Sigur Búsáhaldabyltingar - Hvers vegna?

Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, hvetur Íslendinga til að vera áfram reiða yfir manngerðu óréttlæti en gera einnig kröfu til hvers og eins um að hafa á sjálfum sér gát.

Auglýsing

Hrunið 2008 kom yfir íslenska þjóð eins og þruma úr lofti á heiðskírum sumardegi. Fáeinir „úrtölumenn” höfðu að vísu allt frá árinu 2006 varað við yfirvofandi falli íslensku bankanna og íslenska fjármálakerfisins í heild. Íslenskir ráðamenn og sérfræðingar vísuðu þessum spádómum á bug. Útlendingar væru einfaldlega öfundsjúkir yfir hinu einstæða afreki Íslendinga að vekja í genum víkingaþjóðarinnar útrásareðlið af margra alda dvala og hasla sér völl í hörðum heimi alþjóðlegra fjármála og viðskiptalífs.

Í huga þorra Íslendinga afhjúpaði Hrunið bitran sannleika um eigið þjóðfélag: Hrunið var heimatilbúið. Heimskreppa eða styrjaldir voru þar ekki orsakavaldar. Landinu hafði lengi ekki verið stjórnað í þágu almennings. Leiðarljós íslenskra ráðamanna voru sérhagsmunir hinna ríku og voldugu. Spilling, vanhæfni, fúsk og frændhygli stjórnaði gerðum valdafólks í stjórnmálum, fjármálakerfi og opinberum eftirlitsstofnunum. (Saknæmt athæfi kom einnig við sögu. Þannig dæmdi Landsréttur þáverandi forsætisráðherra fyrir vanrækslu í starfi á grundvelli 17. gr. í stjórnarskrá. Dómstólar hafa dæmt 40 eigendur, æðstu stjórnendur og starfsfólk fjármálastofnana og fyrirtækja vegna efnahagsbrota í aðdraganda Hrunsins. Samanlagðar refsingar þeirra sem hafa verið sakfellt nema heilli öld).

Hin sigursæla Búsáhaldabylting

Megineinkenni íslenskra íslenskrar lýðræðisþróunar líkist íslensku veðurlagi. Þar skiptast á fallegir sólskinsdagar og djúpar lægðir. Á stundum er mjög öflug og hröð lýðræðisþróun. Þannig efldist lýðræðið mjög um og eftir aldamótin 1900 – ekki síst fyrir tilstuðlan áhrifamikillar kvennahreyfingar með stuðningi margra valdakarla. Viðbrögð karlveldisins við framgangi beins lýðræðis og aukinna kvenréttinda var siðan að þrengja að lýðræðinu í landinu m.a. með því að binda kosningarétt kvenna við 40 ára sem skyldi lækka um eitt ár á hverju ári. Kosningaréttur karla var 25 ár. Við fullveldistöku og Sambandslög 1918 neyddust íslenskir valdhafar til að færa kosningarétt kvenna til samræmis við kosningarétt þeirra í Danmörku - 25 ár).

Auglýsing
Hrunið 2008 var vitnisburður um öngstræti íslensks lýðræðis. Þjóðin sá að valdhafar rufu einhliða hinn helga sáttmála um samfélag þar sem trúnaðarsamband á að ríkja milli valdhafa og fólksins. Valdhafar fá tímabundið umboð frá fólkinu til að stjórna landinu og er treyst til að stjórna í almannaþágu. Eftir Hrunið ríkti kreppa lýðræðis í landinu. Um 70% Íslendinga töldu samkvæmt könnunum að stjórnmálamennirnir væru spilltir. Í landinu ríkti almenn reiði, jafnvel hatur, og vantraust í garð ráðamanna og stofnana samfélagsins. Fljótlega hófust fjölmenn mótmæli í landinu sem fengu sameiginlegt heiti „Búsáhaldabyltingin.” Kjarni mótmælanna voru útifundir hvern laugardag á Austurvelli undir stjórn aðgerðarlistamannsins Harðar Torfasonar – sá fyrsti 11. október 2008 en hinn síðasti 14. mars 2009. Hver og einn einasti fundur einkenndist af þeirri trú að valdhafar hefðu með gerðum sínum fyrirgert rétti sínum til að stjórna og ættu að víkja hvort sem væri í ríkisstjórn, Alþingi eða Seðlabanka Íslands. Fullveldisrétturinn væri hjá þjóðinni sem nú afturkallaði umboð ráðamanna. Valdhafa skyldu víkja og ný ríkisstjórn taka við. Síðan yrði boðað til nýrra þingkosninga eins skjótt og auðið væri.

Allar kröfur Búsáhaldabyltingarinnar náðu fram að ganga. Ríkisstjórnin var neydd til að fara frá og ný ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur tók við en Jóhanna naut þá mikils traust almennings samkvæmt skoðanakönnunum rétt eins og nýr fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Aðalbankastjóra Seðlabankans var sagt upp störfum. Alþingiskosningar haldnar um vorið. Eftir Hrun íslenska lýðveldisins uxu sprotar endurnýjunar lýðræðis. Búsáhaldabyltingin var því sigursæl en spurningin er: Hvaða baráttuaðferðir útskýra velheppnuð mótmælin? Svarið er m.a. í forystu aðgerðalistamannsins Harðar Torfasonar.

Aðgerðalistamaðurinn Hörður Torfason

Nýlega kom út bókin „Bylting – Sagan sem breytti Íslandi” eftir Hörð Torfason. Þar lýsir Hörður frá sínu sjónarhorni Búsáhaldabyltingunni og byggir þar mikið á dagbókum sem hann hélt á tímum mótmælanna.

Bókin hefst reyndar á stuttri en hnitmiðaðri frásögn af ævi og reynslu höfundar. Hörður var einn fyrstur Íslendinga á síðari árum til að opinbera samkynhneigð sína. Á Íslandi var óbærilegt að vera og hann flýr til Kaupmannahafnar. „Ofsóttur, landlaus, eignalaus og skuldugur. Mér fannst ég bæði hafa mistekið mig í lífinu og vera gróflega misnotaður og svikinn. Samt leit ég aldrei á mig sem eitthvert fórnarlamb. Það hvarflaði aldrei að mér að kenna öðrum um.” (Bls. 14).

Hörður ákveður að svipta sig lífi en hættir við á síðustu stundu:

„Það fauk í mig að hugsa til þess að ég hafði ætlað að gefast upp. Höfnun er eitt það erfiðasta sem manneskja upplifir en ekki óyfirstíganleg. Fram til þessa hafði ég unnið gegn henni með listsköpun. Öll sú sköpun mín var nauðsynleg æfing fyrir þetta áfall.

Þarna hóf ég, ansi reikull í fyrstu, að leggja grunn að því að verða aðgerðalistamaður sem beitti listrænum aðferðum í réttindabaráttu. Halda minni stefnu ákveðinn og fastur fyrir”. (bls. 15).

Áratugum saman beitti söngvaskáldið Hörður Torfason listrænum hæfileikum í baráttu samkynhneigðra og allra annarra sem sem ofsóttir voru, niðurlægðir og hrakyrtir. Söngvarnir voru persónulegir og sögðu oft bitran sannleika um óvild og hatur. Undirtóninn er samt ætíð kærleikur og ást. Trúin á að vonin og lífið sigri að lokum í samfélaginu rétt eins og hann sjálfur sigraði myrkrið í eigin lífi með að axla ábyrgð á sjálfum sér.

Auglýsing
Lífsleikni Harðar Torfasonar varð uppskrift að sigursælum mótmælum Búáhaldabyltingarinnar sem varð nánast að listrænum viðburðum. Á Austurvallafundunum ríkti frjósöm reiði fjöldans sem birtist m.a. í málefnalegum snjöllum ræðum karla og kvenna. Ætíð var tónlist og síðan tók við taktfastur hljómur potta og panna sem var í senn kveðjulag til gamla Íslands og hvatning til nýrra tíma, nýs lýðveldis á Íslandi. Ávallt voru mótmælin friðsöm. Þegar hætta skapaðist á beinum árásum á Alþingishúsið skipuðu mótmælendur sér - merktir í gult - til varnar lögreglunni og þinghúsinu. Á hverjum fundi kallaði Hörður til fólksins m.a. „Viljum við friðsöm mótmæli ?” Svar fólksins var ætíð játandi – og við það var staðið.

Að hafa gát á sjálfum sér

Eitt er að axla þá skyldu hvers og eins að berjast gegn manngerðu óréttlæti, kúgun og ofbeldi en allt annað að svara rangsleitni með stjórnlausri reiði og hatri. Búsáhaldabyltingin beindi reiði fjöldans í friðsaman farveg. Höfð voru að leiðarljósi hugsjónin sem Hörður Torfason stóð fyrir:

„ALDREI AÐ GLEYMA KÆRLEIKANUM OG ÁSTINNI” (bls. 146).

Í Búsáhaldabyltingunni gerðu mótmælendur vissulega kröfur um að vanhæfir valdhafar vikju til hliðar og nýir tækju við. En mótmælendur gerðu undantekningalítið einnig kröfur til sjálfs síns: Að mótmæla með friðsamlegum hætti; láta ekki hatur og óvild ráða orðum sínum og gerðum; að hafa gát á sjálfum sér.

Á árunum eftir Hrun stofnaði andófsfólk Borgarahreyfinguna sem bauð fram í kosningum 2009 og fékk rúmlega 7% og fjóra þingmenn. Margrét Tryggvadóttir, þingkona hreyfingarinnar, hefur í bók sinni Útistöður lýst því þegar „reiðasta fólkið á Íslandi stofnar stjórnmálaflokk”. Fljótlega leystist hreyfingin upp í frumparta í hatrömmum innanflokksátökum, gagnkvæmum svikabrigslum og persónulegri óvild. Annað afsprengi Hruns og Búsáhaldabyltingar, Píratar, standa nú á tímamótum vegna innanflokksvanda sem Halldór Auðar Svansson, fyrrum borgarfulltrúi flokksins lýsir:

„Niðurstaðan er að rót vandans má rekja til þess að menning flokksins gengur beinlínis út á að vægðarlaus gagnrýni er dyggð, og þar megi síst af öllu undanskilja flokksfélaga, þar sem við viljum jú ekki vera hræsnarar. Hegðun sem gengur út á tortryggni og hörku er verðlaunuð og henni hampað – á meðan tilburðir til að draga heilbrigð mörk í samskiptum og byggja brýr eru skotnar niður.”

Bókin „Bylting – Sagan sem breytti Íslandi” eftir Hörð Torfason er nefnilega skyldulesning fyrir Pírata (já það þarf einnig að lesa bækur til að dýpka skilning á lífinu og veröldinni) sem og okkur öll: Að sýna kærleika og ást eins og við megnum í öllum aðstæðum. Réttlátur málstaður réttlætir ekki hatur, óvild eða persónulegt stjórnleysi í samskiptum við aðra. Verum áfram reið yfir manngerðu óréttlæti en gerum einnig kröfu til hvers og eins um að hafa á sjálfum okkur gát.

Heimildir:

„Dæmd til einnar aldar í fangelsi”. Ruv.is 7. okt. 2017

Þórður Snær Júlíusson. 2018. Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur.

Hörður Torfason. 2018. Bylting – Sagan sem breytti Íslandi.

Margrét Tryggvadóttir. 2014. Útistöður.

Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá Keflavíkurflugvelli.
Segja Ísland geta orðið miðstöð flugs á norðurslóðum
Í skýrslu starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum er sagt mikilvægt að flugi frá Íslandi til Rússlands og Kína verði komið á, enda hafi kínverskir ferðamenn mikinn áhuga á ferðum til norðurslóða. Þá séu tækifæri fólgin í betri tengingu við Grænland.
Kjarninn 14. maí 2021
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar