Spriklandi líf í bók Birgittu Haukdal

Auður Jónsdóttir rithöfundur segir það dýr­mætt að fólk skrifi, líka þó að hægt sé að hanka það á hinu og þessu, því texti lifi fólk. Hann dæmi sig sjálf­ur, afhjúpi sig og afbygg­i.

Auglýsing

Að skrifa er leið til skilnings en leiðin að skilningi getur kostað átök. Maður skrifar eins og upplifunin í augnablikinu býður upp á að réttast sé að orða eitthvað ákveðið. Í augnablikinu. Augnabliki síðar getur manni fundist eitthvað annað. En því að gefa út bækur fylgir óhjákvæmilega að opinbera hugarheim sinn. Því þó að sá sem skrifi sé einungis að skálda, þá kemur skáldskapurinn úr hugarheimi höfundar. Hann er uppspretta sköpunarinnar.

Ástæða þess að ég skrifa þetta núna er gagnrýni hjúkrunarfræðinga á meinta steríótípíska birtingarmynd starfs þeirra í nýrri barnabók eftir Birgittu Haukdal: Lára fer til læknis. Gagnrýnin hófst með facebookfærslu hjúkrunarfræðingsins Sólveigar Auðar Hauksdóttur og endaði, að mér skilst, í þessari vanalegu tilfinningaþrungnu hakkavél spjallþráðanna. Ég hef ekki séð bókina en skilst á fréttum að þar tali hún um hjúkrunarkonu í stað hjúkrunarfræðings, starfsheiti sem varð úrelt þegar hjúkrunarfræði varð að háskólanámi, og að mynd hjúkrunarfræðingsins í sögunni, kona í kjól með kappa, sé ekki í takt við veruleikann í dag.

Að flækjast í hugarheimi sínum

Af þessu að dæma er gagnrýnin ábending Sólveigar Auðar bæði réttmæt og þörf. Á móti kemur að gagnrýni sem þessi er ekki í eðli sínu – og á ekki að vera – árás á höfundinn. Hún þarf að heyrast en höfundurinn þarf samt ekki að taka henni persónulega. Ég get huggað Birgittu með því að ég hef sjálf, sem skrifandi manneskja á tímum hugmyndalegra umbrota, upplifað fleiri svona byltur en ég hef tölu á. Bæði eftir útgáfu á bókum og í umræðu út af einhverju sem ég hef skrifað á samfélagsmiðla eða í fjölmiðla og sagt í viðtölum. Að skrifa um hluti sem tengjast til dæmis fjölmenningu, kynjahlutverkum, trúarbrögðum eða menningarátökum er ákveðin áhættuhegðun í sjálfu sér.

Auglýsing

Ég veit ekki hversu oft ég hef lagt upp með góðan ásetning en flækt mig í inngrónum hugarheimi; afsprengi þess hvernig ég varð ég, og hrasað um eigið orðalag. Afhjúpað forpokaða hugsun af því ég skildi ekki það sem ég skrifaði fyrr en ég hafði birt það, fengið að sjá það í margþættara samhengi og upplifað viðbrögð við því. Þannig getur höfundur orðið eyrnamerktur fordómum sem hann lagði þó upp með að skrifa gegn. Já, krakkar mínir! En einmitt þetta, öll þessi niðurlæging sem maður sækir endurtekið í, hún er dýrmæt. Hún er lærdómurinn, þróun hugmynda manns í samfélagi og heimi þar sem hugmyndir okkar um mannlífið eru stöðugt að þróast og blakta á margtóna gráum svæðum. Við verðum að þora að tjá okkur en við verðum líka að þora að hlusta. Njóta þess að vera í eldfimu samtali til að mjakast áfram til skilnings.

Í sjálfu sér verður bókin þarfari en í fljótu bragði virðist, einmitt út af þessari umræðu. Það má lesa hana og ræða um leið við börnin um hvernig tímarnir breytist og mennirnir með, hvernig litið var á starf hjúkrunarfræðinga hér áður fyrr og hvernig það hafi breyst og af hverju. Ég ætla að kaupa bókina, lesa hana með syni mínum og rabba einmitt um þetta við hann. Ef bókin er skoðuð með þessum gleraugum, þá á hún meira og dýpra erindi en ella – þó að það hafi ekki verið upphaflegi ásetningur höfundar. Bækur eru sjálfstæðar, eitt er höfundurinn, annað verk hans sem lifir sjálfstæðu lífi.

Femíníska flagðið

Í fljótu bragði rámar mig í franska bók, Theresu eftir François Mauriac, um konu sem fór svo illa með mann sinn, að mati höfundar, að hann varð að skrifa sérstaka smásögu eftir útkomu bókarinnar svo Theresa fengi enn maklegri málalok en í sjálfri skáldsögunni. Þessi skrif Úlfhildar Dagsdóttur um umrædda bók fann ég á vef bókmenntaborgarinnar en þau eru bútar úr lengri grein.

„Theresa, sem kom fyrst út árið 1927, er bók sem kallast á sérlega áhugaverðan hátt á við tvenna tíma, sinn eigin og svo hinn alræmda nútíma. Þetta kemur ekki einungis fram í skáldsögunni sjálfri heldur þeim ummælum höfundar um eigin sögupersónu, að hún sé ógeðfelld.“

Síðar í umfjölluninni skrifar Úlfhildur: „Theresa segir frá ungri konu sem giftist ungum manni og eitrar svo fyrir honum. Hann lifir þó af. Hjónabandið er hagkvæmnishjónaband, leifar af hugmyndaheimi fyrri aldar, en Theresa og eiginmaðurinn Bernharður eru afkomendur landeigenda, markmiðið er að sameina jarðir og allt það. Theresa sker sig úr umhverfi sínu fyrir gáfur, það er ítrekað að hún sé ekki fögur, en hafi persónutöfra - gáfurnar teljast henni ekki til tekna.“

Og þessi klausa Úlfhildar segir kannski allt sem segja þarf: „Karlveldið með sinni ofuráherslu á fjölskylduna sem verður Theresu skelfilegra fangelsi en nokkuð annað er hér dregið sterkum dráttum óhugnaðar, án þess að eiga nokkuð skylt við femínisma sem slíkan. Á sínum tíma dáðist ég að því að karl skyldi geta skrifað svona um konu og enn get ég ekki annað en undrast og hrifist.“

Að skrifa er að lifa

Verkið Theresa er klassík – á forsendum sínum. En höfundur var barn síns tíma – eins og við öll. Það síðasta sem hvarflaði að honum var að búa til femíníska hetju. En Theresa sá við honum. Á endanum umbreyttist verkið úr sögu um vandræðakonu í sögu um femíníska fyrirmynd sem konur seinni tíma tóku upp á sína arma. Fyrir vikið varð bókin – bókin hans – að klassík. Ekki á hans forsendum, en á forsendum umheims í stöðugri þróun. Bókin varð merkilegri en höfundurinn. Eins og svo oft!

Og svo dýrmæt í sjálfri sér, bókin sem hann skrifaði. Það þurfti hann, einmitt þennan mann, til að hún yrði til. Raunin er sú að umdeild verk vekja oft nauðsynlega umræðu í samfélaginu – sem hefði jafnvel ekki átt sér stað ef ekki fyrir tilurð þeirra. Og verkin lifa og merking þeirra umbreytist í ljósaflökti tímans; þannig er skemmst að minnast áhugaverðrar femínískrar afbyggingu á Sölku Völku, nýlega í Borgarleikhúsinu, þegar bandaríski leikstjórinn Yana Ross rótaði róttækt í verkinu og um leið í rótgrónum hugmyndum áhorfenda.

Að skrifa er að lifa. Læra og skilja af því sem maður lætur frá sér. Það er svo dýrmætt að fólk skrifi, líka þó að það sé hægt að hanka það á hinu og þessu. Því texti lifir fólk. Og hann dæmir sig sjálfur, afhjúpar sig og afbyggir. En tilveruréttur þessarar birtingarmyndar hugarheima okkar, texti, er óumdeilanlegur. Frelsið til að skrifa, frelsið til að gefa út gagnrýnisverðar bækur, frelsið til að teikna mynd sem reynist á einn eða annan hátt vera skrumskæling. Við eygjum ekki hugsanlega skrumskælingu nema við sjáum verkið og fáum færi á að íhuga hvað okkur finnst umhugsunarvert. Kaupum því bókina, lesum hana á forsendum hennar, pælum í henni með börnunum okkar. Lesum og ræðum saman. Í heimsbókmenntunum, jafnt sem í hvers konar skrifum nútímans, úir og grúir af úreltum viðhorfum. Allir sem skrifa opinberlega geta lent í einmitt því sem Birgitta upplifir nú. Það bara fylgir. Því við erum bara við, þessar manneskjur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Gunnar Alexander Ólafsson
Öflugt húsnæðiskerfi fyrir alla
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit