Sameiginlegur rekstur ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu er nú í endurskoðun, ef frá er talin ferðaþjónustan í Kópavogi, sem rekur sjálfur sína þjónustu. Sveitarfélögum ber lögum samkvæmt að inna þessa þjónustu af hendi og þau leggja eðlilega mikla áherslu á að haga henni með sem hagkvæmustum hætti, þótt öryggi notenda hljóti ávallt að vera í fyrirrúmi.
Þegar leitast er við að hafa ferðaþjónustu sem hagkvæmasta fyrir sveitarfélagið skipta margir þættir máli, t.d. fjöldi þeirra einstaklinga sem nýta sér þjónustuna, hvers eðlis fötlun þeirra er, t.d. hvort þeir nota hjólastól eða ekki, fjöldi ferða og hvaða farartæki verður fyrir valinu. Það er eðlilegt að allir þessir þættir séu skoðaðir, þegar reiknað er út hver fjárhagsleg niðurstaðan verður fyrir sveitarfélagið. Hver ferð kostar sitt.
Það blasir við að því fleiri sem geta nýtt hverja ferð, því hagkvæmari verður niðurstaðan í excelskjali sveitarfélagsins. Það hagræði rímar hins vegar alls ekki alltaf við hag þess fatlaða einstaklings, sem nýtir þjónustuna. Ef aðeins er litið á krónur og aura verður frelsið og sjálfræðið að víkja. Kerfið, sem lögum samkvæmt á að styðja við fatlaðan einstakling, snýst þannig gegn honum í raun og vinnur gegn sjálfsákvörðunarrétti hans. „Hagkvæmnin“ reiknast aðeins út frá peningum, ekki lífsgæðum.
Í öllum þessum útreikningum finnast hvergi tillögur þar sem fyrst og fremst er lögð áhersla á að veita framúrskarandi þjónustu, að mæta réttindum þessa hóps eins og kostur er og auka lífsgæði og sjálfstæði hans. Hvergi sjást þess merki, þrátt fyrir að nú sé langt liðið á árið 2018, árið sem ný lög um félagsþjónustu tóku gildi, með ákvæði um ferðaþjónustu fatlaðra. Árið þar sem allir hafa talað fyrir mikilvægi sjálfstæðis fatlaðra einstaklinga, sjálfræði þeirra og möguleika á að hafa stjórn á eigin lífi eins og kostur er. Árið þar sem almennt er viðurkennt að kerfið á ekki að stýra einstaklingnum, heldur á hann að geta hagað lífi sínu eftir eigin þörfum og vilja, sem sjálfstæður einstaklingur þótt hann tlheyri þeim hópi sem við veljum að kalla fatlað fólk.
Hvernig er hægt að vera annað en hugsi? Hugsi og órótt yfir því valdi sem við hin „ófötluðu“ höfum yfir lífi þeirra sem þurfa að treysta á lögboðna þjónustu.
Við eigum að standa við það sem við segjum og framkvæma í samræmi við það. Réttindi eru ekki tryggð með yfirlýsingum og orðaflaumi. Aðgerðir verða að fylgja. Þeir sem bera ábyrgð á að veita lögbundna þjónustu eiga að gera það af auðmýkt og í samræmi við skýran vilja samfélagsins.
Höfundur er oddviti og bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.