Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eitt mest aðkallandi vandamál samtímans. Þær breytingar sem eiga sér stað á loftslaginu ógna mannlífi, lífríki og vistkerfum um allan heim. Vitundarvakning hefur orðið á undanförnum árum og hafa ýmsir alþjóðasamningar verið undirritaðir til að reyna að stemma stigu við þessari þróun. Ísland hefur sett sér háleit markmið þegar kemur að alþjóðasamningum og skuldbindingum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur t.d. sett stefnuna á kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040. Ísland er gjarnan talin fyrirmynd þegar kemur að umhverfismálum í alþjóðasamfélaginu. Þar sem notaðir eru endurnýjanlegir orkugjafar er orkunotkun landsins að lang mestu leyti sjálfbær. Samkvæmt grein World Economic Forum frá árinu 2016 er Ísland meðal fjögurra umhverfisvænustu ríkja heims, ásamt Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku.
Þegar talað er um Ísland sem leiðandi í umhverfismálum virðist hins vegar lítið tillit vera tekið til þess að losun Íslands stafar að miklu leyti af neyslu einstaklinga á innfluttum vörum. Neysludrifið kolefnisfótspor er mælikvarði sem snýr að öllum umhverfisáhrifum í lífsferli vöru og yfirfærir að lokum losunina á neytandann. Neysludrifið kolefnisfótspor getur því hjálpað til við að mæla og skilja losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til neysluhegðunar. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna Clarke, Heinonen og Ottelin (2017) stafar um 61% af útblæstri íslenskra heimila af neyslu á innfluttum varningi. Neysludrifið kolefnisfótspor Íslands er stærra en flestra Evrópuríkja og jafnframt er fótsporið 55% stærra en svæðisbundnar útblástursmælingar gefa til kynna. Þessi ríkjandi neysluhyggja sem virðist m.a. þrífast meðal Íslendinga hefur leitt til flestra af þeim umhverfisvandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Losun íslenskra neytenda hefur áhrif út fyrir íslensk landamæri og ljóst er að losunin, sem stafar að miklu leyti af neyslu Íslendinga á innfluttum varningi, mun enda sem byrði á þróunarlöndum.
Samkvæmt mælingum á vistfótspori, þ.e. hversu mikið af náttúrulegum gæðum mannkynið notar í neyslu sína, náði jörðin þolmörkum seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Síðan þá hefur neysla mannkyns stöðugt aukist og ljóst er að hún er komin vel umfram þolmörk jarðar. Í þessu samhengi er vert að benda á að samkvæmt mælingum á vistspori Íslands, sem Sigurður Eyberg Jóhannesson framkvæmdi fyrir meistaraverkefni sitt, þyrfti 27 jarðir ef neysla allra jarðarbúa væri í samræmi við Íslendinga. Því er ljóst að neyslan okkar er eins ósjálfbær og hugsast getur.
Í dag er svokallaður Svartur föstudagur sem með öllum sínum tilboðum er einn stærsti neysludagur ársins. Svartur föstudagur á uppruna sinn að rekja til Bandaríkjanna og er hann haldinn daginn eftir þakkargjörðarhátiðina. Á svörtum föstudegi eru einstaklingar sem sagt hvattir til að kaupa allskonar dót, hluti og drasl, deginum eftir að hafa haldið uppá það hversu þakklátir þeir eru fyrir það sem þeir eiga. Árið 1992 fékk Ted Dave hugmyndina að Buy nothing Day (Kauptu ekkert daginn) sem haldinn er sama dag og Svartur föstudagur. Hann leit á daginn sem tækifæri fyrir samfélög til að íhuga þá ofneyslu sem einkennir vestræna lifnaðarhætti. Hugmyndin fékk síðan hljómgrunn hjá kanadísku aðgerðarsamtökunum Adbusters og hefur þessi alþjóðlegi mótmæladagur neysluhyggjunnar verið haldinn hátíðlegur víða um heim.
Til að stemma stigu við þeim loftslagsbreytingum sem við erum þegar farin að finna fyrir er nauðsynlegt að minnka neysluna. Að gefnu tilefni hvet ég fólk til að halda Kauptu ekkert daginn hátíðlegan. Látum ekki markaðsöflin stjórna hegðun okkar, íhugum hvaða áhrif neysla okkar hefur á jörðina og breytum Svörtum föstudegi í Grænan.