Nú er það verkalýðshreyfingunni að kenna að gengið er að falla og nýir bílar seljast ekki. Sennilega verður verkalýðshreyfingunni næst kennt um hlýnun jarðar og slæmt gengi í Eurovisíon.
Þetta er kafli eitt í áróðursstríði sem mun standa næstu mánuði.
Baráttan er ekki síst háð í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og nú er verið að draga fram vopnin. Við erum þegar búin að fá að heyra um tvöföldun launakostnaðar, atvinnuleysi og samdrátt og verðbólgu og síðustu daga hefur svo verið bætt í og nú er það veiking krónunnar og bílasala.
Það getur vel verið að kröfugerð verkalýðsfélaganna sé frekar „bólgin“ og mögulega getur lært og gáfað fólk fært rök fyrir því að atvinnulífið standi ekki undir launakröfum og ríkissjóður ekki undir kröfum gagnvart stjórnvöldum.
Kröfur verkalýðsfélaganna eru merki um það að áralöngu samráði við stjórnvöld er lokið. Síðustu ár hefur þetta samráð reynst nánast algerlega verðlaust fyrir launafólk og stjórnmálaflokkarnir hafa farið sínu fram án þess að horfa til áherslna launafólks og hagsmuna. Kröfurnar eru líka merki þess að launafólk ætlar ekki að ábyrgjast stöðugleika og skynsemi í samfélaginu eitt síns liðs og með yfirstéttina á frímiða.
Samráðið hefur verið í orði en ekki á borði – við höfum alltaf þurft að kaupa dýru verði aðgerðir sem stjórnmálamennirnir lofuðu sjálfir fyrir kosningar. Við höfum líka keypt dýru verði svikna vöru – fyrirheit um aðgerðir sem ekki hefur verið staðið við. Við höfum líka keypt fyrirheit launagreiðenda dýru verði - fyrirheit sem farið hafa í bókanir í kjarasamningum og aldrei spönn lengra.
Á sama tíma eykst misrétti.
Gengið er að falla af því að eignafólk er að flytja peninga til útlanda – ekki af því að launafólk er að heimta réttan skerf af kökunni. Fyrir nokkru þegar andrúmsloftið titraði umhverfis WOW lét gengi krónunnar lítið eitt eftir og þá stóð ekki á Seðlabanka Íslands að grípa inn og beita sér til að styrkja stöðu krónunnar. En þegar launaþrælarnir leggja fram sínar kröfur og fjármagnseigendur byrja að flýja land í skelfingu – heyrist hvorki hósti né stuna úr Svartholinu á Arnarhóli.
Það er ekki hlutverk almenns launafólks að tryggja stöðugleika – til þess er fólk á launum. Hlutverk bílstjóra er að koma farþegum eða farmi skammlaust á milli staða. Hlutverk fiskverkafólks er að vinna afla sem á land berst. Hlutverk ríkisstjórnar og seðlabankastjóra er að tryggja stöðugleika og verðbólgumarkmið. Nú þegar launafólk leggur fram sínar kröfur – situr þetta lið á kantinum og vælir um áhrif á stöðugleika í stað þess að bretta um ermar og gera nauðsynlegar ráðstafanir.
Kröfugerð verkalýðsfélaganna er jafngilt áminningu í knattspyrnuleik. Stjórnvöld hafa verið áminnt og ef ekki verður brugðist við – verður rauða spjaldið dregið upp.
Það má vera að einhverjum finnist kröfurnar ósvífnar en það er af því að ófyrirleitni valdsmanna og auðvaldsins hefur verið mikil og staðið lengi. Ef einhver kemst upp með að stela af manni lágri upphæð mánaðarlega í mörg ár – er þá ósvífni að krefjast endurgreiðslu? Á sá sem stolið er af, að bjóða afslátt og afborgunarkjör af því þýfið er svo mikið?
Kröfum verkalýðsfélaganna verður ekki mætt með neinum smáskammtalækningum – heldur algerri vinkilbeygju í samfélagsmálum. Samfélagið á að vera fyrir okkur öll – ekki bara auðvaldið.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags.