Leiðtogafundurinn í Höfða árið 1986 er í hugum margra einhver merkasti atburður í Íslandssögu tuttugustu aldar. Þótt fundurinn sjálfur virtist á sínum tíma ekki skila neinum sérstökum árangri, leiddi hann þó til undirritunar eins af mikilvægustu afvopnunarsamningum síðari tíma. Samningurinn um afnám meðaldrægra flauga var undirritaður af leiðtogum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna í lok árs 1987.
Í ljósi þessa eru yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar, um að hún hyggist segja upp samkomulaginu, mikil vonbrigði. Fregnir þessar eru áfall, ekki bara fyrir Íslendinga sem er umhugað um arfleifð fundarins í Höfða, heldur heimsbyggðina alla.
Mikilvægi samningsins felst nefnilega í því að meðaldrægar flaugar gefa aðilum í vígbúnaðarkapphlaupi svo skamman viðbragðstíma áður en til árásar kynni að koma. Það þýðir að líkurnar á að kjarnorkustríð hefjist fyrir mistök, til dæmis vegna falskrar aðvörunar, margfaldast. Heimurinn verður mun háskalegri staður án samningsins.
Grípum í taumana
Það er engum blöðum um það að fletta að boðuð uppsögn Bandaríkjamanna á samningnum tengist áhuga þeirra á gerð nýrra kjarnaflauga og eldflaugakerfa. Risaveldin vinna hörðum höndum að þróun kjarnorkuvopna og grafa með því undan gildandi afvopnunarsamningum. Þau hafa engan áhuga á að virða þau ákvæði NPT-sáttmálans um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, sem skuldbindur kjarnorkuveldin til að vinna að útrýmingu slíkra vopna.
Í ljósi þessara staðreynda hefur mikill meirihluti þjóða heimsins komið sér saman um nýjan sáttmála Sameinuðu þjóðanna, um bann við kjarnorkuvopnum, sem samþykktur var á síðasta ári. Viðbrögð Nató-ríkja hafa verið á þá leið að gera lítið úr þeim sáttmála og segja að betra sé að stefna að afvopnun á grunni NPT-samningsins.
Aðgerðir Bandaríkjastjórnar nú sýna glögglega að það er ekki raunhæft. Ísland að beita sér fyrir því að samningnum um afnám meðaldrægra flauga verði viðhaldið og skipa sér í hóp þeirra ríkja sem vilja banna kjarnorkuvopn áður en það verður of seint.
Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.