Um daginn var ég þingmaður í viku í fyrsta sinn í ríflega fimm ár. Það var ansi gaman en líka forvitnilegt. Það var margt breytt og að mér fannst flest til batnaðar. Samskipti þingmanna og almenns starfsfólks þingsins voru t.d. mun frjálslegri en á árunum 2009-13 - og hafði þá þó víst slaknað á formlegheitunum. Hluti af því ánægjulega var líka að í þetta skiptið var þingmennskan bara tímabundin. Ég vissi að ég slyppi út aftur eftir nokkra daga. Því þótt ég hafa ólæknandi áhuga á stjórnmálum þá yfirtekur þingmennskan allt manns líf og maður afsalar sér vissum réttindum, t.d. til að skipuleggja tíma sinn og segja það sem manni sýnist hvar sem er og hvenær sem er. Þótt þetta væri bara vika og eiginlega ekki alvöru þingmennska þá fór lífið engu að síður úr skorðum. Samt varði ég engum tíma í að tala við almenning, sækja málþing úti í bæ eða lesa þykkar skýrslur eins og góðir alvöruþingmenn þurfa að gera.
En ég varð líka vör við breytingu á þingliðinu og aðrar áherslur í þingstörfunum en þegar við vorum í hreingerningu og rústabjörgun eftir hrunið. Það vakti t.d. athygli mína að töluverðar umræður, í formi atkvæðaskýringa, urðu um skýrslubeiðni. Um slíkar beiðnir gildir að níu þingmenn (sami fjöldi og situr í hverri þingnefnd) getur óskað eftir skýrslu. Forsætisnefnd og sérfræðingar þingsins rýna orðalag og meta hvort beiðnin sé tæk og hvort verkið sé vinnanlegt. Eftir það eru greidd atkvæði um hvort leyfa skuli skýrslugerðina. Ekki minnist ég þess að nokkurn tímann hafi verið gert veður út af skýrslubeiðni 2009-13 (en kannski misminnir mig). Nú var hins vegar vesen en beðið var um skýrslu um stöðu þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Og það mátti greinilega ekki skoða! Þingmenn fóru í ræður til að útskýra af hverju þetta væri hættulegt og aðför að þjóðkirkjunni. Meðal þeirra sem tjáðu sig voru Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson en alls samþykktu 19 þingmenn ekki þessa beiðni, 24 sögðu já, aðrir voru fjarverandi. Engir Miðflokksmenn samþykktu skýrslubeiðnina né þingmenn Flokks fólksins, auk þess sem nokkrir Framsóknar-, Sjálfstæðismenn og Vinstri grænir voru sama sinnis. Þetta fannst mér merkilegt. Var að skapast þéttur hópur sannkristinna þingmanna á Alþingi? Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að sjálf er ég trúlaus en virði öll trúarbrögð. Mér finnst ekkert að því að taka saman þessar upplýsingar.
Í ljósi þessa áhuga þingmanna á kristinni trú var kannski ekki skrítið að þeir hafi gengið í klaustur þótt Klaustrið sem um ræðir sé bara pöbb. Í þessu samhengi er er rétt að benda á að orðið pöbb er íslenskun á enska orðinu pub sem er stytting á public house, þ.e. staður þar sem allur almenningur getur gert sig heimakominn. Það er því ekki undir neinum kringumstæðum hægt að líta á pöbba sem prívatrými.
Til er máltækið "Öl er innri maður". Þegar fólk drekkur áfengi verður það málglaðara og það losnar um hömlur. Það breytir hins vegar ekki um persónuleika eða skiptir um skoðanir en hugsanlega brýst ýmislegt upp á yfirborðið sem annars væri vel falið. Það sem fékk að flakka á Klausturbarnum hjá þeim sex þingmönnum sem þar sátu var hrein viðurstyggð og ég ætla ekki að hafa það eftir. Viðbrögðin hafa líka verið ömurlegt yfirklór hjá flestum þeirra. Þeir hafi í raun ekkert gert að sér, kannski drekki þeir ekki nóg, þeir meintu aunt en ekki cunt og hafi bara verið að ljúga. Þeir segja að í raun hafi þeir ekki valdið neinum skaða og að orðin sem þarna hafi verið notuð séu þeim framandi eins og þeir séu börn á máltökuskeiði sem séu bara enn að læra ný orð eða einhverjir aðrir hafi sagt þau. Og svo séu þeir búnir að biðjast afsökunar.
En það sem þarna fór fram er óafsakanlegt eins og t.d. ráðherra mennta- og menningarmála hefur bent á. Og skaðinn sem þetta fólk hefur valdið með orðum sínum er óbætanlegur. Það er ógjörningur að bera virðingu fyrir Alþingi við þessar aðstæður. Það sem þarna fór fram er ekki einkamál þingmanna og það verður að hafa afleiðingar.
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum, eins og segir í stjórnarskránni, bæði þeirri nýju og gömlu. Það sjálfstæði er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi. Í þessu tilfelli stangast það hins vegar á við rétt annarra þingmanna til vinnuumhverfis sem er laust við ofbeldi, rétt annars starfsfólks Alþingis til þess sama, rétt þeirra sem eru kallaðir fyrir nefndir Alþingis, þinginu til ráðgjafar til að þurfa ekki að mæta þessum sorakjöftum í húsnæði þingsins eða jafnvel á nefndarfundum eins og stóð til í dag. Og síðast en ekki síst rétt almennra borgara til þess að þeir kjörnu fulltrúar sem eiga að gæta hagsmuna þeirra séu ekki apakettir, svo notuð séu þeirra eigin orð.
Við erum sem þjóð enn og aftur í vanda. Það er óhugsandi að þetta fólk segi ekki af sér og sitji áfram sem þingmenn. Þau verða að víkja, öll sex. Annars er fullveldið sem við ætlum að fagna á morgun bara brandari. Hér þurfum við öll að taka höndum saman og ákveða að vinna ekki með þessu fólki sem hefur sýnt af sér eins ótrúlega mannfyrirlitningu og við höfum lesið um í fjölmiðlum síðustu daga. Það er eina leiðin út úr þessu.