Í dag, þann 22. september, fögnum við Bíllausa deginum. Er honum fagnað um víða veröld þótt vitaskuld sé misjafnlega mikið tilefni til að fagna. Á Íslandi höfum við ríka ástæðu til að vera bjartsýn. Því ráða tveir risastórir áfangar. Fyrir ekki svo löngu ákvað borgarstjórn Reykjavíkur að gera Laugaveg að göngugötu allt árið, og jafnframt að fjölga göngugötum miðsvæðis í Reykjavík. Ekki nóg með það, í vikunni staðfesti borgarstjórn Reykjavíkur að hefja skyldi undirbúning að Borgarlínu, hágæða samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu.
Þessa áfanga má alls ekki vanmeta. Það er þekkt í heimi borgarfræða að til að byrja á að umbreyta borgarlífi til hins betra þarf einfaldlega að byrja á einni götu. Gera hana þannig úr garði að fólk, ekki bílar, heldur fólk, sé í öndvegi. Einnig ætti ökumönnum einkabíla á höfuðborgarsvæðinu að vera ljóst, að ekki verður lengur búið við óbreytt ástand. Borgarlína er löngu nauðsynleg samgöngubót, sem tryggir fólki val um samgöngumáta.
Yfir þessu má gleðjast. En betur má ef duga skal. Ríkisstjórn Íslands hefur lítið látið af sér kveða til að styðja við breytt samgöngumynstur. Innantóm orð eins og „orkuskipti“ heyrast gjarnan. Þá er átt við að fólk eigi frekar að aka um á rafbílum, frekar en dísel-eða bensínbílum. Frekari metnaður væri æskilegur og fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi verða engin „skipti,“ nema þá ef dísel-og bensínbílum sé skilað jafn ört og rafbílar eru fluttir inn. Munum að rafbílar taka jafn mikið pláss, krefjast jafn mikils malbiks með öllum þeim kostnaði sem lagning og viðhald þess krefst, skapa jafn mikið svifryk og sótmengun og drepa alveg jafn mikið af fólki og dísel-eða bensínbílar.
Hátt í 1500 manns hafa dáið vegna bíla á undanförnum 99 árum, eða frá því að ekið var yfir Margréti Ólöfu Helgadóttur, þá 66 ára húsfreyju frá Norður-Múlasýslu, og varð þar með fyrsta fórnarlamb bíls á Íslandi. Síðan þá hafa bílar valdið um 14,5 dauðsföllum á ári að meðaltali. Þá eru ótalin þau dauðsföll sem má rekja til öndunarfærasjúkdóma vegna svifryks-og sótmengunar, sem eru talin yfir 100 á ári hverju og fer fjölgandi með síaukinni bílaumferð. Myndum við sætta okkur við slíkar tölur í einhverjum öðrum kima samfélagsins? Ef 1450 sjómenn hefðu dáið á síðustu öld, myndum við líta á það sem „nauðsynlegan“ fórnarkostnað? Væru vatnslindir okkar mengaðar svo 1450 einstaklingar hefðu dáið á einni öld, myndum við halda áfram að drekka það vatn? Eða væri þá ef til vill tími til að staldra við og hugsa, hvort við gætum gert betur? Er það ekki?
Við þurfum aðgerðir stjórnvalda. Við þurfum menntun barna, unglinga, fullorðinna í kostum þess að stunda bíllausan lífsstíl. Við þurfum sterkari almenningssamgöngur, betri innviði fyrir hjólreiðafólk og við þurfum þéttari og sjálfbærari hverfi. Bílaumhverfið sem var skapað í Reykjavík með fyrsta aðalskipulagi borgarinnar sem samþykkt var árið 1959, var pólitísk ákvörðun. Svipaðar ákvarðanir voru teknar víða í Evrópu á sama tíma. En það er einnig hægt að taka pólitískar ákvarðanir til að snúa við þessari þróun. Það er nefnilega engin tilviljun að Holland er höfuðstaður hjólreiðamenningar, eða að Kaupmannahöfn sé sú borg á Norðurlöndum sem hefur fæsta bíla. Það voru markvissar aðgerðir yfirvalda, á ríkis-og sveitastjórnarstigi, sem lögðu grunn að þessari þróun.
Í Kaupmannahöfn eru í dag um 270 bílar á hverja 1000 íbúa. Í Reykjavík, við síðustu talningu, voru 806 bílar á hverja 1000 íbúa. Það eru óhugnanlegar tölur. En munum að svona var þetta ekki alltaf í Kaupmannahöfn. Í byrjun 8. áratugar síðustu aldar voru meira að segja hlutfallslega fleiri bílar í Kaupmannahöfn en í Reykjavík. Þessu var einfaldlega breytt, með pólitískum aðgerðum. Og já, ef fólk segir að það sé of kalt til að hjóla yfir veturinn má benda á, að það munar ekki nema einni gráðu á meðalhita í desember, janúar og febrúar, köldustu mánuðum ársins, milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur.
Vilji Íslendingar leggja sitt af mörkum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, verðum við að huga að samgönguvenjum okkar. Þar eru okkar helstu tækifæri. Rétt er einnig að hafa í huga að einkabíllinn er ekki aðeins mengandi, kostnaðarsamur og beinlínis hættulegur fólki ¬¬¬– hann gerir okkur einnig að hræðilega lélegum neytendum. Ofneysla, ofkaup, matarsóun, má að miklu leyti rekja til þess að fólk hleður bíla sína fulla af vörum sem það þarf ekki á að halda. Með því að versla innan hverfis, gangandi eða hjólandi, sparar fólk sér eldsneytispening, fær nauðsynlega útiveru, og kaupir um leið það sem það þarfnast, án þess að kaupa um of. Það hlýtur að vera jákvætt fyrir allt fólk. Monní, heilsa, og smá bros í samviskukladdann fyrir að vernda umhverfið. Ekki slæmt.
Í dag er Bíllausi dagurinn og við skulum endilega fagna honum. Það þýðir ekki að dvelja í fortíðinni, „don’t look back,“ eins og skáldið sagði. Horfum fram á veginn, fögnum því sem vel hefur verið gert. Það er meira að segja enn hægt að ganga niður Laugaveginn og enn leyfir veðrið okkur að hjóla, ganga og njóta útiveru svo vel sé. Treystið mér, eftir að hann verður bíllaus allt árið, verður hann nákvæmlega eins og reykingarbannið. Eitt, tvö ár líða og fólk mun hreinlega staldra við og hugsa: „Ég trúi ekki að það hafi mátt keyra bíl hérna, hvernig gat það verið?“ Og, já, svo er frítt í Strætó í dag!
Tækifærin eru víða til að gera betur, nú er það okkar að grípa þau. Til hamingju með daginn!
Höfundur er meistaranemi í borgarfræðum við Bauhaus-háskólann í Weimar.