Það gera sér kanski ekki allir grein fyrir því, en á hverjum degi greiðum við atkvæði með neyslu okkar (eða með því að neyta ekki). Þannig getum við neytendur sent sterk skilaboð til fyrirtækja og haft víðtæk áhrif. Við getum þrýst á fyrirtæki og stjórnvöld um breytingar. En til þess þurfum við neytendur að standa saman. Sterk breiðfylking neytenda, sem berjast stöðugt fyrir hag félagsmanna og heimilanna í landinu, er hverju þjóðfélagi nauðsynleg.
Þau veita fyrirtækjum og stjórnvöldum aðhald, stuðla að heilbrigðari viðskiptaháttum og betra samfélagi. Fyrirtæki bindast samtökum sem gæta hagsmuna þeirra og auðvelda þeim aðgengi að ráðamönnum. Fjölmiðlar veita þeim sterkt aðhald og því er nauðsynlegt að styrkja þá með því að lesa þá og kaupa. En sterkasti vettvangur neytenda er samtakamáttur Neytendasamtakanna. Neytendasamtökin standa á tímamótum. Þau hafa að undanförnu gengið í gegnum mikla fjárhagslega endurskipulagningu sem hefur þó ótrúlega lítið bitnað á þjónustunni, en árlega koma tæplega 9000 mál koma á borð samtakanna. Þó ekki megi hvika frá því mikilvæga starfi sem samtökin hafa unnið síðastliðin 65 ár, þá er ljóst að margt má gera betur. Það þarf að endurvekja traust til samtakanna með faglegum vinnubrögðum sem byggja á gögnum og stóreflingu á sviði neytendarannsókna. Við þurfum að efla samstarf, bæði innanlands og við systursamtök í nágrannalöndum.
Við getum lært ótal hluti af þeim. Þá þarf að efla neytendavitund í samfélaginu með fræðslu í samstarfi við fjölmiðla og önnur hagsmunafélög. Koma þarf á reglulegri neytendafræðsla í skólakerfinu og í fjölmiðlum og gera meira úr degi neytendaréttar. Formaður Neytendasamtakanna ekki undir neinum kringumstæðum vera tengdur stjórnmálaflokki. Því þó starfsemin sé pólitísk í eðli sínu má hún alls ekki verða flokkspólitísk, því þá er hætta á að samtökin verði lítið annað en málefnanefnd stjórnmálaafls en ekki sú breiðfylking sem þau eiga að vera. Neytendasamtökin þurfa að starfa fyrir utan hið flokkspólitíska dægurþras og bera hag neytenda allra fyrir brjósti.
Ég er sannfærður að Neytendasamtökin nái vopnum sínum á ný og verði sú breiðfylking og umbreytingaafl sem íslenskt samfélag þarf og á skilið. En til þess að það megi verða þarftu að skrá þig í Neytendasamtökin og greiða atkvæði í kosningunum. Með því að kjósa, eða kjósa ekki, hefurðu áhrif á framtíð neytendamála á Íslandi. Skráningafrestur rennur út á miðnætti laugardaginn 20.október og kosningar fara fram viku síðar.
Höfundur er í framboði til formanns Neytendasamtakanna.