandi, gekk í blindri reiði þjóðernisfasismanum á hönd og fylgdi á leiðarenda.
Hér fyrir neðan er samlíkingin í stuttu máli:
Þýskaland 1918 ➔ Ísland 2008
Stríðsglæpir ➔ Fjárhagslegir stórglæpir og spilling
Efnahagsrúst ➔ Efnahagslegt og pólitískt hrun.
Þjóðernishyggja. Þýska þjóðin var fórnarlamb árása, svika og landráða, þrátt fyrir víðtæka glæpi valdaelítunnar gagnvart öðrum þjóðum ➔ Þjóðernishyggja. Íslenska þjóðin var fórnarlamb árása, svika og landráða, þrátt fyrir víðtæka glæpi valdaelítunnar gagnvart öðrum þjóðum.
Afnám nýrrar stjórnarskrá ➔ Hindrun nýrrar stjórnarskrár.
Gífurleg reiði vegna spillingar, glæpa og skulda ➔ Gífurleg reiði vegna spillingar, glæpa og skulda
Stjórnlausar skuldir ➔ Fjöldagjaldþrot og vafi um greiðsluhæfi Íslands
Komist til valda í byltingu, ólögmæti valda ➔ Búsáhaldabyltingin sem valdarán, „vinstri menn komust til valda með ofbeldi“.
Uppgjafarsamningarnir, fullveldisafsalið ➔ AGS og Brusselsamningarnir (Icesave-samningar Geirs H. Haarde stjórnarinnar) sem báðir voru eignaðir vinstri stjórninni
Geigvænlegar skaðabótakröfur. Handrukkun stórvelda ➔ Icesave, Kaupþing Edge, Save&Save.
Versalasamningarnir ➔ Icesave greiðslu- og afborgunarsamningar vinstri stjórnarinnar – sumpart ESB umsóknin og viðræðurnar. Landráð.
Blóraböggulinn - gyðingar, vinstri menn og útlendingar ➔ Vinstri menn og útlendingar.
Kröfuhafinn: gráðugi gyðingurinn (kakkalakkinn, kolaklóin) ➔ Kröfuhafinn: gráðugi hrægammurinn.
Einhliða sekt Þjóðverja ➔ „Sjálfstæðisflokknum er einum kennt um Hrunið“, „Icesave ekki bara á ábyrgð Íslendinga“.
Reiðinni beint frá valdaelítunni ➔ Fjöldaframleiðsla landráðakenning um vinstri menn.
Einn aðalhöfundur Hrunsins og um leið rýtingsstungunnar, Ludendorff ➔ Davíð Oddsson
Þjóðernispoppúlistinn, vinur aðalhöfundar Hrunsins, sem komst til valda með rýtingstunguna sem aðalvopn, Adolf Hitler ➔ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson með Davíð Oddsson sem samverkamann. (**og þar sem um sjálfan Hitler er að ræða er rétt að taka fram að samanburðurinn lítur einungis að þjóðernispoppúlisma, áróðri og rýtingsstungunni en ekki öðrum illverkum Hitlers).
Skýringarsagan, þýska rýtingsstungan ➔ Íslenska rýtingsstungan: Valdaelítan gerði fátt rangt. Fjármálakerfið hefði ekki hrunið nema vegna árása og svika útlendinga, aðallega jafnaðarmanna (bresku ríkisstjórnarinnar). Heimilin væru ekki í skuldavandræðum nema vegna landráða vinstri manna með erlendum kröfuhöfum (illviljinn) - valdaelítan samþykkti ekki komu AGS(fullveldisafsalið, uppgjafarsamningarnir), skrifaði ekki undir Icesave-samninga (Versalasamningana) og hefði bjargað skuldum heimilanna (ofurviljinn) ef þeir hefðu ekki verið hraktir frá völdum með ofbeldi.
Nóvember glæpamennirnir sem skrifuðu undir uppgjafar- og Versalasamningana => Jóhanna og Steingrímur sem áttu að bera ábyrgð á AGS-samningunum, fyrstu kröfuhafasamningunum og Icesave-samningunum öllum, líka Brusselssamningnum (Brusselviðmiðin).
Stríðstungumálið ➔ Borgarastríðstungumálið
Ofurviljinn og ríki illviljans ➔ Ekkert mál að láta verðtryggingu og skuldir hverfa. Ekkert þarf að semja við kröfuhafa (ofurviljinn). Jóhanna og Steingrímur reyna að eyðileggja allt í samfélaginu eins og þau mögulega geta í landráðasamráði við kröfuhafa (illviljinn).
Eyða öllum ummerkjum um Weimar-lýðræðið ➔ Eyða öllum ummerkjum um vinstri stjórnina. Útlista og fara yfir allar breytingar vinstri stjórnarinnar á lögum og stjórnkerfi með það fyrir augum að taka þær til baka (Vigdís Hauksdóttir).
Stigmagnandi vitfirring út í það „óhugsanlega” ➔ Normalísering vitfirrtra landráðakenninga og þjóðernisfasísks áróðurs á Íslandi sem almennt var talið óhugsandi að gæti gerst en gerðist á örfáum árum.