Í framhaldi af kæru nokkurra náttúruverndarsamtaka og veiðréttarhafa felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nýlega úr gildi leyfi fyrirtækjanna Fjarðalax og Arctic Sea Farm til að framleiða 17.500 tonn af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Úrskurðurinn er sérstakur í ljósi þess að leyfin rúmast vel innan þess ramma sem fiskeldi eru sett á Íslandi og þeirrar bestu vitneskju sem við höfum um umhvefisáhrif fiskeldis. Burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar gerir ráð fyrir að hægt sé að ala allt að 50.000 tonn á Vestfjörðum án þess að valda skaðlegri mengun. Eins gerir áhættumat Hafrannsóknarstofnunar ráð fyrir að ásættanlegt sé að ala sama magn á Vestfjörðum án þess að villtum stofnum sé stefnt í hættu. Bæði burðarþolsmatið og áhættumatið eru byggð á rannsóknum og reynslu annarra þjóða af laxeldi.
Fyrir úrskurðinum um að fella leyfi fyrirtækjanna úr gildi eru færð ýmis lagatæknileg rök, en kjarninn málsins, og sá sem niðurstaða nefndarinnar byggir aðallega á, er að í umhverfismati hafi ekki verið reifaðir aðrir valkostir við framleiðsluna. Nefndin nefnir ekki í niðurstöðu sinni hverjir þessir valkostir gætu verið, en í kærunni eru nefndir valkostir á borð við eldi á laxi í kerjum á landi, eldi í lokuðum kvíum eða að notaður verði þrílitna geldlax. Enginn þessa kosta er raunhæfur og færi ég rök fyrir því hér að neðan.
Heyrst hafa fullyrðingar um að Norðmenn séu að færa allt sitt laxeldi upp á land. Þetta er alrangt, því minna en 0,1% af þeim 2,5 milljónum tonna sem árlega eru framleidd af laxi í heiminum koma úr landeldi og það mun ekki breytast mikið í bráð. Vissulega eru uppi áform um byggingu stórra landeldisstöðva í Noregi, BNA og víðar, en reynslan af slíkri starfsemi gefur því miður ekki tilefni til bjartsýni. Raunar hafa Íslendingar meiri reynslu af landeldi á laxi en nokkur önnur þjóð. Fiskeldisstöðin Silfurstjarnan hefur í nærri 30 ár alið lax í markaðsstærð, 1000-1500 tonn ári, og er eina fyrirtækið í heiminum sem hefur náð að skilað hagnaði af landeldi á laxi. Til að ala 17.500 tonn af laxi á ári í kerjum þarf hátt í 17.000 lítra á sekúndu af sjó og umtalsverðan jarðhita, sem ekki er fyrir hendi á Vestfjörðum. Þess vegna er landeldi mögulegt á háhitasvæðum í Öxarfirði og á Reykjanesi, en ekki á Vestfjörðum. Þessi valkostur er því augljóslega óraunhæfur.
Til er útfærsla af landeldi þar sem vatn er endurnýtt með sérstökum búnaði og þar er mun minni vatns- og hitaþörf. Þetta hefur gefið góða raun t.d. í seiðaframleiðslu á laxi í Noregi og Færeyjum, en tilraunir til að ala lax í markaðsstærð við þessar aðstæður, m.a. í Danmörku, hafa misheppnast hingað til; fyrirtækin hafa annað hvort hætt starfsemi eða eru rekin með halla þrátt fyrir að verð á laxi hafi verið óvenjuhátt undan farin ár. Ýmis vandamál hafa komið upp við framleiðsluna, sem orðið hafa til þess að ekki hefur tekist að standa við framleiðsluáætlanir. Það sem mestu mál skiptir er þó að stofnkostnaður og rekstrarkostnaður í landeldi eru umtalsvert hærri en í kvíaeldi og þess vegna mun landeldi alltaf standa höllum fæti í samkeppni við kvíaeldi. Þessi tækni gæti gert landeldi á laxi á Vestfjörðum að raunhæfum valkosti í framtíðinni, en svo er ekki sem stendur.
Framþróun í eldistækni hefur verið hröð á undanförnum árum og hafa laxeldisfyrirtæki lagt mikið fé í að þróa nýjan og traustari búnað til eldis. Verið er að prófa ýmsar útfærslur af lokuðum eldiseiningum í sjó t.d. lokaða kvíapoka, fljótandi ker, en einnig stórar opnar úthafskvíar. Líklegt er að þessi þróunarvinna muni skila nýjum valkostum í fiskeldi í framtíðinni. Það eru hins vegar einhver ár í að þessar aðferðir verði raunhæfur valkostur í rekstri laxeldis.
Það sama á við um framleiðslu á geldum þrílitna laxi. Unnið er að tilraunum með eldi á slíkum laxi í Noregi og á Íslandi þar sem Hafrannsóknasstofnun og Háskólinn á Hólum vinna að rannsóknum á þessu sviði í samstarfi við fiskeldisfyrirtæki. Reynslan af eldi þrílitna laxa í Noregi hefur leitt í ljós ýmsa vankanta sem enn á eftir að leysa. Framleiðsla á geldlaxi með öðrum aðferðum er enn á rannsóknarstigi og á engan hátt hægt að halda því fram að þetta sé orðinn raunhæfur kostur.
Að sjálfsögðu hefur fiskeldi, eins og öll önnur matvælaframleiðsla, umhverfisáhrif, en þeim má halda innan ásættanlegra marka með ströngum reglum og eftirliti. Hvoru tveggja er þegar er til staðar hér á landi. Samkvæmt bestu upplýsingum sem við höfum, á það ekki að stefna umhverfi eða villtum laxastofnum í hættu þó framleiðsla aukist í samræmi við fyrrgreind útgefin starfsleyfi. Ég kem ekki auga á raunhæfan valkost fyrir eldi á laxi á Vestfjörðum annan en að ala fiskinn í kvíum.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leggur ofuráherslu á að skoðaðir verði aðrir valkostir í umhvefismati eða eins og segir í úrskurðinum: „...er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats...“. Hvað ef ekki er fyrir hendi nema einn raunhæfur valkostur eins og bent hefur verið á hér að ofan? Er það raunverulega krafa nefndarinnar að í hverju umhverfismati sé búinn til (fræðilegur) valkostur, a.m.k. einn strámaður, sem síðan er hægt að fella og þá liggi hin rétta niðurstaða fyrir?
Höfundur er prófessor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.