Merkir stærðfræðingar og aðrir sjálfskipaðir sérfræðingar um launamun segja þetta vera allt saman hysterískan uppspuna og það sé nú ekki verið að stjórna eftir réttu breytunum í rannsóknum – karlar vinna einfaldlega bara meira og lengur en konur. Það er ekki þeim að kenna að konur séu svona latar eða þurfi að sækja barnið á leikskóla, kaupa í matinn og sjá um heimilið.
En fyrir fólk sem er tilbúið í að horfast í augu við staðreyndir og hefur verið að fylgjast með umræðunni í samfélaginu undanfarna daga, þá er augljóst að fordómar, kvenfyrirlitning og spilling hefur gegnumsýrt íslenskt samfélag. Konur eru í miklum minnihluta þeirra sem gegna ábyrgðar og áhrifa stöðum í íslensku samfélagi og er það fyrst núna á undanförnum árum þar sem konur hafa fyrst í sögu Íslands brotið ákveðin glerþök og komist í stöður þar sem þær geta látið til sín taka. Slíkt er samt langt frá því að vera nóg, enda geta ekki einu sinni kosnir þingmenn Alþingis, elstu og æðstu stofnun landsins, borið lágmarksvirðingu fyrir samstarfskonum sínum og láta út úr sér subbuleg og ógeðfelld ummæli.
Hegðun „háttvirtra“ þingmanna létu út úr sér á almannafæri minna meira á unglinga á kojufylleríi frekar en kosna fulltrúa lýðveldisins. Afsakanir sem bárust virtust flestar innistæðulausar og lítið annað en lélegt yfirklór. Sjálf hef ég oft verið full, en aldrei hef ég kallað samstarfsfólk mitt kuntur á almannafæri, hvað þá talað um að ríða þeim eða byrjað að ræða hvað fegurð þeirra hafi nú fölnað undanfarið ár.
Gunnar Bragi stóð sérstaklega í því að reyna að fjarlægja sig aðstæðum og talaði oft eins og þetta væri nú bara leiðindamál sem hefði komið upp þrátt fyrir að hann væri bókstaflega gerandi í þessu máli, á meðal Sigmundur Davíð beindi sjónum sínum að meintum samsæriskenningum um hlerunarbúnað. En þetta er allt í lagi því vegna þess að hann Gunnar Bragi á vini sem eru hommar og meira að segja eina vinkonu sem „skipti um kyn“. Þá er hann nú augljóslega ekkert fordómafullur.
Eina manneskjan sem íhugaði sína stöðu var vitaskuld eina konan á svæðinu og meira að segja sagði ein kona sig úr sinni stöðu hjá Seðlabankanum vegna þessa máls. Eiga konur bara endalaust að taka ábyrgð á misgjörðum karla?
En auðvitað er það bara einskær tilviljun að talað var um þingkonur á þennan hátt og á ekkert með kyn þeirra að gera. Sjáum við ekki öll fyrir okkur Oddnýju, Unni Brá, Silju Dögg, Lilju, Áslaugu Örnu, Ingu Snæland og Freyju Haralds í anda að setja út á útlit karlkyns þingmanna, tala um að ríða þeim, herma eftir selum, segjandi að þeir séu svo miklar kuntur og tíkur sem leiða þær á asnaeyrunum og neita að hlýða þeim?
Þetta hefði svo auðveldlega getað verið öfugt.