Í þessari grein er sett fram sú kenning að rafbílar geti aukið efnahagslegan stöðugleika á Íslandi. Margt hefur verið rætt og ritað um rafbíla og hagkvæmni þeirra við íslenskar aðstæður. Fylgjendur rafbílavæðingar benda gjarnan á að rafbílar notist við innlenda orku sem er umhverfisvænni heldur en jarðefnaeldsneyti hefðbundinna bíla en andstæðingar rafbílsins benda m.a. tekjumissi ríkissjóðs vegna niðurfellingar á tollum og tapaðra skatta á eldsneyti. Í skýrslu hagfræðistofunnar frá 2016 var því spáð að rafbílar yrðu samt sem áður þjóðhagslega hagkvæmari kostur innan fárra ára. Sú spá byggði á ýmsum forsendum, m.a. að meðaltalshækkun á eldsneytisverði yrði um 5%. Á síðastliðnum tveimur árum hefur eldsneytisverð hins vegar hækkað um u.þ.b. 50% (í innkaupum til landsins) og því er ekki ólíklegt að þessi spá um þjóðhagslega hagkvæmni rafbíla hafi nú þegar ræst.
Það er óumdeilt að ríkissjóður verður af miklum tekjum ef stór hluti nýrra bíla eru tollfrjálsir rafbílar. Hins vegar ber minna á því í umræðunni að það skiptir talsverðu máli hvernig þjóðfélagsaðstæður eru þegar mesti tekjumissirinn á sér stað. Eins og við er að búast kaupa mun fleiri nýjan bíl í góðæri heldur en í niðursveiflu.
Tekjumissir ríkisins vegna tollfrjálsra rafbíla er því mun meiri þegar þjóðarbúinu gengur vel og ríkissjóður er betur í stakk búinn til að mæta slíkum tekjumissi. Engu að síður fer stærri hluti söluverðs nýs bíls úr landi þar sem rafbílar eru enn sem komið er dýrari í framleiðslu en sambærilegir hefðbundnir bílar. En þessi tímasetning er hjálpleg fyrir atvinnulífið í landinu, þetta aukna útflæði gjaldeyris úr þjóðarbúinu á sér stað á góðæristíma, þegar gengið styrkist yfirleitt (mynd XX) og það mun því auka stöðugleika krónunnar, þ.e. draga úr styrkingu hennar á uppgangstímum. Þegar (hin óumflýjanlega) niðursveifla kemur, dregur svo snögglega úr þessu útflæði gjaldeyris þegar fólk heldur að sér höndum í bílakaupum og veiking krónunnar verður minni í niðursveiflunni. En þar með er ekki öll sagan sögð: Í niðursveiflum hefur rekstrarkostnaður ökutækja ekki lækkað svo nokkru nemi í eins og innflutningur ökutækja hafa gert.
Stór hluti þessa „fasta“ rekstrarkostnaðar er erlent jarðefnaeldsneyti og innfluttir varahlutir. Með aukinni rafbílavæðingu lækkar þessi rekstrarkostnaður og umtalsverður gjaldeyrir sparast. Á mannamáli má taka þetta saman og segja að það sé gott fyrir þjóðarbúið að „eyða“ í rafmagnsbíla við innkaup þegar vel gengur og spara í innkaupum og eldsneyti þegar ekki gengur eins vel. Þess vegna vil ég hvetja stjórnvöld til þess að taka af allan vafa um að rafbílar og aðrir bílar sem ganga fyrir innlendu eldsneyti verði áfram undanþegnir sköttum eins og verið hefur og hagstæðast er fyrir þjóðarbúið til lengri tíma litið.