Hvernig munum við taka á okkar Kavanaugh-málum?

Bára Huld Beck blaðamaður veltir fyrir sér sannleikshugtakinu og þeirri afstöðu sem fólk – og samfélagið í heild sinni – tekur með eða á móti þeim sem segjast hafa orðið fyrir ofbeldi eða áreitni.

Auglýsing

Ég sat fyrir framan tölvuna mína í vinnunni og horfði á yfirheyrslur öldungardeildar Bandaríkjaþings yfir dómaraefni Trumps í Hæstarétt, Brett Kavanaugh, og konunni sem sakar hann um kynferðisbrot, Christine Bla­sey Ford. Skemmst er frá því að segja að ólíkar tilfinningar bárust í brjósti mér við að heyra þau tala og ég tók strax afstöðu, ég fann hvoru ég trúði.

Það er nefnilega þannig að fólk hefur tilhneigingu til að taka afstöðu annað hvort með fórnarlambi eða meintum árásaraðila með því að trúa frásögn annars hvors. Það er auðvitað ekki alltaf auðvelt, enda flækjast málin þegar frásagnir af atburðum eru ólíkar og fólk er ósammála um hvað gerst hefur.

Mundi mest eftir hlátrinum

Í þessu máli – sem tröllríður Bandaríkjunum um þessar mundir – skiptist fólk í tvær fylkingar; annað hvort trúir fólk Ford eða Kavanaugh og hópast það við styðja „sinn“ mann eða konuna.

Auglýsing

Ford sak­ar Kav­an­augh sem sagt um að hafa reynt að af­­klæða hana, haldið henni fang­inni ásamt öðrum manni, og káfað á henni þegar hún var fimmtán ára og hann sautján ára, fyrir þrjátíu og sex árum síðan.

Hún sagðist í yfirheyrslum öldungadeildarinnar vera hundrað pró­sent viss um að það hefði verið Brett Kavan­augh sem braut gegn henn­i og að atvikið hefði markað líf hennar og haft mikil and­leg og lík­am­leg áhrif á hana. Þegar Ford var spurð um hvað hún mundi helst frá þessu kvöldi með mönnunum tveimur, meðan annar hélt henni niðri og hélt fyrir munninn á henni og hinn horfði á, þá var svar hennar skýrt og greinilegt: hláturinn. Hrossahláturinn þegar þeir skemmtu sér á kostnað hennar.

Kavan­augh kom einnig fyrir þing­nefnd­ina og neit­aði með öllu að hafa brotið gegn henni og sagð­ist ekk­ert hafa að fela. Hann var í miklu upp­námi meðan hann las upp yfir­lýs­ingu sína og vitn­aði í eigin dag­bæk­ur, máli sínu til stuðn­ings, og sagði frá­sögn Ford ekki passa við það sem hann hefði skrá­sett. Hann hefði ekki verið í sam­kvæmi með Ford þessa helgi – eins og hún hefði sagt – og dag­bæk­urnar sýndu það.

Hvað segir innsæið okkur?

Allir þeir sem horfðu á útsendinguna frá yfirheyrslum öldungadeildarinnar hafa orðið fyrir einhvers konar áhrifum; fólk velur hvoru það vill trúa, það treystir á framburð og þær upplýsingar sem liggja fyrir. Við sem horfum á tölvu- eða sjónvarpsskjáinn og hlustum, reynum að púsla saman viðburðunum og meðtaka tilfinningarnar.

Því það er hið eina sem við höfum í tilfellum sem þessum. Þegar tveir einstaklingar segja sitt hvora söguna er okkur vandi á höndum. Við hin vorum ekki þarna og getum þar af leiðandi ekki með hundrað prósent vissu sagt til um hvað gerðist. En í öllu þessu mati upplýsinga og ályktanna gleymist líka eitt sem skiptir gríðarlegu máli. Nefnilega hvað innsæið segir okkur. Hvor frásögnin er trúverðugri? Hvaða frásögn trúum við að sé sönn?

Brett Kavanaugh ber vitni.

Sannleikurinn er ekki afstæður

En veltum fyrir okkur hugtakinu sannleikur. Sannleikur er ekki afstæður. Við höfum fullyrðingar sem við köllum sannleika eins og stærðfræðilegar fullyrðingar. Niðurstöður sem eru óhrekjanlegar út frá gefnum forsendum.

Atburðir gerast á einhvern einn hátt. Tökum hversdagslegt dæmi – til þess að setja sannleikann í samhengi. Ef ég missi kaffibollann minn í gólfið núna og innihaldið gusast í allar áttir, þá sjást vegsummerki þess á gólfinu, veggjunum og mér. Ég missi kaffibollann svo sannarlega. Mörgum árum síðar hefur þessi atburður þurrkast úr minni mínu en atburðurinn átti sér samt sem áður stað. Engin tuska dugir til að eyða honum.

Vegsummerki af alvarlegum atburðum sitja lengur eftir en kaffiblettir, oft bæði á sál og líkama. Það sem flækir málin er upplifun okkar á atburðum sem gerast. Ég hef frábrugðnar minningar af atburðum sem áttu sér stað til að mynda fyrir tíu árum síðan en fólkið í kringum mig. Veruleiki okkar er sá sem við búum við nákvæmlega á þessu augnabliki en hann býr einnig í sjálfsmynd okkar og reynslu.

Málið prófsteinn eftir #metoo

Ég trúi því – og vel að trúa því – að Ford segi satt þegar hún lýsir atburðum sem áttu sér stað fyrir yfir þrjátíu árum. Það sama á við um margar frásagnir sem komið hafa upp á yfirborðið í kjölfar metoo-byltingarinnar. Og það er mikilvægt að við tökum afstöðu með fólki sem segir frá reynslu sinni – þegar við metum veruleikann út frá öllum þessum forsendum sem ég hef útlistað hér á undan.

Kavanaugh segir að þetta hafi ekki verið hann. Með engu móti er hægt að segja til um hvort hann sé að segja satt eða ekki – kannski telur hann sig jafnvel vera fórrnarlamb falskra minninga eða pólitískra ofsókna. Eða hann er einfaldlega að ljúga.

En þegar ásökun um svo alvarlegan hlut er borin á borð með þessum hætti, þá er ekki stætt á því að hann sinni jafn ábyrgðarmiklu hlutverki og starfi eins og til stendur að setja hann í. Til þess er efinn of mikill vegna þess að í því liggur fordæmið. Þetta er prófsteinn hvernig bandaríska þjóðin ætlar að taka á málum sem þessum í náinni framtíð.

Eftir allt þetta – og þrátt fyrir vitnisburð Ford – var tilnefning Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara samt sem áður samþykkt í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á föstudaginn með ellefu atkvæðum gegn tíu. Hvaða skilaboð sendir það okkur hinum?

„Hva, má nú ekkert?“

Þessar yfirheyrslur eru enn fremur prófsteinn fyrir aðrar þjóðir og einnig fyrir okkur hér á landi. Enn eru mörg óupplýst mál sem liggja í rykföllnum skápum víða í samfélaginu. Uppgjörið er rétt að hefjast. Ég fjallaði mjög bjartsýn um áhrif #metoo í pistli í desember á síðasta ári og sá fyrir mér að nýr samfélagssáttmáli væri nú í fæðingu. Að þær konur sem væru nú að brjóta þagnarmúrinn væru raunverulega að bæta heiminn. Þetta á enn við; viðhorfin eru að breytast og fleiri fá stuðning til að stíga fram og segja frá reynslu sinni. En bakslagið er líka sýnilegt.

„Hva, má nú ekkert?“ spyr fólk og agnúast yfir því að ekki megi lengur trukka og troða sér í sleik.

Svarið er einfalt. Nei. Það má ekki trukka og troða sér í sleik. Ýmsa hluti sem ekki eru bannaðir með lögum má ekki heldur gera – því lögin eru takmörkuð. Ef yfirmaður sendir starfsfólki sínu óviðeigandi tölvupósta með kynferðislegum undirtóni, þá er það ekki í lagi. Það er ekki lagi – þrátt fyrir að vera löglegt – að gera lítið úr annarri manneskju og niðurlægja.

Samfélagið setur viðmiðin

Ábyrgðin er enn ríkari þegar einstaklingar sitja í valdamiklum stöðum. Kröfurnar sem samfélagið gerir til þeirra eru meiri og er það líka fullkomlega skiljanlegt. Að hafa forseta, dómara eða þingmann sem sýnir öðrum slíka vanvirðingu, áreitir eða beitir ofbeldi er fordæmisgefandi eins og ég kom inn á áðan. Augljóslega – svo augljóslega að það er vandræðalegt að taka það fram – ætti enginn að haga sér svona.

Samfélagið ákveður líka hver refsingin er fyrir hegðun sem þessa því almenningsálitið er það viðmið sem við höfum. Fellibylurinn stendur yfir núna, frásagnir kvenna eru að breyta því hvað er leyfilegt – og hvað ekki.

Ford er ekki ein, við hlið hennar standa milljónir kvenna með svipaða reynslu og það sama má segja um veruleika íslenskra kvenna. Hér á landi munu vera sömu prófsteinar og þá er spurningin hvernig við munum sem samfélag taka á slíkum tilfellum – okkar Kavanaugh-um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit