Ofbeldi gagnvart konum – ef þingmenn sitja áfram

Auður Jónsdóttir rithöfundur fjallar um frústreraða karlmenn og hvernig þeir smætta konur með orðum sínum og gjörðum. Hún veltir því fyrir sér hvort hægt sé að bjóða þeim konum upp á að vera í daglegri umgengni við þá.

Auglýsing

Ég veit ekki hvernig mér liði ef ég þyrfti að mæta í vinnu í dag þar sem fyrir væru nokkrir karlmenn sem hefðu sagt – eða hlegið með viðmælanda að því – að það væri hægt að ríða mér. Og það sett í ofbeldisfullt samhengi með að leyfa því að fljóta með að það þyrfti að hjóla í mig, helvítis tíkina.

En í dag þarf Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að gera einmitt það. Og hún er ekki ein um það. Á þennan sama vinnustað þurfa fleiri konur að mæta sem hafa þurft að þola hatursþrungnar háðsglósur karlmanna (og einnar konu) á sama stað; ein til dæmis kölluð „húrrandi klikkuð kunta“ og önnur ekki „eins hot og áður“, að ógleymdri þingkonunni sem þessir menn lugu upp á að hefði sýnt af sér árásargjarna kynhegðun. Þá er aðeins fátt eitt nefnt af subbutalinu sem hópurinn lét út úr sér – sem flestir hafa nú lesið um í fjölmiðlum.

Kynveran notuð til að smætta stjórnmálakonuna

Fyrir nokkru síðan sat ég með nokkrum karlmönnum að rabba um daginn og veginn þegar talið barst að stjórnmálakonu nokkurri sem er áræðin í málflutningi sínum og því ögrandi í augum manna sem eiga erfitt með að svara málflutningi hennar. Þeir höfðu á orði, í góðlátlegum gríntóni, að það þyrfti nú lítið til að sofa hjá henni, bara aðeins að leika við eyrnasneplana á henni – og höfðu það eftir vini sínum. Ég vissi ekki hvernig ég átti að taka þessum orðum; ég varð eiginlega kjaftstopp. 

Auglýsing

En strax morguninn eftir geystist ég nývöknuð til systur minnar, hlammaði mér við eldhúsborðið hjá henni og sagði henni ringluð frá þessari upplifun minni af því hvernig mér hefði fundist mennirnir nota kynveruna í konunni – eða uppdiktaðar hugmyndir sínar um hana – til að gera lítið úr stjórnmálakonunni og því sem hún stendur fyrir í stjórnmálum.

Við hverju býstu? hváði hún. Þetta eru aðferðirnar sem svona karlar nota, að smætta konur niður með mælistöng feðraveldisins. Passa þú þig bara!

Hvað áttu við? spurði ég hnípin með kaffibollann.

Þú ert einhleyp kona sem ögrar stundum á opinberum vettvangi – ef svona karlar vilja ráðast á þig, þá nota þeir aðferðir eins og þessa.

Að hlutgera aðrar manneskjur

Þessi orð komu upp í hugann eftir að hafa legið yfir fréttum af málflutningi margumræddra þingmanna, þar af eins fyrrverandi utanríkisráðherra og annars sem var forsætisráðherra þjóðarinnar, um nokkrar þingkonur; konur sem, af hatursorðum þeirra að dæma, ögra stöðu þeirra. Konur sem þeir eru sennilega að einhverju leyti smeykir við dags daglega eða þá óttast að þær ógni grundvelli sínum svo þeir fá útrás fyrir frústrasjón með því að tala um þær, hvorn við annan, á þennan hátt.

Já, ég hallast að því að þeir, svona litlir karlar, hafi verið að fá útrás fyrir getuleysi sitt til að eiga í málefnalegum samræðum við þessar konur sem þeir töluðu svona um. Og sama má segja um þingkonuna sem sat með þeim.

Það þarf nefnilega ansi frústreraða karlmenn til að smætta sömu konuna með því annars vegar að tala um að hún leiki sér að karlmönnum og hins vegar að það sé hægt að ríða henni. Og það þarf illa upplýst fólk til að hæðast, útbelgt af mannfyrirlitningu, að fólki út frá kynhneigð, fötlun og kyni. Þessi stund, sem þessir þingmenn virðast vilja meina að hafi bara verið röfl nokkurra vina sem voru búnir að fá sér einum of mikið í tána, stinkaði af hatursorðræðu. Hvað annað er hægt að segja um langt kerfisbundið niðrandi kynferðistal um samstarfskonur þeirra – fyrir utan allt annað? Og þeir sem sýna af sér aðra eins mannfyrirlitningu, eins og þeir gerðu með tali sínu, hlutgera aðrar manneskjur. Í augum þeirra eru það við (þeir) og hinir – við og hinir óæðri.

En þegar fólk hugsar og talar á þann hátt, þá er það tæpast lengur í snertingu við mennskuna í sér, frekar við dýrið í sér. Samlíðan, skilningur og virðing – allt þetta hefur verið sneytt í burtu. Og getur fólk sem er sneytt þessu en þess í stað blindað af mannfyrirlitningu tekið ákvarðanir sem eiga að heita í umboði almennings?

Ofbeldið í orðunum

Nei, segi ég, og sama sögðu ófáir sem ég lagði þessa spurningu fyrir á facebook í gær. Því þó að mennirnir vilji halda því fram að þeir hafi ekki gert neitt af sér annað en að verða sér til skammar, þá er staðreyndin sú að tal þetta ber vott um huga mengaða af kvenfyrirlitningu, mannhatri, gunguskap, karlrembu, fordómum og úreltum viðhorfum. Kjörnir fulltrúar, þingmenn á Alþingi, geta ekki leyft sér að daðra við hatursorðræðu, sama hversu marga bjóra þeir hafa innbyrt. Og það bjó ofbeldi í orðum þeirra – og því er ekki hægt að horfa framhjá. Téðir þingmenn virðast ekki eygja ábyrgðina sem felst í því að vera þingmaður, þeir eiga að setja gott fordæmi fyrir vinnustaðamenningu landans, en þar sem þeir virðast ekki búa yfir nægilegri dómgreind til þess að skilja eðli orða sinna, þá eiga þeir yfir höfuð ekkert erindi inn á þing. Hvernig er hægt að treysta fólki við þingstörf ef það er ekki með dómgreind til að sjá annað eins?

Það er víst varla gerlegt að reka þingmann. En það þýðir ekki að það sé hægt að bjóða þingkonum, sem hafa setið undir ofbeldisþrunginni orðræðu annarra þingmanna, að þurfa yfir höfuð að starfa daglega í sama rými og þeir. Það er ofbeldi gagnvart þessum konum.

Nú er búið að útmála ógeðisorðin gagnvart þeim í öllum fjölmiðlum og ég get ekki ímyndað mér hvernig þeim líður eftir annað eins, jafnvel þótt þær beri sig borginmannlega. Þó að flestir með smá sans í kollinum viti hversu ómakleg þessi orð eru, þá voru þau svo niðrandi og niðurlægjandi að upplifunin af þeim getur orðið erfið og lúmsk; flókin, þaulsætin og í versta falli niðurbrot.

Þá tekst þeim að hjóla í hana ...

Ef þessir menn sitja áfram á Alþingi, þá felst í því einhvers konar ofbeldi gagnvart konunum. Sama þótt þær veigri sér við eða telji ekki ráðlegt að segja það og svosem skiljanlegt því að sitja undir orðum sem þessum getur fylgt djúpstæð skömm – og fátt eyðir tilfinningu manneskju fyrir tilverurétti sínum eins mikið og skömmin. Skömmin nagar fótfestuna undan fólki. Í tilviki sem þessu getur hún nagað sjálfsmynd stjórnmálakvenna sem þurfa á allri sinni áræðni að halda. Og þá er markmiði þessara karla náð. Ef svo mikið sem ein af þessum konum upplifir vanlíðan eða efasemdir um sjálfa sig í kringum þá hafa orð þeirra náð að gera einmitt það sem þeir virðast hafa viljað í ölæðinu: ... að hjóla í hana!

Þessir karlar – og konan – þurfa að sjá sóma sinn í að segja af sér og fara með skömmina þangað sem hún á heima. Hjá þeim.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit