Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um fullveldið og alþjóðlegar skuldbindingar, ekki síst í tengslum við hinn svonefnda þriðja orkupakka. Síðastliðinn föstudag flutti dr. Bjarni Már Magnússon dósent við lagadeild HR erindi á ráðstefnunni Fullveldi og þjóðaröryggi sem Þjóðaröryggisráð og Alþjóðamálastofnun HÍ stóðu að. Erindi Bjarna nefndist Ógnar eitthvað fullveldinu? Megininntak erindis Bjarna var að sú athöfn ríkis að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar feli í sér beitingu fullveldisréttar og sé því einn af eiginleikum fullveldisins en feli ekki í sér skerðingu á því.
Erindið birtist í heild sinni hér að neðan:
-----
Góðir gestir.
Það sem ég ætla að segja hér á eftir byggir á greininni ytra fullveldi frá sjónarhóli þjóðaréttar sem við Finnur Magnússon lögmaður og aðjúnkt við lagadeild HÍ rituðum í bókina Frjálst og fullvalda ríki. Bókin er gefin út af Sögufélaginu í tilefni af fullveldisafmælinu.
Innri og ytri fullveldisréttur
Fullveldishugtakið á rætur sínar í þjóðarétti og því verður að líta sérstaklega til hans þegar hugtakið er rætt. Til einföldunar þá er hefðbundið að greina fullveldishugtakið í innri og ytri vídd. Með innri fullveldisrétti ríkis er átt við rétt þess til að ráða innri málefnum sínum en í ytri fullveldisrétti felst réttur þess til að koma fram á alþjóðavettvangi.
Óhætt er að fullyrða að mun meiri áhersla er lögð á innri fullveldisrétt í opinberri umræðu um efnið hérlendis. Ytri hlið fullveldisins hefur engu að síður grundvallarþýðingu. Allar götur síðan 1923 hafa alþjóðlegir dómstólar með reglulegu millibili, nú síðast árið 2011, hafnað sjónarmiðum um að líta beri á alþjóðlegar samningsskuldbindingar ríkis sem skerðingu á fullveldi þess.
Alþjóðaskuldbindingar samræmast fullveldinu
Alþjóðadómstólar hafa litið svo á að samningsskuldbindingar leggi kvaðir á framkvæmd fullveldisréttar ríkis. Í þeim skilningi að þær skuldbindi ríkið til að framkvæma hann með ákveðnum hætti, en niðurstaðan hljóti ávallt að vera sú að ákvörðun um að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar feli í sér beitingu fullveldisréttar og sé því einn af eiginleikum fullveldisins. Grundvallarhugsunin er að fullvalda ríki getur ákveðið að setja sér sjálft takmörk með aðild að milliríkjasamningum og alþjóðastofnunum. Þetta er ríkjandi skoðun í þjóðarétti.
Fullveldishugtakið er í þessum skilningi eins og lögræðishugtakið: lögráða einstaklingur sem ræður sig í vinnu eða tekur fasteignalán hjá lánastofnun framselur ekki lögræði sitt, heldur nýtir hann það. Þegar Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum, NATO og EES var Ísland að nota fullveldi sitt en ekki skerða það. Það er svo önnur sjálfstæð spurning hvort að þátttaka í slíku samstarfi samræmist stjórnarskránni eða þjóni íslenskum hagsmunum. Fjarðrafokið í kringum Brexit sýnir að þótt ríki ákveði að taka þátt í viðamiklu alþjóðasamstarfi, sem takmarkar athafnafrelsi þess, er ekki þar með sagt að sú ákvörðun sé óafturkræf.
Viðtekið viðhorf í 100 ár
Merkilegt er að sjá hvernig sömu sjónarmið um fullveldishugtakið og alþjóðlegir dómstólar hafa sett fram voru notuð í málflutningi helstu forystumanna Íslendinga í samningaviðræðunum við Danmörku um sambandslögin. Í umræðum um sambandslögin árið 1918 benti Bjarni Jónsson frá Vogi á að hið ónákvæma orðalag „skerðing fullveldis“ væri sjálfsmótsögn því annað hvort væri maður lifandi eða dauður; annað hvort væri um fullveldi að ræða eða ekki.
Sambærilegur skilningur birtist hjá Einari Arnórssyni lagaprófessor, t.d. í riti hans Þjóðréttarsamband Íslands og Danmerkur sem kom út árið 1923. Í ritinu fjallar Einar m.a. um það fyrirkomulag að Danmörk fari með utanríkismál Íslands skv. umboði. Í ritinu bendir Einar á að vissulega takmarki umboðið athafnafrelsi Íslands en segir svo:
„[E]n takmörkun á athafnafrelsi ríkis sviftir það ekki alment fullveldi fremur en takmörkun á athafnafrelsi manns sviftir hann lögræði [...] Það, að Ísland getur veitt slíkt umboð, sýnir eitt með fleiru, að það er fullvalda ríki, því að ekkert ófullvalda ríki – ef tala má um ófullvalda ríki – getur veitt öðru ríki umboð til að fara með eina tegund mála sinna.“
Fjörtíu árum síðar endurróma þessi sjónarmið í ræðu Ólafs Jóhannessonar -þá lagaprófessor, síðar forsætisráðherra- þar sem hann veltir upp fullveldistakmarkanir þær, sem t.d. leiða af þátttöku í Efnahagsbandalagi Evrópu. Í ræðunni benti Ólafur á að skuldbindingar ríkja gagnvart alþjóðastofnun munu því oftast nær engu skipta um formlegt fullveldi ríkis. Gildir það almennt jafnt, þó að alþjóðastofnun hafi verið fengið í hendur vald, sem stjórnlögum samkvæmt á að vera hjá handhöfum ríkisvalds. Það sé svo önnur spurning hvort aðild að slíkri stofnun samræmist stjórnlögum hvers ríkis.
Er hægt að framselja fullveldi?
Í framhaldi af þessu verður að benda á að hugtakið fullveldisframsal er oft notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar. Hugtakið er ekki séríslenskt, enda finnast sambærileg hugtök á öðrum tungumálum. Almennt verður þó að telja að heppilegra sé að ræða um framsal valdheimilda frekar en fullveldisframsal. Af dómum alþjóðlegra dómstóla leiðir að það felst hreinlega í fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar.
Rétt er að velta upp þeirri spurningu hvort fullveldið minnki við framsal valdheimilda. Hin hliðin á þeirri spurningu er hvort hægt sé að efla fullveldi ríkis með einhverjum hætti. Í þessum orðum birtist sú hugmynd að hægt sé að auka við eða minnka fullveldi ríkja. Slíkur þankagangur á sér litla stoð í þjóðarétti. Fullveldishugtakið er ekki hlutfallstengt við tiltekinn fullveldisstuðul. Annað hvort er maður lifandi eða dauður, annað hvort er um fullveldi að ræða eða ekki, eins og Bjarni Jónsson orðaði það. Þær landfræðilegu einingar sem teljast fullvalda ríki eru allar jafn fullvalda. Völd þeirra, áhrif og stjórnskipulag er aftur á móti ólíkt.
Ógnir við fullveldið
Ef það er eitthvað sem ógnar fullveldinu þá er það sá þröngi skilningur á hugtakinu sem er ríkjandi hérlendis. Með því að sneiða burt ytri hliðar fullveldisins og líta fyrst og fremst á innri hliðar þess verður umræðan um fullveldið ævinlega bjöguð. Allar tilraunir til aflimunar á fullveldishugtakinu eru sérstaklega varasamar fyrir ríki sem byggir sín þjóðaröryggismál að miklu leyti á milliríkjasamningum og alþjóðlegri samvinnu. Auk þess sem þær eru í andstöðu við sjónarmið þeirra sem leiddu fullveldisbaráttuna.
Takk fyrir.