Nú liggja fyrir drög að þjónustusamningi milli Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands um aldursgreiningar á umsækjendum um alþjóðlega vernd. Samningurinn hefur verið í umsagnarferli hjá bæði Vísindasiðanefnd og Jafnréttisnefnd HÍ og liggur nú á borði Jóns Atla Benediktssonar, rektors skólans. Óháð niðurstöðu rektors í þessu máli er mikilvægt að við ræðum þær aðferðir sem beitt er við aldursgreiningar hér á landi.
Óáreiðanleg vísindi
Tilgangur aldursgreininga er að skera úr um aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd þegar vafi leikur á því hvort viðkomandi sé undir eða yfir 18 ára aldri. Hér á landi byggjast greiningarnar nánast alfarið á rannsóknum sem framkvæmdar eru af tannlæknum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Stuðst er við röntgenmyndatökur og rannsókn á þroska endajaxla umsækjenda.
Greiningar sem byggja á tannrannsóknum eru umdeildar því þær eru bæði taldar siðferðislega vafasamar og byggja á veikum vísindalegum grunni. Á síðasta ári tók Háskólinn í Osló þá ákvörðun að hætta framkvæmd tannrannsókna, m.a. í kjölfar gagnrýni frá siðanefnd Læknafélagsins þar í landi. Þegar breskur þingmaður stakk upp á að notast yrði við tannrannsóknir við ákvörðun á aldri umsækjenda um alþjóðlega vernd brást Tannlæknafélag Bretlands ókvæða við og sagði slíkar rannsóknir siðlausar, ónákvæmar og óáreiðanlegar.
Í skýrslu sem Evrópuráðið birti haustið 2017 og fjallar um aldursgreiningar segir að líkamsrannsóknum skuli einungis beita sem lokaúrræði í aldursgreiningum umsækjenda. Þar segir að aldursgreiningar sem byggja eingöngu á líkamsrannsóknum séu í besta falli upplýst ágiskun (e. educated guess) og að þær geti þar að auki valdið þeim sem undir þær gangast andlegum skaða. Þá er vert að benda á að á síðasta ári var fylgdarlaust barn ranglega metið fullorðið í kjölfar tannrannsóknar hér á landi og var staða þess endurskoðuð eftir að ný gögn bárust frá heimalandinu sem staðfestu aldur þess.
Heildstætt mat
Í 39. grein reglugerðar um útlendinga er fjallað um aldursgreiningar. Þar segir að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar hans af ævi sinni en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Að mati Rauða kross Íslands er raunin hins vegar sú að í framkvæmd fer ekki fram neitt heildstætt mat af hálfu Útlendingastofnunar. Enginn barnalæknir, barnasálfræðingur eða annars konar sérfræðingur á sviði barna kemur að aldursgreiningu á nokkru stigi málsins.
Í fyrrnefndri skýrslu frá Evrópuráðinu má finna leiðbeiningar um það hvernig heildstæðu mati við aldursgreiningu skuli háttað. Þar segir að beita skuli þverfræðilegri nálgun sem byggist á mismunandi aðferðafræði. Skoða skuli allt frá líkamlegum og andlegum þáttum til umhverfislegra og menningarlegra þátta. Tryggja eigi aðkomu sérfræðinga úr ýmsum fræðigreinum en álit sérfræðinga á sviði barna og þroskaferli þeirra eigi að vega þyngst. Ljóst er að Útlendingastofnun fylgir ekki þessum ráðleggingum þegar hún leggur mat á aldur umsækjenda.
Stærri umræða
Tannrannsóknir á umsækjendum um alþjóðlega vernd byggja á veikum vísindalegum grunni og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Háskóli Íslands ætti því að hætta við fyrirhugaðan þjónustusamning við Útlendingastofnun. Umræðan um aldursgreiningar má þó ekki hætta þar. Ef Háskólinn neitar að framkvæma rannsóknirnar er líklegt að Útlendingastofnun leiti einfaldlega til tannlækna á einkastofum um framkvæmdina. Viljum við að hætt verði að styðjast við tannrannsóknir í aldursgreiningu verðum við að taka umræðuna á Alþingi og víðar í samfélaginu.
Í því samhengi fagna ég fyrirspurnum sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent á þrjá ráðherra vegna þessa máls. Í fyrirspurn til dómsmálaráðherra er m.a. spurt hvort ráðherrann telji líkamlegar aldursgreiningar siðferðislega réttlætanlegar eða nauðsynlegar í núverandi mynd og í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í fyrirspurn Loga til menntamálaráðherra er spurt hvort ráðherranum finnist ásættanlegt að opinber menntastofnun, tannlæknadeild Háskóla Íslands, framkvæmi umdeildar aldursgreiningar á viðkvæmum hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Að lokum spyr Logi hvort heilbrigðisráðherra telji að framkvæmd aldursgreininga á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega tanngreininga, samræmist siðareglum lækna.
Ég hlakka til að heyra svör ráðherranna við þessum mikilvægu fyrirspurnum. Við hljótum að geta farið aðrar leiðir í aldursgreiningum, þar sem velferð og réttindi barna eru í fyrsta sæti og byggt er á heildstæðu mati eins og ráðleggingar Evrópuráðsins segja til um.