Niðurstaða meirihluta Landsdóms var að sýkna bæri Geir af öllum ákærum nema þeirri sem laut að ákæru um brot gegn 17. gr. stjórnarskrárinnar. Að mínu mati stuðlaði framburður vitnanna að sýknunum Geirs en forðaði honum ekki frá sakfellingu á einum lið ákærunnar. Ekki þótti sannað að hægt hefði verið að bjarga fjármálakerfinu á vakt Geirs sem forsætisráðherra. Þvert á móti töldu mörg vitni að síðasta tækifærið til markvissra aðgerða hafi verið ári áður en ríkisstjórn Geirs var mynduð sumarið 2007. Öðru máli skipti um ákæruna um brot á þeirri starfsskyldu Geirs sem forsætisráðherra að sjá um að fjallað væri um mikilvæg málefni á ríkisstjórnarfundum. Þar taldi meirihluti Landsdóms að ekki skipti máli sá framburður Geirs og annarra ráðherra að ekki hefði tíðkast í ríkisstjórnum fyrr eða síðar að viðhafa slíka formfestu. Mörg mikilvægustu mál væru að sögn vitna rædd óformlega áður en ríkisstjórnarfundur hæfist eða einfaldlega að oddvitar ríksstjórnarflokka semdu sín á milli um þau. Einnig kom fram ótti ráðherra um að viðkvæmum málum yrði lekið til fjölmiðla væru þau á vitorði margra ráðherra. Meirihluti Landsdóms ákvað að túlka 17. gr. stjórnarskrárinnar bókstaklega, að hefð og venjur breyttu ekki ákvæðum hennar.
(Verður þessi niðurstaða Landsdóms að teljast hin merkilegasta, ekki síst vegna þess að íslenskir fræðimenn – lögfræðingar og stjórnmálafræðingar - túlkuðu yfirleitt 26. gr. stjórnarskrárinnar um málskotsrétt forseta Íslands á þann veg að hefðin hefði nánast numið þetta ákvæði úr gildi. Það hefði aldrei verið notað og beiting þess væri ekki við hæfi. Þessi túlkun reyndist á sandi byggð.)
Oddvitar ríkisstjórnarinnar 2007-2009 voru þau Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra ásamt Ingibjörgu Gísladóttur, formanni Samfylkingar og utanríkisráðherra. Hin opinbera mynd var að á milli þeirra tveggja ríkti mikið traust og að samskiptin einkenndust af heilindum – jafnvel persónulegri vináttu. Saman tóku þau höndum saman um að leiða tvo stærst flokka landsins saman í ríkisstjórn þrátt fyrir langvarandi væringar þar á milli og andstöðu sterkra afla í Sjálfstæðisflokknum. Framburður þeirra beggja fyrir Landsdómi staðfestir að í reynd voru samskiptin með þeim hætti sem birtist í fjölmiðlum. Samband þeirra við landsstjórnina var heilt frá upphafi til endaloka ríkisstjórnarinnar í ársbyrjun 2009.
Fyrirmyndina að „oddvitaræði“ Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar er ótvírætt að finna í stjórnarháttum forvera þeirra Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra. Samstarf Davíðs og Halldórs var mjög náið allt frá ríkisstjórnarmyndun þeirra árið 1995 og náði nýjum hæðum eftir þingkosningar 2003 þegar þeir sömdu um að skiptast á ráðherrastólum síðla árið eftir: Halldór yrði þá forsætisráðherra en Davíð utanríkisráðherra.
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson mynduðu sannkallað oddvitaræði. Að mínu mati má helst skýra sameiginlegan styrkleika Davíðs og Halldór með þremur samverkandi þáttum:
- Traust og trúnaður ríkti á milli oddvita ríkisstjórnarinnar.
- Hvor um sig hafði flokksformaðurinn full tök á sínum ráðherrum og flokknum í heild.
- Í sameiningu höfðu þeir vald til að leiða öll mikilvægustu mál til lykta – hvort sem um var að ræða einkavæðingu bankanna eða ákvörðun um að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak.
Hvorki Geir né Ingibjörg Sólrún höfðu tök á sínum flokki. Geir að vísu gott samband við alla ráðherra síns flokks en utan ríksstjórnarinnar situr Davíð Oddsson aðalbankastjóri Seðlabankans. Í framburðum allra kemur fram hversu fyrirferðarmikill hinn fyrrverandi flokksformaður og forsætisráðherra er. Á öllum fundum – jafnt með bankastjórum, einstökum ráðherrum eða ríkisstjórninni – er það Davíð Oddsson – sem hefur orðið. Stíll Davíðs er mjög persónulegur: Samkvæmt framburði vitna dregur Davíð bankana í dilka: hann er „fjandmaður“ Kaupþings og Glitnis en vinur Landsbankans. Ráðherrar sitja og hlusta þegar Davíð er „í ham“, þeir bíða eftir að látunum ljúki en gera ekker með aðvaranir hans um veikleika bankanna enda leggur Davíð ekki fram neinar skriflegar skýrslur eða tillögur um viðbrögð.
(Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans kallaði Davíð Oddsson „fjandmann“ bankanna í sínum vitnisburði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti fyrir Landsdómi Davíð „í ham“ á mikilvægum fundi ráðherra og bankastjórnar Seðlabankans.)
Valdahlutföllin á milli Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar virðast hafa sótt fljótlega í fyrri farveg eftir myndun ríkisstjórnarinnar 2009. Geir tók ákvörðun um stjórnarsamstarfið gegn andstöðu Davíðs en vandi bankanna og íslensks efnahagslífs setti hinn sterka mann í Seðlabankanum aftur í lykilstöðu.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komst til valda í Samfylkingunni árið 2005 með því að fella flokksformanninn Össur Skarphéðinsson. Eftir sem áður hafði Össur sterka stöðu og leiddi lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningunum 2007. Einn af helstu bandamönnum Össurar, Björgvin G. Sigurðsson, var efstur á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ingibjörg neyddist til að velja þá sem ráðherra en þeir fengu í sinn hlut fremur veigalítil ráðuneyti iðnaðar og viðskipta sem áður voru oft á hendi eins ráðherra. Sjálf valdi Ingibjörg sæti utanríkisráðherra og tók af miklum krafti – ásamt forseta Íslands- til við ferðalög erlendis til að afla fylgis við umsókn Íslands til að hljóta sæti í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Samkvæmt eigin framburði og annarra vitna hafði Ingibjörg eingöngu formlegt samband við ráðherra bankamála, Björgvin G. Sigurðsson. Þegar Ingibjörg gat ekki setið neyðarfund í Seðlabankanum vegna yfirvofandi fjármálahruns kallaði hún til Össur Skarphéðinsson en ekki viðskiptaráðherra landsins.
Ólíkt Davíð Oddsyni og Halldóri Ásgrímssyni höfðu því Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hvorki stöðu í eigin flokki eða valdastöðu yfirleitt til að ráða mikilvægustu málum til lykta. Þau voru sannarlega máttlaus.
Vitnisburðirnir fyrir Landsdómi afhjúpa þannig djúpstæðan vanda íslenskra stjórnmála þar sem persónustjórnmál ríkja. Sérhver stjórnmálamaður er sem eyland, kemst í framboð með prófkjörum og starfar fyrst og fremst á eigin vegum. Flokkarnir hafa síðan ekki burði til að móta stefnu í mikilvægustu málum. Þannig var í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007 hvergi tekið á vanda fjármálakerfis sem þegar var orðið risavaxið að stærð. Frekar var gefið í og ráðist í stórfellda útrás í orkumálum (jarðhitaframkvæmdir). Bankakerfið hélt áfram að vaxa; í maí 2008 opnaði Landsbankinn meira að segja nýja Icesave-reikninga nú í Hollandi.
Heimatilbúið hrun
Vitnisburðir vitnanna fyrir Landsdómi ásamt framburði hins ákærða gefa ómetanlega yfirsýn á atburðarás sem var undanfari hruns íslenska fjármálakerfisins en einkum á hugarheim ráðamanna, samskipti þeirra, athafnir og athafnaleysi. Aðrar sögulegar heimildir um stjórnmál horfa gjarnan á hinn ytri veruleika stjórnmálanna og eru bundnar við þá mynd sem ráðamenn vilja að komi fyrir sjónir almennings. Hér er hulunni svipt í burtu og við blasir ófögur mynd af vanþróuðu stjórnmálakerfi þar sem mjög skortir á stefnumótun og markvissa stefnumótun hjá valdaflokkum landsins. Öll stjórnsýslan einkennist af ófaglegum vinnubrögðum. En bankamennirnir vita hvað þeir vilja og hafa greiðan aðgang að ráðamönnum fyrst við einkavinavæðingu bankanna og síðan varðandi viðbrögð við vanda fjármálakerfisins.
Þannig greinir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri frá því að samband hans við forsætisráðherrann Geir H. Haarde hafi lítið verið með formlegum fundum hins vegar hafa þeir rædd saman í kvöldkaffi hjá Geir um leiðir til að auka gjaldeyrisforða landsins. „Sko, við búum við sömu götu“ – sagði Sigurjón.
Afleiðingar íslenskra stjórnarhátta þekkjum við á eigin skinni: Ísland verður eina lýðræðisríkið í sögunni sem hrynur fyrst og fremst undan þunga heimatilbúinnar spillingar, vanhæfni, fúsks og frændhygli. Heimskreppa eða styrjaldir voru þar ekki örlagavaldar.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.