LÍS, Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu í dag. Það er fagnaðarefni. Samtökin mega með sanni eiga það að þrátt fyrir ungan lífaldur hefur þeim tekist að láta á sér bera og vaxið með miklum hraða. Samhliða örum vexti hefur verksvið og ábyrgðarhlutverk samtakanna sömuleiðis aukist. Með LÍS varð til fyrsti málsvari allra stúdenta á Íslandi sem og stúdenta erlendis. Við stofnun varð það enn skýrara hve þörfin innan háskólakerfisins og samfélagsins var raunverulega mikil fyrir samtök sem þessi. Það er mikilvægt á tímamótum sem þessum að líta yfir farinn veg og stöðu mála og gera sér grein fyrir því hvert skal stefna og með hvaða hætti.
Það er mikilvægt að ríkisstjórn og valdhafar innan háskólakerfisins geri sér grein fyrir mikilvægi raunverulegs samráðs við stúdenta. Hlutverk okkar er ekki að vera óvirkir „notendur“ menntakerfisins heldur virkir þátttakendur í öllum kimum þess á sama grundvelli og aðrir aðilar. Stúdentar eru sérfræðingar um eigin málefni og hafa innsýn og skilning á stöðu mála sem enginn annar hópur býr yfir. Frá stofnun LÍS hefur átt sér stað vitundarvakning um mikilvægi slíks samráðs; stúdentar eiga nú tvo fulltrúa í verkefnastjórn um endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sömuleiðis skipa LÍS fulltrúa stúdenta í hinar ýmsu nefndir innan háskólakerfisins. Engu að síður virðist vanta eitthvað upp á, en til að mynda hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur um aðkomu stúdenta að gerð menntastefnu Íslands til 2030. Eins hafði félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason orð á því á Alþingi að hafa þegar átt í samráði við námsmannahreyfingar um uppbyggingu félagslegra íbúða sem LÍS höfðu ekki orðið vör við, hvorki á sínu borði né aðildarfélaga sinna. Það veldur miklum vonbrigðum og er vonin sú að ríkisstjórn sjái hag sinn í því að hleypa stúdentum alla leið að borðinu en ekki bara í orði.
Það er öflugt starf sem á sér stað í háskólakerfinu hér á landi og er ljóst að aukið menntunarstig þjóðarinnar hefur verið lyftistöng fyrir íslenskt samfélag. Hins vegar er það ekki nóg út af fyrir sig og betur má ef duga skal. Það er mikilvægt að tryggja opið og jafnt aðgengi að háskólamenntun fyrir alla en gögn segja að annað eigi við í íslensku háskólakerfi. Samkvæmt niðurstöðum EUROSTUDENT VI, sem er yfirgripsmikil könnun um hagi stúdenta í 28 Evrópulöndum, vinnur helmingur stúdenta allan ársins hring og tæplega 90 % þeirra segjast gera það að öllu eða miklu leyti til þess að eiga fyrir reglulegum útgjöldum. Samkvæmt Education at a Glance frá OECD eru stúdentar með erlendan bakgrunn tvöfalt líklegri en jafnaldrar sínir til þess að ná ekki að klára meira en grunnskólastig en slíkar áskoranir í aðgengismálum hefur með háskólastigið að gera til jafns við önnur skólastig. Einnig er mikilvægt að ríkisstjórnin standi við orð sín og nái meðaltali OECD og síðan Norðurlandanna í fjármögnun háskólastigsins en ekki örlar á sannfærandi tölum um það í fjármálaáætlun ríkisstjórnar til 2022 eða frumvarpi til fjárlaga 2019. Ekki má gleyma þeirri stöðu sem Listaháskóli Íslands hefur verið í allt frá stofnun og er til skammar fyrir íslenskt samfélag að staðan sé slík hjá einu stofnun landsins sem býður upp á listnám á háskólastigi.
Nóg er af áskorunum og óuppgerðum málum þegar kemur að háskólakerfinu og málefnum stúdenta. Landssamtök íslenskra stúdenta eru tilbúin til þess að taka þátt í að takast á við þessar áskoranir og hafa í mörgum tilvikum gert það af eigin rammleik. Réttinda-Ronja er vefsíða sem inniheldur upplýsingar um réttindi og úrræði fyrir stúdenta í íslenskum háskólum með fatlanir og/eða sértæka námsörðugleika og verður opnuð í byrjun næsta mánaðar. Student Refugees, verkefni að danskri fyrirmynd byggist á ráðgjöf og aðstoð til flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi sem vilja stunda háskólanám. Það er hvorki skortur á metnaði eða vilja meðal íslenskra stúdenta til þess að leggja sitt til málana og tryggja öflugt, opið og frjótt háskólasamfélag. Það er sannur fjársjóður sem má leggja meiri metnað og natni við að styrkja, styðja við og efla.
Til hamingju stúdentar og allir saman með áfangann og allt það sem koma skal.
Höfundur er formaður LÍS.