Samkvæmt beiðni sjávarútvegsráðherra vinnur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að því að meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Mat Hagfræðistofnunar verður eitt af þeim gögnum sem leggja á til grundvallar ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um hvort veita ber fyrirtæki í eigu Kristjáns Loftssonar kvóta til veiða á langreyðum næstu fimm árin, 2019–2023.
Eini markaður Kristjáns Loftssonar fyrir langreyðarkjöt er í Japan. Allt frá miðjum níunda áratug síðustu aldar hefur verið bent á að markaðsaðgangur fyrir hvalkjöt í Japan sé torveldur vegna lítillar eftirspurnar og takmarkaðs áhuga japanskra stjórnvalda á að slíkt kjöt sé flutt inn. Kristján Loftsson hefur tekið undir þetta og sagði við Morgunblaðið 25. febrúar 2016: „Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan þegar við hófum aftur hvalveiðarnar 2009, eftir tuttugu ára hlé, þá hefðum við aldrei byrjað aftur.“
Kristján nefndi hins vegar ekki þau vandkvæði við flutning hvalkjöts til Japans að alþjóðleg viðskipti með langreyðarkjöt eru bönnuð samkvæmt CITES-samningnum enda er langreyður á heimslista yfir dýr í útrýmingarhættu. Verslun með hvalkjöt er jafn mikið bönnuð og verslun með fílabein.
Íslenskum stjórnvöldum hefur lengi verið kunnugt um að markaður fyrir langreyðarkjöt væri því sem næst dauður í Japan, en þó kosið að taka einkahagsmuni Kristjáns Loftssonar fram yfir almannahagsmuni á Íslandi í viðskiptum, alþjóðastjórnmálum, orðstír – og náttúruvernd.
Háhyrningar í útrýmingarhættu
Gleymum ekki að Ísland vann ötullega að verndun hafsins gegn mengun af völdum þrávirkra eiturefna, ekki síst PCB. Framleiðsla slíkra eiturefna er nú bönnuð. En PCB lekur frá urðunarstöðum og berst enn til sjávar. Fyrir vikið óttast vísindamenn að háhyrningurinn komist í útrýmingarhættu.
Fyrir tíu árum mæltist landlæknir Færeyja til þess að konur á barnseignaraldri neyttu ekki grindarkjöts vegna kvikasilfurs- og PCB-mengunar. Gegnir furðu að færeysk stjórnvöld hafi ekki enn stöðvað grindadráp í ljósi þess að „því meira sem er af þessum efnum í blóði kvenna á meðgöngu, þeim mun veikara verður ónæmiskerfi barnsins við fæðingu, eins og segir í tilmælunum. Þar segir ennfremur að „kvikasilfursmagn í blóði móður á meðgöngu [hafi] bein neikvæð áhrif á þætti eins og minni, orðaforða, viðbragðsflýti og rýmisskynjun barnsins“.
Veigamiklir þættir við verndun hafins eru þeir sömu og í baráttunni fyrir verndun hvala. Þann málstað eiga Íslendingar að verja.
Spurningin er þessi:
Er íslenskum stjórnvöldum alvara með hátíðlegum yfirlýsingum um verndun hafsins eða vilja þau halda áfram að eyða fjármunum, tíma og kröftum stjórnarráðsins í að verja hagsmuni Kristjáns Loftssonar, svo sem með hinni svokölluðu kynningu á málstað Íslands sem Alþingi samþykkti 1999? Þeir fjármunir eru miklu meiri en veittir hafa verið til að stöðva plastmengun, rannsaka súrnun sjávar eða vinna gegn mengun af völdum eiturefna sem drepa hvali.
Nýverið var kynnt skýrsla Sameinuðu þjóðanna um brýna nauðsyn róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Nú er í skýrslunni sérstaklega varað við súrnun sjávar, sem er hvað hröðust í hafinu umhverfis Ísland. Ungt fólk spyr sig hvað foreldrakynslóðin hafi gert, hvað stjórnvöld hafi gert, hvað þau ætla að gera og hvað þau sjálf geti gert til að þau þurfi ekki að halda upp á þrítugsafmælið þegar allt er um seinan. Lýðræðislegir stjórnarhættir og traust almennings til þeirra byggjast á því að hin kjörnu stórnvöld setji hagsmuni almennings í forgang en ekki hagsmuni áliðnaðarins eða bílainnflytjenda, hvað þá einstaklings með ódrepandi áhuga á hvalveiðum, eins konar hvalveiðafíkn, sem engu máli skipta fyrir þjóðhagsreikningana en miklu fyrir stöðu Íslands við að vernda eigin hagsmuni og taka þátt í alþjóðaátaki gegn loftslagsvánni.