Í fréttum er það meðal annars að íslenska krónan er enn og aftur að valda vanda, verðbólgan er komin af stað og ríkisstjórnin hefur endurunnið fjárlagafrumvarpið sitt áður en það kemur til 2. umræðu á þingi.
Við gerð fjármálaáætlunar í vor og við fyrstu umræðu fjárlaga í september sl. vöruðum við í Viðreisn við því að þar réði ferð of mikil bjartsýni varðandi efnahagshorfur á næstunni. Nær væri að halda útgjaldaaukningu í skefjum og beita þess í stað aga og skilvirkni til að nýta fjármuni ríkisins sem best. Það er einfaldlega ávísun á vandræði ef helsti mælikvarði ríkisstjórnarinnar á eigin störf er útgjaldaaukning án nauðsynlegar framtíðarsýnar í hverjum málaflokki, stefnumótun og forgangsröðun verkefna.
Það var ekki hlustað í vor, ekki í september og því eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar nú við versnandi horfum í ríkisrekstri eðlilega niðurskurður útgjalda frá því frumvarpi sem kynnt var um miðjan september. Fjárlaganefnd Alþingis fékk niðurskurðarlista ríkisstjórnarinnar afhentan fyrr í vikunni og fjárlagafrumvarpið fer í 2. umræðu á þingi á morgun svo breytt.
Öryrkjar og aldraðir, enn og aftur
Í hinum nýju tillögum ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar má merkja rauðan þráð. Sá þráður er niðurskurður í fyrirhuguðum útgjöldum til velferðarmála, en útgjöld til eldri borgara, öryrkja og heilbrigðiskerfis eru skorin niður um 7 milljarða kr. frá 1. umræðu til 2. umræðu fjárlaga.
Óviðunandi staða hvað varðar framboð hjúkrunarrýma er ekki best geymda leyndarmál landsins. Landlæknir hefur bent á að það vanti um 25% upp á að þær kröfur sem ríkið geri til rekstraraðila séu fjármagnaðar. Þetta þýðir á mannamáli að ríkið borgar ekki raunvirði fyrir þjónustu sem krafist er af þeim sem reka hjúkrunarheimili í dag. Afleiðingin er t.d. sú að flest sveitarfélög reka hjúkrunarheimili fyrir íbúa sína með bullandi halla og þurfa að greiða með rekstrinum með því að taka fjármuni af öðrum verkefnum.
Þá eru nýjar upplýsingar um bið eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrýmum verulegt áhyggjuefni. Á fyrsta ári boðaðrar stórsóknar ríkisstjórnarinnar, hefur fjölgað á biðlistum um 20%. Og nú á að skera fjármagn til uppbyggingar og endurbóta á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða niður um milljarð í nýju tillögunum.
Framlög til öryrkja áttu að aukast um 4 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu frá því um miðjan september. Tillögur ríkisstjórnarinnar nú eru að skera 1,1 milljarð kr. af þeirri aukningu. Helstu rökin virðast þau að velferðarráðherra var ekki tilbúinn með áætlun og öryrkjar lágu því vel við niðurskurðarhnífnum. Það er synd því eins og margoft hefur komið fram, hafa öryrkjar sjálfir mjög skýra mynd af því í hvað þeir hefðu viljað verja þessum fjármunum.
Framlög til nýrrar meðferðarbyggingar Landspítalans eru skorin niður um 2, 5 milljarða kr. Þeirri ráðstöfun fylgir áframhaldandi óhagræði í rekstri og framlenging á óviðunandi aðstöðu fyrir jafnt sjúklinga sem starfsfólk.
Síðast en ekki síst liggur nú fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt til að bæta öldruðum og öryrkjum það upp gangi spár um aukna verðbólgu eftir á næsta ári. Það mun að óbreyttu leiða til verulegra kjaraskerðinga fyrir þessa hópa.
Valtað yfir fjárlaganefnd
Það er rétt að halda því til haga að minni hækkun ríkisútgjalda en fyrirhuguð var, er ekki niðurskurður ríkisútgjalda frá núgildandi fjárlögum. Það er heldur ekki óeðlilegt að stigið sé á bremsuna við núverandi aðstæður og horfur í efnahagsmálum í ljósi þess hversu óvarlega var farið í fyrstu umferð. Það eru hins vegar vinnubrögðin sem eru verulega gagnrýniverð. Þetta er einfaldlega vond pólitík.
Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bítur svo höfuðið af skömminni með því að svara ekki sjálf fyrir þessar niðurskurðartillögur, heldur varpar þeim yfir á fjárlaganefnd Alþingis. Nefndin hefur setið í tvo mánuði í umræðu um fjárlög en er síðan gert að kyngja breytingartillögum ríkisstjórnarinnar með litlum sem engum fyrirvara. Þetta er einfaldlega aðför að sjálfstæði nefndarinnar og það er erfitt að ímynda sér að nefndarmenn, hvort sem um er að ræða stjórnarþingmenn eða þingmenn stjórnarandstöðu, séu hressir með þennan yfirgang.
Vonandi hefur nefndin nýtt þó sér þá klukkutíma sem hún fékk til að smíða tillögur sem byggja á öðru en því að niðurskurðarhnífurinn renni auðveldast í gegnum málaflokka öryrkja og aldraðra. Það er hins vegar borin von að ríkisstjórnarhluta fjárlaganefndar þyki það góð hugmynd að afturkalla fyrirhugaða lækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum til að koma í veg fyrir niðurskurð hjá öldruðum og öryrkjum.
Það má þó láta sig dreyma.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.