Hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna hefur stefnt ríkissjóði og þeim fyrirtækjum sem sjóðsfélagar vinna hjá vegna þess tjóns sem deildin og sjóðsfélagar hafa orðið fyrir vegna ófullnægjandi uppgjörs á skuldbindingum með tilheyrandi skerðingum réttinda og lífeyrirsgreiðslna til sjóðfélaga. Þegar minnst er á bankamenn kemur mörgum í hug ofurlaun og bónusar, en sú mynd á alls ekki við það fólk sem þessi þróun bitnar á. Stærstur hluti þeirra er konur á tiltölulega lágum launum. Stærstur hluti þeirra félagsmanna Hlutfallsdeildar sem hefur orðið fyrir skerðingum hefur unnið eða vinnur í Landsbankanum og því er ekki úr vegi að fara yfir þessa þróun með augum hinnar dæmigerðu konu sem vinnur eða hefur unnið í Landsbankanum.
Hlutfallsdeildin er ekki fjölmenn. Í lok ársins 2017 voru lífeyrisþegar 999 þar af 691 kona. Meðalaldur lífeyrisþega var 74 ár og meðallaun 200.595 kr. Greiðandi sjóðfélagar voru 155 þar af 128 konur. Meðalaldur greiðandi sjóðfélaga var 60 ár og meðaltal mánaðarréttinda til lífeyris 297.882 kr. Allir sjá að þarna er alls ekki um hálaunahóp að ræða. Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru: Landsbankinn hf., Seðlabanki Íslands, Valitor hf., Reiknistofa bankanna hf., Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Ríkissjóður.
Upphafið
Sagan byrjaði þannig að rétt fyrir aldamót ákvað íslenska ríkið að breyta Landsbanka Íslands sem þá var ríkisbanki í hlutafélag og einkavæða hann (Landsbanki Íslands hf. fór á hausinn í hruninu). Vegna þessa vildi ríkið losna við óvissa skuldbindingu úr bókum bankans og dótturfélaga hans en um 75% af lífeyrisskuldbindingum bankamanna mátti rekja til Landsbanka Íslands hf. Markmiðið með þessum aðgerðum var að fá hærra verð fyrir bankann við einkavæðingu hans rétt eftir síðustu aldamót.
Samkomulag náðist um afnám ábyrgðar á lífeyrisskuldbindingum og var yfirlýst markmið þess að þáverandi sjóðfélagar skyldu vera jafnsettir og var áður en ábyrgðin var afnumin. Lífeyriskjör þáverandi sjóðfélaga áttu þannig að vera jafntrygg eins og ábyrgð aðildarfélaganna og ríkissjóðs stæðu að baki þeim. Á móti kom gagngjald í tvenns konar formi. Annars vegar greiðsla inn í sjóðinn vegna reiknaðs mismunar eigna og skuldbindinga hlutfallsdeildar vegna þegar áfallinna skuldbindinga og hins vegar í formi hærra hlutfalls lífeyrisiðgjalds, 14,4%, til að mæta skuldbindingum vegna framtíðarréttinda þáverandi sjóðfélaga, en hlutfallið var áður 8%. Stofnuð var sérstök deild, Hlutfallsdeild, innan Lífseyrissjóðs bankamanna um þessi réttindi sem uppgjörið varðaði og var hún lokuð fyrir nýjum sjóðfélögum.
Þetta samkomulag skipti auðvitað verulegu máli fyrir hagsmuni einstaklinga og segja má að öll áhætta á efndum þess hafi verið lögð á sjóðinn og þar með einnig á viðkomandi einstaklinga. Samkomulagið var flókið, snerist afnám ábyrgðar á lífeyrisskuldbindingum og byggði á áratuga framtíðarmati tiltekinna forsendna.
Forsendur stóðust ekki
Fljótlega kom í ljós að þróun mála hafði í verulegum mæli vikið frá þeim forsendum sem samkomulagið byggði á. Það leiddi til þess að gert var sérstakt viðbótarsamkomulag árið 2006 til að mæta frávikum vegna launaþróunar, en laun innan bankakerfisins höfðu hækkað verulega meira en samkomulagið gerði ráð fyrir.
Þrátt fyrir það samkomulag hafa mál haldið áfram að þróast á verri veg, aðallega vegna þess að lífseyristaka hefur á seinni árum hafist fyrr en forsendur gerðu ráð fyrir sem veldur því að iðgjöld eru greidd í styttri tíma og lífeyrir greiddur lengur. Vegna þess að markmið samkomulagsins frá 2006 hafa ekki náðst hefur nú þegar þurft að skerða réttindi sjóðfélaga um tæp 10% og ljóst að skerða þarf þau enn frekar ef samkomulaginu fæst ekki breytt. Af þessu er ljóst að verðmæti þess endurgjalds sem sjóðurinn hlaut við gerð samkomulagsins ekki verið í samræmi við það sem aðilar stefndu að.
Mat á tjóni
Eftir mikil japl, jaml og fuður tókst hlutfallsdeild að fá fram mat frá dómskvöddum matsmanni um stöðu deildarinnar. Niðurstaða þeirrar matsgerðar er sú að fyrirtækin sem standa að sjóðnum hefðu miðað við verðlag ársins 1997 átt að greiða rúmlega 7,5 milljarða kr. fyrir áfallnar skuldbindingar en greiddu um 6,1 milljarð kr. Þá hefði nauðsynlegt heildariðgjald til að mæta kostnaði við lífeyrisskuldbindingar þurft að vera 20,63% í stað 18,4%.
Miðað við þessa matsgerð er niðurstaðan nokkuð skýr. Samkomulagið frá 1997 um uppgjör ábyrgðar skuldbindingum hallar á sjóðfélaga um sem nemur 5,4 milljarða króna á verðlagi í árslok 2015 miðað við breytingu á verðlagi. Miðað við þróun launa hefur hallað á sjóðfélaga sem nemur 8,3 milljörðum króna. Dómsmálið sem nú er í gangi gengur út á að leiðrétta þennan mismun gagnvart sjóðnum, en aðildarfyrirtæki sjóðsins og ríkissjóður hafa ítrekað neitað að ganga til samninga á grundvelli matsins.
Hvað er að?
Hlutfallsdeild telur að samkomulagið frá 1997 hafi verið ósanngjarnt þegar það var gert og því beri að breyta þannig að beitt sé sanngirnismælikvarða til þess að fá fram þá niðurstöðu sem augljóslega var stefnt að, þ.e. að lífeyrisréttindum sjóðfélaga yrði ekki stefnt í hættu.
Samkomulagið var þannig úr garði gert að stór hluti ávinnings til t.d. Landsbanka Íslands hf. og ríkissjóðs kom til strax, þ.e. afnám ábyrgðar á lífeyrisskuldbindingum. Verðmæti gagngjaldsins til sjóðfélaga var hins vegar háð óvissu. Þrátt fyrir að sjóðfélagar hafi fengið eingreiðslu vegna uppgjörs ábyrgðar og iðgjaldagreiðslur hafi verið hækkaðar vegna framtíðarréttinda, þá báru sjóðurinn og sjóðfélagar einhliða áhættu til áratuga af þróun lífeyrisskuldbindinga og annarra forsendna sem samkomulagið byggði á.
Það er almenn skoðun meðal sjóðfélaga að verðmæti endurgjalds hafi verið ósanngjarnt gagnvart sér og einnig sú einhliða áhætta sem þeir tókust á hendur vegna endurgjaldsins. Þannig hafi efni samkomulagsins verið óeðlilega hagstætt aðildarfyrirtækjum sjóðsins. Þá telur sjóðurinn að það hafi verið ósanngjarnt að láta hann og sjóðfélaga eina bera áhættu af samkomulagi sem gert var fyrir tilstuðlan og vegna hagsmuna íslenska ríkisins og Landsbanka Íslands hf. Þá telur sjóðurinn að það hafi verið sérstaklega ósanngjarnt að setja alla áhættu á fullum efndum samkomulagsins á hlutfallsdeild og sjóðfélaga, enda ljóst að erfitt yrði að bregðast við breytingum á forsendum.
Eftir að bætt var úr forsendubresti vegna launaþróunar með viðbótarsamkomulaginu árið 2006, þá hefur skipt mestu um frávik frá samkomulaginu að lífeyristaka hefur hafist fyrr en forsendur gerðu ráð fyrir sem veldur því að iðgjöld eru greidd í styttri tíma og lífeyrir greiddur lengur. Þá hefur nýting á sk. 95 ára reglu verið mun meiri en reiknað var með í samkomulaginu. Hins vegar hefur ávöxtun fjármuna sjóðsins verið yfir viðmiði samkomulagsins en það er sá þáttur sem sjóðurinn getur haft mest áhrif á. Þannig hefur grundvöllur samkomulagsins raskast til tjóns fyrir sjóðfélaga - þrátt fyrir góða ávöxtun eigna á tímabilinu.
Tekið á hópum með mismunandi hætti
Gjaldkerarnir úr Landsbankanum fá hins vegar ekki sömu meðferð og ýmsir aðrir starfsmenn sem unnu hjá ríkinu á sínum tíma. Eitt dæmi um það er að við bankahrunið í október 2008, þegar Landsbankinn hf. tók yfir innlenda starfsemi Landsbanka Íslands hf. sem fór á hausinn, tók íslenska ríkið á sig ábyrgð á greiðslum lífeyrirsskuldbindinga bankans til fyrrverandi æðstu starfsmanna bankans og maka þeirra. Þá lítur það óneitanlega skringilega út í ljósi jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og lífeyrisréttar skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar að íslenska ríkið skuli neita að taka ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum þessara fyrrum starfsmanna sinna sem voru bankagjaldkerar í ljósi samninga ríkisins við aðra hópa um svipuð mál. Í lok ársins 2016 var gert samkomulag við Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands um Lífeyrirssjóð starfsmanna ríkisins (LSR) þar sem framkvæmt var uppgjör á ábyrgð ríkisins gagnvart LSR með eingreiðslu upp á rúma 100 milljarða króna auk framlags í sérstakan varúðarsjóð ef forsendur myndu ekki ganga eftir. Einnig skuldbatt íslenska ríkið sig til viðræðna um frekari framlög til LSR, ef niðurstaða síðari útreikninga sýndi fram á frekari fjárþörf LSR.
Með þessum hætti hafa bankagjaldkerar í raun þurft að bjóða fram sín breiðu bök til þess að bera byrðar af hlutafélagavæðingu, einkavæðingu og gjaldþroti Landsbanka Íslands hf. á meðan full ábyrgð er tryggð gagnvart skuldbindingum æðstu starfsmanna bankans og full réttindi annarra ríkisstarfsmanna tryggð. Það á greinilega ekki það sama við um Jón og séra Jón.
Ari Skúlason er formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna og hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans.