Á kjördegi Alþingiskosninga 29. október 2016 ákvað Kjararáð að hækka mánaðarlegt þingfararkaup alþingismanna úr rúmum 760.000 krónum í réttar 1.100.000 krónur. Þetta var hvorki meira né minna 45 prósenta launahækkun (!). Nú standa fyrir dyrum almennir kjarasamningar og margir verkalýðsleiðtogar hafa lýst því yfir að kröfur félaganna muni taka mið af þessum launahækkunum.
Úrskurðir Kjararáðs, þar áður Kjaradóms, hafa áður vakið hörð viðbrögð í samfélaginu. Í maímánuði árið 1992 kvað Kjaradómur upp úrskurð um mikla hækkun til handa alþingismönnum, ráðherrum, forseta Íslands, dómurum og öðrum embættismönnum. Minnst var hækkunin til forseta (27%) og ráðherra (28%) en mest til forseta Alþingis (97%). Þingfararkaup – laun þingmanna – hækkaði um 37%.
Úrskurður Kjaradóms þótti ógna stöðugleika á vinnumarkaði, því nokkru áður hafði verið samið um 1,7 prósenta hækkun launa í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Úrskurðurinn olli uppnámi í landinu öllu. Alþingi var komið í sumarleyfi og gat því ekki brugðist við með lagasetningu. Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur sátu í ríkisstjórn undir forystu Davíðs Oddssonar,. Ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum til Kjararáðs að endurskoða úrskurðinn, en ráðið taldi sig bundið af lögum. Ríkisstjórnin gaf þá út bráðabirgðalög með samþykki forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur. Þar var úrskurður Kjararáðs felldur úr gildi og lagt fyrir að úrskurða í samræmi við hækkanir almennt á vinnumarkaði – sem og ráðið gerði í júlí 1992. Allir kjarahópar landsins fengu því 1,7 prósenta launahækkun.
Morgunblaðið fagnaði niðurstöðunni: „Úrskurður Kjaradóms nú er staðfesting á því, að þetta mál er leyst að því leyti, að ekki er lengur hætta á pólitísku uppnámi í landinu.“ (14. júlí 1992). Ríkisstjórnin sýndi semsagt mikla ábyrgð og kom í veg fyrir átök á vinnumarkaði.
Alþingi ógildir úrskurð Kjaradóms
Í endurskoðun almennra kjarasamninga haustið 2005 varð samkomulag um 2,5 prósenta launahækkun. Kjaradómur úrskurðaði hins vegar í desember sama ár 6,5 prósenta hækkun til þeirra sem undir dóminn heyrðu – þar á meðal til þingmanna og ráðherra. Við völd var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Umframhækkun Kjaradómslauna þótti ógnvænleg og brýnt að grípa til lagasetningar. Í ársbyrjun 2006 felldi Alþingi úr gildi úrskurð Kjaradóms og lögfesti 2,5 prósenta hækkun og að úrskurðir Kjaradóms ættu til ársloka 2006 að „taka mið af samningsbundnum hækkunum á almennum vinnumarkaði.“
Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, vitnaði í framsöguræðu sinni á þingi til athugasemda frumvarpsins:
„Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins, og þeirra ófyrirsjánlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleika í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms …“
Ríkisstjórn og Alþingi öxluðu ábyrgð og tryggðu áfram frið á vinnumarkaði.
Forseti Íslands afsalar sér kauphækkun – og hvetur Alþingi til hins sama
Á kjördegi Alþingiskosninga 29. október 2016 ákvað Kjararáð að hækka mánaðarlegt þingfararkaup alþingismanna úr rúmum 760.000 krónum í réttar 1.100.000 krónur. Þetta var hvorki meira né minna 45 prósenta launahækkun, eins og fram kom hér í byrjun. Laun ráðherra og forseta Íslands hækkuðu einnig umtalsvert. Laun þeirra hópa sem heyra undir Kjararáð hafa í heild hækkað mjög frá og með árinu 2011. Þannig eru laun forsætisráðherra ásamt þingfararkaupi til dæmis 111 prósent hærri nú en þá.
Viðbrögð samtaka á vinnumarkaði og alls almennings voru öll á sama veg: Hækkanirnar voru taldar út úr öllu korti og talið var að þær myndu beinlínis valda hörðum stéttaátökum. Samtök launafólks myndu krefjast álíka hækkana ef úrskurður Kjararáðs yrði ekki dreginn til baka líkt og gert var 1992 og 2006.
Almenningi var ofboðið, sem og forseta Íslands sem kallaði til blaðamannafundar á Bessastöðum. Þar sagði hann meðal annars: „Ég bað ekki um þessa kauphækkun. Ég vissi ekki af þessari kauphækkun. Margir þingmenn hafa lýst andúð á þessari ákvörðun Kjararáðs. Ég vænti þess að þingið vindi ofan af þessari ákvörðun.“ Forsetinn kvaðst ekki vilja skipa þinginu fyrir verkum enda væri slíkt ekki í hans verkahring. Hugur hans í málinu væri hins vegar ljós og sjálfur myndi hann sjá til þess að að hækkunin færi ekki í sinn vasa heldur rynni til góðgerðarmála.
Viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnar voru með allt öðrum hætti en árin 1992 og 2006. Ákall forseta Íslands og þjóðarinnar var einfaldlega hunsað. Viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnar voru með allt öðrum hætti en árin 1992 og 2006. Vegna bráðabirgðalaga 1992 fengu ráðamenn einungis sömu hækkun og aðrir hópar (1.7%) í stað tugprósenta launahækkun sem Kjaradómur úthlutaði. Ekki var þar nú til umræðu að afturkalla hækkanirnar með lögum og voru þær þó margfaldar á við við árið 2005 þegar ógild var 4 prósentustiga hækkun umfram almennar launahækkanir.
Þegar til kastanna kom reyndist svo vera samstaða meðal allra stjórnmálaflokka, nema Pírata, að láta ákvarðanir Kjararáðs standa óbreyttar.
Eftir standa Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn rúin trausti vegna sérhygli og sjálftöku. Í stað þess að stuðla að sátt er efnt til ófriðar. Fyrri ráðamenn Íslands voru vissulega ekki gallalausir en þeir sáu þó sóma sinn í að halda sig innan sama kjararamma og almenningi var ætlað að búa við. Núverandi ráðamenn virðast hins vegar stjórnast mest af eigin hagsmunum; þeir ætla að skammta fólkinu í landinu 4 prósenta kauphækkun í komandi kjarasamningum en halda sjálfir eftir sínum mikla hlut.
Ekkert sýnist geta staðið í vegi fyrir græðgisvæðingu núverandi íslenskra þingmanna – ekki einu sinni hinn réttsýni forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Heimild:
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Jón Reynir Traustason. 2016. “Guðni gefur launahækkunina sína og vill að Alþingi breyti ákvörðun kjararáðs”. Stundin – www.stundin.is – 2. nóvember.