Í tilefni umræðna um kjarnorku-afvopnun verður hér gerð tilraun til að bregða ljósi á þrjár ástæður þess að aldrei hefur gengið að afla stuðnings meirihluta þingheims við frumvörp sem kveða á um að Ísland verði kjarnorkuvopnalaust svæði, þrátt fyrir gríðarlega hagsmuni Íslands á hafsvæðum vegna fiskimiða. Þrettán slík frumvörp hafa litið dagsins ljós, hið fyrsta árið 1987 og nýjasta tilraunin var gerð á löggjafarþinginu 2017-2018. Þó lög frá Alþingi megni aðeins að friðlýsa forráðasvæði Íslands (landsvæði, innsævi, lofthelgi og landhelgi), gætu slík lög verið fyrsta skrefið í átt að samstarfi við önnur ríki um kjarnorkuvopnalaust svæði.
Frumvörp hafa ekki samrýmst þjóðarétti
Ein af ástæðum þess að ekki hefur gengið að setja lög um kjarnorkuvopnalaust svæði á Íslandi er að frumvörp þess efnis hafa kveðið á um friðlýsingu svæða þar sem Ísland hefur ekki fullt ríkisvald. Dr. Bjarni Már Magnússon benti á þetta árið 2009. Hann sagði einnig að lítið hafi farið fyrir umræðum hér á landi um hvaða leiðir eru færar í þessum efnum. Þá fór hann í smáatriðum yfir ákvæði frumvarps um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum frá árinu 2008, og benti á hverju þyrfti að breyta, svo frumvarpið samræmdist þjóðarétti, meðal annars meginreglu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um siglingafrelsi. Samt sem áður var samhljóða frumvarp lagt fyrir Alþingi þingveturinn 2017-2018. Engan skyldi undra að frumvarpið rann út í sandinn.
Í greinargerð er frumvarpið rökstutt með því að nýlega hafi verið samþykkt þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland (2016), þar sem kveðið sé á um að að Ísland og íslensk landhelgi verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum (10.mgr.). Í greinargerðinni er ekki vikið einu orði að Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hér erum við komin að því sem ég held að sé kjarnaatriði, það er að fólk sem brennur fyrir málefninu virðast ekki hlusta á fólk sem bendir á bilun í vélinni og hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar, sé ætlunin að renna bílnum úr hlaði.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild okkar að NATO
Önnur ástæða fyrir því að erfiðlega hefur reynst að fá frumvörp um kjarnorkuvopnalaust svæði samþykkt á Alþingi er sú skoðun margra að slík friðlýsing rími illa við veru okkar í NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Ísland verði að velja á milli hernaðarsamvinnu eða friðlýsingar fyrir kjarnorkuvopnum. Fólk hefur því skipt sér í tvo hópa. Það merkilega er að báðir hóparnir eru sammála um hvert markmiðið er. Markmiðið er friður og öryggi. Hópanna greinir aðeins á um leiðir að markmiðinu.
Í því samhengi er áhugavert að þjóðaröryggisstefna Íslands kveður bæði á um að Ísland verði kjarnorkuvopnalaust svæði og aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin (3.-4. mgr.). Óneitanlega vaknar sú spurning hvort þjóðaröryggisstefnan sé í mótsögn við sjálfa sig, eða hvort hægt sé að ná markmiðinu um kjarnorkuvopnalaust svæði, á sama tíma og Ísland á í hernaðarsamstarfi.
Benda verður á að hægt er að nefna dæmi þess að slitnað hafi upp úr varnarsamstarfi við Bandaríkin í kjölfar þess að ríki lýsti land sitt og landhelgi kjarnorkuvopnalaust svæði. Það gerðist á níunda áratugnum, þegar Bandaríkin slitu varnarsamstarfi við Nýja-Sjáland. Bandarískir embættismenn svöruðu því til að Bandaríkin gætu ekki lagað sig að breytingunni, vegna þeirrar reglu bandarískra hermálayfirvalda að svara aldrei neinu um hvort tiltekin skip bæru kjarnorkuvopn eða ekki. Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar og áherslubreyting orðið hjá bandarískum yfirvöldum hvað varðar kjarnorkuvopn um borð í skipum. Ekki er ljóst hvort kjarnorkuvopnalaust svæði hér á landi hefði áhrif á varnarsamstarfið við Bandaríkin.
Hvað varðar aðildina að NATO þá er í flestum tilfellum lagalega mögulegt fyrir NATO-ríki að vera ekki undir hinni svokölluðu kjarnorku-regnhlíf bandalagsins, samkvæmt áliti frá lögfræðideild Harvard-háskóla (júní 2018). Í stórum dráttum er ástæðan sú að Atlantshafssáttmálinn nefnir ekki kjarnorkuvopn. Þó það komi fram í öryggis- og hermálastefnu NATO frá árinu 2010 að bandalagið reiði sig á kjarnorkuvopn, þá er það ekki lagalega bindandi skjal heldur pólitísks eðlis. Auk þess er ekki krafist einróma stuðnings við öryggis- og hermálastefnuna heldur eru frávik umborin. Þá er mikilvægt að benda á að öryggis- og hermálastefna NATO hvetur til kjarnorkuafvopnunar og stefnir að því að skapa aðstæður fyrir heim án kjarnorkuvopna. Af framansögðu má ætla að kjarnorkuvopnalaus svæði séu samrýmanleg langtíma markmiðum NATO.
Pólitíska spurningin
Bent hefur verið á að pólitísk áhætta getur fylgt því að ríki fari undan kjarnorkuregnhlíf NATO, eða geri á annan hátt löglega fyrirvara í samstarfi við stóra og sterkra aðila. Í þessu sambandi má benda á að þó svo kunni að vera almennt, þá á það ekki að öllu leiti við í núverandi öryggisumhverfi, gagnvart Íslandi. Ástæðan er sú að landfræðileg lega Íslands er aftur orðin gríðarlega mikilvæg fyrir NATO og Bandaríkin. Fyrir Ísland þýðir þetta að við erum í stöðu til að gera kröfur og setja fyrirvara.