Þegar Jón Baldvin sá á borði mínu bókarskruddu sem fjallaði um áratugina fyrir og eftir fyrri heimsstyrjöld, varð hann ögn hugsi og spurði, hvað þessi fróðleikur kæmi nútímanum við? Mér varð að orði að það væri tímahvörfin, andþrengsli upplýsts frjálslyndis og framrás hægrisinnaðrar hugórahyggju, sem virðir rökhyggju og staðreyndir að vetttugi. Áratugirnir milli heimsstyrjaldanna einkenndust einnig af styrkingu hugmyndaóra og staðreyndafalsana sem fengu að lokum byr undir báða vængi. Þá eins og nú voru frumkvöðlar fas- og nasisma í upphafi kallaðir popúlistar. Í opinberri umræðu var þetta sagður vera ryksalli úr iðrum þjóðar í hugahremmingum, sem félli til jarðar og hyrfi. Það reyndust höfuðórar. Þegar tíðarandinn fer að taka á sig miður þekkilegar myndir úr fortíð þá er þörf á að skoða skyldleika og samhengi viðburða og hugmynda. Erfitt reynist að átta sig á eðli tímans, þótt atburðarásin sé kunn. Það skiptir því máli að skilja og bera saman slóða hans. Vangaveltur Jóns Baldvins áttu fullan rétt á sér. Er eitthvað sameiginlegt með fyrstu áratugum liðinnar aldar og okkar tíma ?
Átök hugmyndanna
Á áratugunum fyrir og eftir fyrri heimsstyrjöld stóð mikill styrr um frjálslynda upplýsta hugsun,arf Upplýsingarinnar einkum í Þýskalandi, stærsta og öflugasta ríki Evrópu. Hún átti í vök að verjast gegn órahyggju (irrationalisma) frá hægri. Þar réð ferð ótti við byltingarkenndan módernisma,hugarburður menningarbölsýni ,niðurlæging uppgjafarinnar og hefndarhyggja.Mikil framtíðargerjun átti sér stað. Landnám framúrstefnu birtist ekki bara á sviði lista og menningar heldur í framleiðslu og hönnun, ögrandi lífsstíl, upphafi alþjóðavæðingar,tæknilegri sjálfvirkni og framandi lifnaðarháttum. Stórir hópar þjóðfélagsins réðu ekki við örar samfélagsbreytingar, fundust þær ógnvekjandi. Við þetta bættist tilvistarótti sem nærðist á mannfalli og tapi stríðsins ásamt upplausn eftirstríðsáranna Yfir öllu þessu hékk svo skuggi blóði drifins bolsévisma. Lamandi óttinn laumaðist inní hugarfylgsnin. Etir kreppuna miklu var allt glatað.
Rómantísk villimennska
Úr þessum grútardalli hugaróra og tilfinninga nærðust djúpstæð átök hugmyndastrauma um samfélagið. Annars vegar mannúðar- og mannréttindastefna, sem byggði á jafnræðishugsun, sem allar skynsemisverur gátu samsinnt. Hinu megin forréttindasækin sérhyggja sem metur það sértekna ofar því sameiginlega. Þjóðernis- og kynþáttahyggja gegn samhyggju þjóða (universalisma). Heildin er tekin fram fyrir hlutana. Átökin snerust annars vegar um sígildan húmanisma þar sem upplýst hugsun vísaði veginn en á hinum vængnum réð ríkjum það sem kalla mætti rómantíska villimennsku. Þessir andstæðu hugsanaferlar ristu þó dýpra. Í stað þess að láta siðmenninguna hemja og temja óttann sem framandleiki breyttra tíma kallaði fram, vildu sérhyggjumenn berjast með öllum ráðum gegn rótum óreiðunnar og óttans, sem skilgreind voru samkvæmt eigin hugarheimi. Útrýming, uppræting og skörp skil komu í stað lagfæringa og umbreytinga. Tekist var á um tvær andstæðar leiðir; nútímalega samfellda en jafnframt skrykkjótta þróun eða uppgjör og nýtt upphaf. Þarna var fasisma stefnt gegn frjálslyndi. Fyrri leiðin varð ofan á með herfilegum afleiðingum. Þarna hófst harmsaga tuttugustu aldarinnar.
Er frjálslynd hugsun á útleið ?
Þau liðnu átök hugmynda sem einkum áttu sér stað á áratugunum milli stríðanna væru nú geymd í hugmyndasögusafni aldanna, væru ekki sömu hugtök og samskonar ótti komin á kreik að nýju. Aðdragandi þessara nýjunga var margvíslegur; fjármálahrunið; atvinnu- og eignamissir, straumar framandi flóttafólks; áður ókunn áhrif hnattvæðingarinnar; vanmetakennd gagnvart framtíðinni í formi stafrænnar byltingar, ótti og reiði. Nú er ekkert Kalt stríð til að halda hópnum saman og Kirkjan hefur misst tökin á hirð sinni. Margt er nú keimlíkt millistríðsárunum í Evrópu. Á ný er gripið til sérhyggju kynþátta- og þjóðernisstefnu, sem vörn gegn annarlegum siðum og ókunnu fólki. Hnattræn fjölhyggja sögð tortíma bæði atvinnu, heimkynnum og staðbundinni menningu. Landamæragæsla og þjóðleg tollvernd gegn opnum,frjálsum, samningsbundnum viðskiptum. Einnar þjóðar lausn gegn fjölþjóða samningum og samtökum eins og ESB. Vofur keimlíkra hugsanaferla á sveimi eins og um 1930. Frjálslynt lýðræði, eitt megin gildi vestrænnar stjórnmálahugsunar, á nú aftur í vök að verjast.
Frjálslyndur arfur
Frjálslynd heimsmynd er arfur frá Upplýsingarstefnu átjándu aldar,sem lagði fæð á allar þær hugmyndir,hvað þá fordóma, sem skyggðu á skíra hugsun og ómengaðar staðreyndir. Hugmyndafræði, trúarbrögð og sérhagsmunir hópa og stétta máttu ekki menga hugsunina eins og ský í auga truflar hreina sjón. Rökhyggjan skyldi ráða ferð, ekki tilfinningahlaðin órahyggja. Opin, frjálslynd,samningsbundin samskipti gegn lokuðum landamæragirtum forréttindum, sem byggja á styrk þeirra stóru og sterku. Mótsagnakennt aðdráttarafl þessara andstæðu hugferla hafa mótað vestrænu menningu. Formótaðar skoðanir ráða ferð,en við gefum okkur sjaldnast tíma til að leggja þessar skoðanir á mælikvarða upplýstrar reynslu eða gagnrýninnar hugsunar. Skoðun er mun þægilegri til brúks en hugsun. Það þarf engan aðdraganda til að láta skoðun sína í ljós. Á okkar tímum er sterk ásókn í að gera skoðanir að staðreyndum.
Varhugaverður seiður
Það er blekking að segja að popúlismi sé ekki hættuleg stjórnmálastefna. Hún lagði milli stríða grunn að valdatöku spænskra falangista,ítalskra fasista og þýskra nasista. Umskipti hafa orðið í heiminum einkum með kosningu Trumps, en líka með uppgangi pólitískrar sérhyggju hér í Evrópu. America first í stað samstöðu þjóða. Hrollvekjandi er að bera saman myndskeið með ræðumönnunum Trump annars vegar en Hitler hins vegar. Hávær öskrin,hendurnar eins og þeytispaðar,hótanir og ógnar órar. Boðskapur villimennsku. Það vilja greinilega margir hægja á för tímans, snúa ferð hans við, hefta framrás, endurgera fortíðina. Hér eru tímahvörfin að takast á að nýju, því það gleymist gjarnan að megin farvegir mannlegra hugsanaferla hafa lítið breyst.
En pópúlisminn er einnig smitsjúkdómur. Hann mengar orðræðuna,byrgir fyrir skíra hugsun en ýkir tilfinningatengda fordóma. Gerir órum hærra undir höfði en rökhyggju og skírskotun til staðreynda. Sannindi og lygi hyljast móðu sem gerir þau ókennileg. Evrópa hefur hér sérstökum skyldum að gegna. Hún er fæðingarstaður Upplýsingarinnar og heimkynni gagnrýninnar hugsunar. Saga hennar ætti að vera vörn gegn endurlífgun öfgastefnu. Hlutverk okkar Íslendinga er að standa vörð um eigið frjálslynda stjórnarfar og styrkja upplýsta gagnrýni á ríkjandi for- og sérréttindi. Okkur ber að vinna náið með þeim grönnum okkar í Evrópu sem leggja meiri áherslu á samstöðu þjóða en sérhyggju þeirra og þjóðrembu.