Þegar lög um skyldutryggingar lífeyrisréttinda frá árinu 1997 voru samþykkt áttu þau að tryggja lífeyrisréttindi sem námu 56% af meðallaunum yfir starfsævina miðað við 10% iðgjald í 40 ár. Síðan þá hefur örorkubyrði sjóðanna, sem og lífaldur, hækkað sem varð til þess að iðgjöld voru hækkuð árið 2006 í 12% til að standa undir sama loforði. Á árunum 2016 til 2018 var iðgjaldið hækkað um 3,5% og er í dag 15,5% af öllum launum.
Það skal tekið fram að eingöngu er fjallað um hugmyndafræðina eða réttindaávinnsluna en ekki fjárfestingasögu sjóðanna, rekstrarkostnað og raunverulega getu þeirra til að ávaxta sig með þeim hætti sem þeir gera, sem gefur hið endanlega svar um hvað við fáum í lífeyri eftir að vinnuskyldu lýkur.
Réttindi okkar í sjóðunum eru reiknuð út miðað við 40 ára inngreiðslu en staðreyndin er sú að starfsævi á Íslandi er að meðaltali 11 árum lengri en Evrópubúa. Þannig greiðum við mun lengur í lífeyrissjóði eða frá 16 til allt að 70 ára. Miðað við 50 ára inngreiðslu og sömu útreikninga og lífeyrissjóðirnir sjálfir nota breytist staðan mikið.
Uppreiknað út frá meðaltekjum félagsmanna VR frá 16 til 67 ára.
Viðbótarframlag í séreignasjóð er í dag 2 til 4% frá launafólki og 2% frá atvinnurekendum. Þessi viðbót gefur um 18,6% til 28% réttindi ef reiknað er á sama grunni og gert er með samtryggingarkerfi lífeyrissjóðanna.
15,5% iðgjald gefur 76% meðallaun í lífeyrisréttindi miðað við 40 ára inngreiðslu.
15,5% iðgjald með 4% séreign gefur 94,6% meðallaun í lífeyrisréttindi miðað við 40 ára inngreiðslu.
15,5% iðgjald með 6% séreign gefur 104% meðallaun í lífeyrisréttindi miðað við 40 ára inngreiðslu.
Greiðslur í lífeyrissjóði geta því verið allt að 21,5% af launum alla starfsævina.
Raunin er sú að launafólk er lengur á vinnumarkaði en í 40 ár og því eru réttindi í raun hærri, auk þess sem margir lífeyrissjóðir eru með hærri réttindi en lágmarkið sem samið er um.
Miðað við 15,5% framlag og inngreiðslur frá 16 ára til 67 ára er sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna að vinna sér inn 105,1% lífeyrisréttindi af meðalævitekjum.
15,5% iðgjald með 6% séreign gefur 160,6% meðallaun í lífeyrisréttindi miðað við 50 ára inngreiðslutíma.
Niðurstaðan er því sú að þegar lífeyrisréttindi eru reiknuð yfir 100% af meðalævitekjum bendir það til þess að kerfið sé offjármagnað.
Mun sjóðunum takast að greiða hærri meðalævitekjur í lífeyri? Hljómar of gott til að vera satt.
Staðreyndin er sú að allar líkur eru á að sjóðunum takist ekki að standa við gefin loforð um hlutfall af ævitekjum. Fyrst ber að nefna markaðsáhættu sjóðanna sem er í einföldu máli sú að sjóðirnir geta í dag staðið undir lífeyrisgreiðslum með iðgjöldum og þurfa því ekki að selja eignir.
Markaðsáhættan mun því koma fram af fullum þunga þegar kerfið er fullþroskað og sjóðirnir þurfa að selja eignir til að standa undir greiðslum. Hvaða áhrif munu niðursveiflur hafa á lífeyriskerfið frá þeim tímapunkti þegar sjóðirnir þurfa að losa eignir í framtíðarinni?
Einnig er sjóðsöfnunarkerfið í eðli sínu viðkvæmt. Það tekur heila starfsævi að byggja upp réttindi í umhverfi þar sem markaðir taka dýfu á 6 til 8 ára fresti og alvarlegar fjármálakreppur eru í sögulegu samhengi 4 til 5 sinnum yfir starfsævina. Nú svo ef einhver einræðisherrann fer öfugu megin fram úr einhvern morguninn eða eitthvert stórveldið vill komast í frekari álnir í fjarlægum löndum, sem gæti leitt af sér heimsátök, er ljóst að sjóðsöfnunarkerfi heimsins getur hrunið.
Einnig má benda á stærð kerfisins og áhrif þess á hagkerfið og lífskjör almennt en heildareignir sjóðanna í september 2018 námu 4.217 milljörðum króna. Þar af voru innlendar eignir 3.112 milljarðar króna. Við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða er gert ráð fyrir að ávöxtun í framtíðinni þurfi að vera 3,5% plús hækkun á verðlagi. Þetta þýðir að lífeyrissjóðirnir þurfa að ná að lágmarki 3,5% ávöxtun til að geta staðið við sín loforð um greiðslu lífeyris. Þessi ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna gerir kröfu að íslenskt samfélag greiði að lágmarki 109 milljarða króna á ári til sjóðanna í formi hárra verðtryggðra húsnæðisvaxta og mikillar arðsemiskröfu á innlendu verðbréfasafni sem aftur þrýstir niður kaupgjaldi og heldur álagningu uppi.
Þessi mikla og háa arðsemiskrafa skerðir því sannanlega lífskjörin sem verkalýðshreyfingin er alltaf að reyna að hífa upp en vextir eru um 300% hærri á Íslandi miðað við Norðurlöndin og verðmunur á nauðsynjavörum og húsaleigu eru vart samanburðarhæfur. Verkalýðshreyfingin er því miður oft í mótsögn við sjálfa sig þar sem margir af háttsettum verkalýðsforingjum hreyfingarinnar sitja báðum megin borðs, í stjórnum lífeyrissjóða og sem forystumenn verkalýðsfélaga og þekkjast oft á því að lítið sem ekkert heyrist frá þeim í umræðunni þegar kemur að kerfisbreytingum, nema þá til að verja núverandi fyrirkomulag.
Einnig geta sjóðirnir ekki komið að innviðauppbyggingu með hófsamri ávöxtunarkröfu heldur eru þeir í eðli sínu mjög áhættusæknir til að hámarka arð. Það er því líka ákveðin mótsögn í lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda þar sem sjóðunum er bæði skylt að leita ávallt bestu kjara og einnig taka tillit til langtíma sjónarmiða.
Úr grein af heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða:
Árið 2017 námu iðgjöld og sérstök aukaframlög til samtrygginga og séreignadeilda lífeyrissjóða 272 milljörðum kr. Útgreiddur lífeyrir á sama tíma, ásamt öðrum tengdum útgreiðslum, nam um helmingi þeirrar fjárhæðar. Nettó innstreymi á liðnu ári var því um 136 milljarðar kr. Á sama tíma námu greiðslur til lífeyrissjóðanna, í formi afborgana og vaxta, um 200 milljörðum kr..
Fjárfestingaþörf sjóðanna er því gríðarlega mikil og sömuleiðis álagið á hagkerfið. Kröfur um aðkomu lífeyrissjóðanna í uppbyggingu á húsnæðismarkaði eða innviða uppbyggingu virðast vera smáaurar í samhengi efnahagsreiknings lífeyrissjóðanna. Þó samfélagslegur ávinningur væri að slíkri aðkomu, ef tekið er tillit til langtíma hagsmuna almennings, þá er viðhorf þeirra sem stjórna of markaðsdrifið.
Stjórnendur kerfisins og varðhundar þess hafa misst sjónar af því hvar hin raunverulega samfélagslega ábyrgð og lífsgæði sjóðfélaga liggja en hægt er að rekja ástæður veikingu krónunnar vegna lífeyrissjóðanna sem fara með fjármagn úr landi. Einnig er fyrirséð að stórar kynslóðir lífeyrisþega munu enda eignalitlar, með háar húsnæðisskuldir, á lífeyri með tilheyrandi framfærsluvanda.
Það er ljóst að skoða verður betur hvaða áhrif kerfið hefur á lífskjör almennings á meðan við erum á vinnumarkaði og stöðu ólíkra hópa sem eru á lífeyri eða nálgast lífeyristöku. Við þurfum að spyrja hvort kerfið sé orðið of íþyngjandi fyrir hagkerfið og hagsmuni almennings.
Það er ekki mikill metnaður í því að lifa sem þræll alla ævi til að halda uppi loforðum eða hugmyndafræði sem eru jafn brothætt og berskjölduð og lífeyriskerfið sannanlega er. Það gengur ekki að halda áfram á sömu braut og hækka iðgjöld til að standa undir kerfisbundnum niðursveiflum, hækkun lífaldurs eða aukinni örorkubyrði. Eða flýja það óumflýjanlega að kerfið verði fullþroskað.
Svo má spyrja sig hvaða samtrygging sé í því að láglaunafólk fái sama hlutfall af lágtekjum sínum í lífeyri og hálauna maðurinn, sem aftur er mun líklegri til að eiga auka sparnað og skuldlaust þak yfir höfuðið, og þarf þar af leiðandi lægri framfærslu en sá sem ekkert á. Það er ekki mikil samtrygging í því.
Verkalýðshreyfingin í samvinnu við stjórnvöld og atvinnulífið þurfa því að stofna starfshóp til að endurskoða kerfið í heild sinni og koma með tillögur að úrbótum. Sú vinna þarf að byrja strax.