Í dag 8. nóvember er Eineltisdagurinn. Einelti spyr hvorki um stöðu né stétt. Einelti og áreitni getur birst í mörgum myndum og fyrirfinnst í öllum starfsstéttum. Einelti og áreitni er bæði algengara og alvarlegra en margir gera sér í hugarlund. Ekki allir sem finnast á sér brotið upplýsa um það. Enn annar hópur segir frá því en ekkert er gert í málum þeirra. Þess vegna er ómögulegt að átta sig á algengi eineltis og áreitni í fyrirtækjum eða stofnunum.
Hlutverki fagráða sem sinna málum af þessu tagi er að skoða allar kvartanir sem berast í samvinnu við tilkynnanda hverju sinni. Í þessum erfiðu og viðkvæmu málum eru nokkrir grundvallarþættir sem ávalt þarf að heiðra.
- Hér má nefna mikilvægi þess að allir séu sammála um að:
- Vinna gegn einelti með öllum ráðum og dáðum
- Vera meðvituð um meðvirkni og hvernig hún getur litað skynsemi og skert dómgreind
- Taka aldrei þátt í þöggun eða hylmingu ofbeldisatvika eins og eineltis eða áreitni
- Hver og einn taki ábyrgð á hegðun sinni og framkomu
- Hver og einn vakti nærumhverfið og spyrji sig ,,get ég rétt einhverjum hjálparhönd”?
Miklar breytingar til batnaðar hafa orðið í þessum málum þegar litið er yfir hálfrar aldar tímabils. Í baráttunni gegn einelti má aldrei gefast upp. Börnin treysta á að fullorðna fólkið skapi þeim öruggt umhverfi í skólum, íþróttum og frístundum þar sem þau geta vaxið og dafnað án þess að óttast að meiðast á líkama eða sál. Fullorðna fólkið er fyrirmynd barnanna. Börn horfa á hegðun þeirra og framkomu og hlusta á orð þeirra. Þau sjá einnig hvað fullorðna fólkið skrifar á samfélagsmiðla, hvað það lætur hafa eftir sér og þau hlusta á hvað rætt er á heimilinu. Þess vegna þurfum við að vanda okkur í öllu því sem við segjum, gerum og skrifum.
Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi.