Fé sem sótt hefur verið til almennings, beint og óbeint, stendur undir stærstum hluta framkvæmda á landinu og öllum opinberum innkaupum. Okkur stjórnmálamönnum er svo treyst til að ráðstafa þessum fjármunum og er mikil ábyrgð fólgin í því. Það eitt og sér ætti að vera næg hvatning til að gæta ráðdeildar og hagkvæmni en samt sjáum við síendurtekið merki um hið gagnstæða.
Kjörnir fulltrúar Viðreisnar hafa í störfum sínum haft þessi markmið að leiðarljósi enda flokkur sem setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Til að mynda voru reikningar ríkisins opnaðir á vefnum opnirreikningar.is í tíð Benedikts Jóhannessonar í fjármálaráðuneytinu. Einnig lögðu þingmenn Viðreisnar fram þingsályktunartillögu á vorþingi 2018 um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Sú tillaga felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra útfæri stefnumörkun með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Það er mikilvægt þegar farið er með opinbert fé að áætlanir standist, gæði séu tryggð og ef ófyrirséð vandamál komi upp sé hægt að staldra við og taka upplýsta ákvörðun um framhaldið. Í greinargerð með tillögunni segir m.a.: „Það er gömul saga og ný að allt of mörg slík verkefni rísa ekki undir þeim kröfum sem til þeirra hafa verið gerðar og þau uppfylla ekki þær þarfir sem að var stefnt. Nægir að nefna að kostnaður fer úr böndum, framkvæmdatími verður miklu lengri en til stóð og oft veita þau ekki þann ávinning sem að var stefnt. Skýringar á þessu eru örugglega margvíslegar og margar þeirra samverkandi. [...] Mikilvægt er að líta á þetta sem viðvarandi ferli úrbóta og lærdóms sem leiðir hægt og bítandi til árangurs. Þetta er alls ekki átaksverkefni sem hægt er að ljúka á skömmum tíma.“
Því miður sjáum við allt of mörg dæmi um verkefni sem fara úr böndum, óþarft er að týna til dæmi – þau eru öllum kunn. Augljóst er að skerpa þarf á reglum um vandaðan undirbúning opinberra framkvæmda, og stuðla að skýrum og opnum ferlum. Nauðsynlegt er að verkefnisstjórn sé skýr auk þess sem ábyrgð á að framkvæmd standist markmið um verktíma, gæði og kostnað verður að vera vel skilgreind. Hvað ríkið varðar er boltinn nú í höndum fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, en hvað Reykjavíkurborg varðar er boltinn í okkar höndum. Fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórn eru staðráðnir í því að innleiða verklag af þessu tagi innan borgarinnar auk þess að opna reikninga borgarinnar enn frekar og tryggja þannig borgarbúum aðgang að lykiltölum og mælaborðum.
Viðreisn hefur að leiðarljósi að nýta almannafé vel þannig að almenningur hagnist sem mest og þar er borgin engin undantekning. Arður samfélagsins af þeirri vinnu og fjármunum sem verður varið til úrbóta á þessu sviði mun án nokkurs vafa skila sér margfalt til baka með betri árangri og hagkvæmari verkefnum.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs Reykjavíkur og Jón Steindór Valdimarsson er þingmaður Viðreisnar.