Betri þjónusta við íbúa er eitt af stóru málunum sem Garðabæjarlistinn hefur sett í forgang í sinni stefnu og áherslu í bæjarstjórn við upphaf þessa kjörtímabils. Nú fer fyrri umræða um fjárhagsáætlunargerð þessa kjörtímabils að hefjast, en hingað til hafa fulltrúar Garðabæjarlistans ekki átt fulltrúa við undirbúninginn. Því hafa bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans unnið margar tillögur sem lagðar hafa verið fyrir bæjarstjórn.
Áherslan hefur verið á betri þjónustu við íbúa og lýðræðislegri vinnubrögð og samvinnu. Sumar tillögurnar hafa fengið ágætan hljómgrunn en aðrar ekki. Áhugavert verður að fylgja því eftir að málin rati inn í fjárhagsáætlunargerðina.
Stytting vinnuvikunnar var ein af tillögum Garðabæjarlistans sem því miður fékk ekki hljómgrunn meirihlutans og var því felld. Stytting vinnuvikunnar á ekki síður heima undir betri þjónustu, sem felur í sér aðgerð til stuðnings við bætt vinnuumhverfi og aukna starfsánægju. En Garðabæjarlistinn lagði til að forgangsraðað yrði í þágu kvennastétta og hafist yrði handa við að rýna í tækifærin sem styttingu vinnuvikunnar fæli í sér á leikskólum bæjarins til þess að gera enn betur í þjónustu og til að laða að starfsfólk.
Betri þjónustu fyrir börn og ungmenni
Á meðal tillagna er mikilvægur stuðningur við barnafjölskyldur í formi systkinaafsláttar, sem getur skipt sköpum fyrir þátttöku barna og ungmenna í starfi sem hefur mikið forvarnarlegt gildi.
Við höfum hvatt bæjarstjórn til að vera leiðandi í þjónustu við börn og ungmenni og styðja um leið við fjölskyldur og samfélagið allt. Ferðaþjónusta fatlaðra er til endurskoðunar og þar hvetjum við til þess að þjónustan verði færð nær notendum. Við viljum tryggja örugga og skjóta þjónustu, með auknum lífsgæðum fyrir þá íbúa Garðabæjar sem komast ekki hjá því að nýta sér slíka þjónustu.
Framsækin stoðþjónusta - framsækið bæjarfélag
Við endurskoðun á umsóknum um sérfræðiþjónustu höfum við hvatt til þess að horft verði til framsækinna lausna í stoðþjónustu með því að nýta fjarþjálfun, sem er einföld í framkvæmd en ekki síður hagkvæm. Við höfum bent á mikilvægi þess að þau börn og ungmenni sem þurfa á talþjálfun að halda geti fengið greiða og góða þjónustu frá upphafi með því að innleiða fjarþjálfun sem nú þegar hefur fest sig í sessi víða um land. Hingað til hefur verið skortur á þeirri þjónustu, sem getur haft neikvæð áhrif fyrir börn og unglinga. Það skiptir máli að tryggja einfalda, skjóta og árangursríka leið. Hugmyndir Garðabæjarlistans miða allar að bættri þjónustu við fjölskyldur í Garðabæ þar sem nálægð við notendur, stuttar boðleiðir og öryggi er haft að leiðarljósi.
Áfram betri Garðabær fyrir alla íbúa!
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.