Ef svarið er „já takk” þá skaltu lesa áfram. Góð lýsing byrjar nefnilega með góðri dagsbirtu. Þeir sem vinna dagvinnu utandyra eru að vinna í lýsingarlottóinu. Það jafnast nefnilega ekkert á við góðan skammt af dagsbirtu á réttum tímum dags. Eins, þegar þú situr fastur í morgunumferðarteppunni þegar sólin er komin upp. Þá er um að gera að njóta ljósaþerapíunnar þar sem þú situr í rými umluktu gluggum sem hleypa dagsbirtunni að augunum þínum.
Ljós hefur áhrif á lýðheilsu. Rétt tegund af ljósi úr réttri átt á réttum tímum sólarhrings stuðlar að góðum dægursveiflum, dregur úr áhrifum þunglyndis og eykur framleiðni. Þetta er sérstaklega mikilvægt á Íslandi þar sem við búum við skort á dagsbirtu í fjóra mánuði og skort á myrkri í aðra fjóra mánuði á ári.
Núna eru fræðimenn sammála um það að gott sé að fá kalt ljós að morgni til (helst dagsbirtu) sem kemur að ofan eða úr efri hluta rýmis, en að kvöldi viljum við takmarkað ljós og heitan lit, helst staðsett í neðri hluta rýmis (frá miðjum vegg og niður að gólfi).
Við höldum okkur innandyra 90% af tímanum og því er mikilvægt að við fáum dagsbirtuna inn í byggingarnar til að stuðla að góðri lýðheilsu. Þróun síðustu ára í byggingariðnaði á Íslandi hefur verið þvert á þá stefnu að fá dagsbirtu inn í byggingar. Við byggjum of hátt, of þétt, takmörkum aðgengi ljóss í gegnum glerið í gluggunum og skiljum fólkið eftir í rökkrinu.
Þessi þróun er ekkert einsdæmi á Íslandi en nágrannalöndin okkar eru á fullu að aðlaga reglugerðirnar sínar til að tryggja aðgengi dagsbirtu inn í byggingar og það er nýr evrópustaðall á leiðinni um hvernig meta á dagsbirtu í byggingum. Hér heima hefur stefnan verið tekin í öfuga átt, með því að einfalda Byggingarreglugerðina til að takmarka kostnað við byggingar. Að lágmarka kostnaðinn er gott og vel, svo lengi sem það sé ekki á kostnað lýðheilsu Íslendinga.
Sveitarfélögin bera ábyrgð á skipulagi og þar með talið hæð bygginga og fjölda fermetra sem má byggja á hverri lóð. Þeirra hlutverk er að tryggja aðgengi dagsljóss í byggingar til að stuðla að lýðheilsu Íslendinga.
Eitt af markmiðum Byggingarreglugerðarinnar er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. Þessu er einstaklega ábótavant hvað varðar bæði dagslýsingu og raflýsingu.
Til að stuðla að lýðheilsu Íslendinga með ljósi vantar okkur að skipulag innan sveitarfélaga séu með skýra stefnu um gott aðgengi dagsbirtu í byggingar og að Byggingarreglugerðin setji lágmarks kröfur til lýsingar sem fylgt er eftir að standist.
Án þess að kröfurnar og eftirfylgnin komi frá sveitarfélögum og mannvirkjastofnun höldum við áfram að maka krókinn á myrkum rýmum á kostnað lýðheilsu.
Höfundur er verkfræðingur.