Hvernig tekst maður á við gjörðir sínar? Þarf maður að bera ábyrgð á því sem maður segir eða gerir?
Þessar spurningar er vert að velta fyrir sér í ljósi fregna af samtali nokkurra þingmanna á bar sem hefur valdið miklum tritringi í samfélaginu.
Hér á landi höfum við stöðugt velt fyrir okkur hvað þarf til að einstaklingur beri siðferðilega ábyrgð á gjörðum sínum eða framferði? Sérstaklega á það við um þingmenn sem öllu jöfnu telja að brot sín krefjist þess ekki að þeir segi af sér. Í samanburði við siðferisviðmið þingmanna landa í okkar nánasta umhverfi þá eru viðhorfin afar ólík sem gerist meðal þingmanna á Alþingi.
Íslenskir þingmenn segja af sér
Örfáir þingmenn hafa sagt af sér á landi vegna gjörða sinna og tekið ábyrgð af mistökum sínum. Hér eru nokkur dæmi:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir af sér embætti forsætisráðherra eftir að upp komst að hann hafi leynt eignum sem komu fram í Panamaskjölunum (Wintris málið).
Hanna Birna Kristjánsdóttir segir af sér 2014 eftir að hitna fór verulega undan henni vegna Lekamálsins svokallaða.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði af sér þingmennsku árið 2010 eftir mikla gagnrýni á styrkjamál hennar.
Illugi Gunnarsson vék tímabundið af þingi við rannsókn á Sjóði 9 eftir hrun.
Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér sem viðskiptaráðherra árið 2009 vegna ábyrgðar sinnar á hruninu.
Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku árið 2008 fyrir að senda út netpóst sem innihélt gagnrýni á samflokksmann hans.
Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér fyrir um 20 árum síðan vegna embættisfærslna.
Afsagnir sænskra stjórnmálamanna
Til samanburðar eru nokkur dæmi um afsagnir ráðherra í Svíþjóð á undanförnum árum. Vel að merkja þá er þetta aðeins listi um afsagnir ráðherra en til viðbótar eru mörg dæmi um afsagnir annarra þingmanna, leiðtoga flokka og háttsetra embættismanna sem ég nefni ekki hér. Einnig er hrúga af þjóðernissinnum sem hafa verið settir út af sakramentinu fyrir tengsl við nasisma eða brot sem þeir hafa framið.
Ágúst 2018 – þingmaður Kristilegra demókrata segir af sér eftir að hafa orðið uppvís að því að leigja bíl, á kostnað ríkisins, í eigin þágu fyrir um 2.8 milljónir króna.
Júlí 2017 – þrír ráðherrar segja af sér eftir svokallaðan IT-skandal hjá Transportstyrelsen. Sökin er að þeir hafi ekki brugðist við upplýsingum um að úthýsing tölvuþjónustu til erlends fyrirtækis olli því að viðkvæmar upplýsingar um þjóðaröryggi komust í rangar hendur.
Apríl 2016 – ráðherra segir af sér vegna þátttöku í viðburði með Gráu úlfunum, tyrkneskum samtökum fasista og öðrum hreyfingum þjóðernissinna.
2010 segir formaður krata af sér vegna slælegrar niðurstöðu í kosningum og hættir sem þingmaður.
2010 – atvinnnumálaráðherra segir af sér eftir að hafa orðið uppvís að hafa greitt fyrir þjónustu gleðikonu.
2007 – varnarmálaráðhera segir af sér vegna óánægju hans með útgjöld til málaflokk hans.
2006 – viðskiptaráðherra segir af sér eftir að hafa uppvís að því að greiða „svart“ fyrir heimilisþjónustu.
2006 - menningarmálráðherra segir af sér eftir að upplýst var að hún hafi ekki greitt sjónvarpsgjald til margra ára fyrir ríkissjónvarpið.
2006 – utanríkisráðhera segir af sér (sú sama og sagði af sér árið 2000) eftir að hún hafði orðið uppvís að því að óska eftir því að heimasíða Sverigedemókrata yrði lokað.
2006 – utanríkisráðherra segir af sér eftir að hafa tekið illa á málum eftir tsunami slysið í Taílandi.
2000 – dómsmálaráðherra segir af sér vegna viðskipta með bústaðsréttaríbúð sína.
1995 – aðstoðar forsætisráðherra hættir eftir að hafa notað opinbert greiðslukort vegna persónulegra nota m.a. súkkulaði og bleiur. Upphæðin var 50.00 SEK en að auki hafði hún ekki greitt 19 sektir vegna umfeðrarlagabrota.
1987 – innanríkisráðherra segir af sér vegna flótta njósnara úr fangelsi.
1983 – dómsmálaráðherra segir af sér eftir að hafa verið uppvís að hafa reynt að koma undan því að freiða skatt af hluta tekna sinna.
Af þessum lista má ráða að stjórnmálamenn í Svíþjóð segja af sér vegna mjög mismunandi „alvarlegra“ ástæðna. Að nota greiðslukort til kaupa á súkkulaði hljómar við fyrstu heyrn ekkert mjög alvarlegt – en er að sjálfögðu brot á notkun á almannafé,
Að segja af sér fyrir að greiða ekki skylduáskrift fyrir ríkissjónvarpið hljómar heldur ekki sem alvarlegt brot. En Svíar líta á það sem alvarlegt brot því um er að ræða skatt og allir eiga að borga sína skatta þó að viðkomandi hafi þá pólitísku sýn (eins og hér á við) að ekki eigi að borga fyrir ríkisrekið útvarp og sjónvarp.
Er það hlutverk kjósenda að ákvarða örlögin?
Því er oft haldið fram að ef þingmaður hefur gerst brotlegur á einhvern hátt þá sé það hlutverk kjósenda að ákveða hvort hann eigi að hætta m.a með þátttöku í prófkjöri viðkomandi flokks eða í kosningum. Slík skoðun stenst ekki skoðun.
Siðferðislegi kompásinn
Að taka ábyrgð á gjörðum sínum byggir á að maður hafi frjálsan vilja. Einstaklingur með frjálsan vilja sem hagar sér á tiltekin hátt er því ábyrgur gjörða sinna svo fremur sem hann hafi val á annari háttsemi.
Allir hafa sinn siðferðilega kompás. Hann er öllum nauðsynlegur til leiðsagnar í lífinu. Ekki er hægt að skáka í því skjólinu að ekkert hafi bannað tiltekið brot því innri siðferðiskompásinn er sá sem stjórnar gerðum manns. Hann er viðmiðið. Síðan geta einstaklingar haft brenglaðan kompás!
Hvað óttast þingmenn?
Það virðist sem þingmenn óttist allra mest að eiga ekki afturkvæmt í stjórnmál. Það hefur ekki reynt á það hér á landi þar sem slík dæmi þekkjast ekki. Viðmiðið er að halda sem fastast í stólinn og vona að ekki verði það mikil pressa t.d. eftir að þingmaður skandaliseri þó svo stormurinn standi í nokkra daga og hann bíði eftir því að komast fyrir vind.
Hugsanlega gæti líka verið að þeir hugsi til þess að þeir verði af tekjum og treysti sér ekki til að segja af sér. Að staðan sé óvinnandi og þeir hreinlega verði atvinnulausir í lengri tíma. Það reynist mörgum þingmönnum erfitt að finna sér störf eftir að hafa setið á þingi.
Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu daga hvernig þeir þingmenn sem töluðu illa um samstarfsfólk sitt og aðra axli ábyrgð sína.