Einn af mikilvægustu fræðimönnunum innan þróunar barna er Esther Thelen en hún gaf út bók með kenningu sinni árið 1994. Kenningin fékk nafnið „Dynamical system approach“ eða það sem við myndum kalla virkt kerfi. Hennar kenning er innan þess sem kallað er líkindabundin formaukning en samkvæmt því er þróun einstaklings alltaf samspil milli erfða og umhverfis.
Þannig að áreiti er lykilatriði fyrir þróun. Rannsóknir Thelen hafa meðal annars sýnt fram á mikilvægi samhæfingar milli augna og handa (stöðuskyn). Sú samhæfing er grundvöllur þess að geta notað hendurnar til hinna ýmsu verka (seilast eftir og grípa) eins og að ná í leikföng og borða með skeið og gaffli. Börn með hreyfivandamál á aldrinum 6 til 8 ára eiga í vandræðum með samband sjónskyns og snertiskyns/hreyfingar. Sennilega hefur sá þáttur ekki þróast á réttan hátt fyrsta árið. Fræðimenn telja að slök samhæfing sé ein meginástæðan fyrir hreyfivandmálum, að sjálfsögðu í samspili með skorti á þjálfun. Þessi börn lenda inn í eins konar vítahring: Skert samhæfing – skert hreyfifærni – minni hreyfing – vöntun á áreiti.
Um 35% foreldra á Íslandi fara með börnin sín í ungbarnasund. Rannsóknir sýna að ungbarnasund sem inniheldur 2 tíma þjálfun í viku með börn á aldrinum 3 til 7/8 mánaða getur haft jákvæð áhrif á hreyfifærni barna hvað varðar fínhreyfingar (samhæfingu augna og handa) og grófhreyfingar (jafnvægi). Það að stjórna höndum og jafnvægi eru bæði þættir sem eru betri hjá börnum sem hafa verið í ungbarnasundi heldur en hjá samanburðarhópi sem ekki tók þátt í slíkri þjálfun. Talað er um að ungabörn byrji að standa upp við stól eða borð við 9 mánaða aldur. Fræðimenn hafa sýnt fram á að með sérhæfðri þjálfun, þar sem unnið er með styrk og jafnvægi, þá geta ungabörn staðið í lófa kennarans í yfir 15 sekúndur við 4.3 mánaða aldur.
Þannig má segja að snemmtæk íhlutun virkar í praksis, þ.e.a.s. að það sem þjálfað er þróast. Fræðimenn segja að ungbarnasund geti einnig haft jákvæð áhrif á einbeitingu, eftirtekt og athygli. Börnin eru að fylgjast með og skynfæri þeirra (sjónskyn, heyrnarskyn, lyktarskyn, snertiskyn, stöðuskyn) og taugakerfi er undir stöðugu fjölbreyttu áreiti í þann tíma sem þau eru í ungbarnasundinu. Það að fá fjölbreytt áreiti er gífurlega mikilvægt fyrir þróun heilans á öllum aldri. Heilinn vex og verður öflugri við þjálfun svipað og vöðvi. Fjöldi taugatenginga eykst með þjálfun.
Eftir fyrsta árið er mikilvægt að fara reglulega með barnið í sundlaug. Gefa því möguleika á að vaða, leika sér, svamla og eftir það byrja að reyna að synda. Sú stund sem maður ver með barni sínu í sundi er einnig mikilvæg. Við erum þá að gefa barninu fjölbreytt áreiti, mikilvæga hreyfistund og alhliða þjálfun á hreyfifærni í vatni. Þar að auki styrkist tengslamyndun milli foreldra og barns. Í sundi gefst tækifæri til að ræða málin og spjalla við barnið án truflunar frá snjallsímum, spjaldtölvum eða samfélagsmiðlum.
Hoppum út í laugina!
Höfundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi og Háskólann í Reykjavík.