Ég viðurkenni að fyrstu viðbrögð við lestur fréttarinnar um stóra klausturmálið á miðvikudagskvöldið voru þessi: Hversu oft þurfum við að kyngja svona rugli? Hvenær mun þetta fólk virða hlutverk sitt, sem snýst um að þjóna samfélaginu en ekki bara sjálfu sér? Auðvitað vakti þetta bara hneykslun og ógeðs viðbrögð hjá mér.
Hér gefst tækifæri fyrir mig til að viðurkenna að ég skildi aldrei af hverju ég mætti svo mikilli andstöðu og virðingarleysi sem þingkona. Ég túlkaði það að mestu leyti þannig að þetta væri annað hvort vegna uppruna míns eða íslenskukunnáttu eða ákvörðunar okkar í Bjartri framtíð um að mynda ríkisstjórn sem var dauðadæmd frá upphafi. Sannleikurinn er hins vegar annar og liggur hér meðal annars í stóra Klaustursamtalinu.
Á alþingi er margt heiðarlegt fólk sem vill þjóna samfélaginu. Við eigum að mæta því og hugsjón þess oftar með virðingu og gefa því meira pláss í umræðunni. Við eigum síður að verðlauna þá þingmenn með endurkjöri og langri þingsetu, sem til dæmis láta almannafé greiða fyrir akstur sinn þrisvar sinnum í kringum landið, brjóta lög, bregðast trausti og fela peninga í skattaskjólum.
Því meira sem ég heyri og les um klausturmálið, finn ég fyrir meiri og dýpri þörf að hugsa vel um hvað þetta samtal segir okkur. Hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið sem heild? Ég tel að hér sé tækifæri til breytinga. Tækifæri til að ræða hvað við viljum sem samfélag, hver okkar samfélagslegu gildi eru og hvers konar fólk við viljum fá í þjónandi hlutverk sem kjörnir fulltrúar í stjórnmálum.
Hér voru karlar og kona að stunda pólitík, þar sem val á orðalagi sýnir hroka og skort á siðferðislegri dómgreind. Pólitík sem oft er stunduð í reykfylltum bakherbergjum. Hér er alls ekki bara um að ræða samtal sem fór úr böndum vegna neyslu áfengis. Hér voru flokksbræður og ein systir þeirra að hnykkja pólitíska vöðva í þeim tilgangi að styrkja flokk sinn á Alþingi, í bland við lágkúrulegt slúður og kjaftæði.
Ég er ekki að afsaka eða hrútskýra þetta sem „bara pólitík“. Ég er að segja að það var einhver tilgangur með þessu viðbjóðslega þriggja tíma samtali. Tilgangur og hegðun, sem okkur venjulegt fólk hefur alltaf grunað að væri til staðar og er nú staðfest. Það var fært úr reykfylltu bakherbergi og beint til okkar sem heima sitjum.
Ræðum aðeins um siðferði. Siðferði er gildi en ekki huglægt fyrirbæri, sem hægt er að afsaka vegna hversu mikið áfengi við drekkum. Siðferði er hægt að lýsa sem góðri eða slæmri hegðun, heiðarlegri framkomu og hæfni til að skilja muninn á réttu og röngu. Svo er mikilvægt að muna að til eru bæði skráðar og óskráðar siðferðisreglur sem oftast tengjast samskiptum okkar við annað fólk og það samfélag sem við erum hluti af.
Á Íslandi er að finna siðareglur fyrir hvaða stétt sem hægt er að hugsa sér, allt frá Alþingi yfir í ræstingarstörf. Ég leyfi mér að fullyrða að ef ræstitæknir bryti Siðareglur ÍSS Ísland, svo dæmi sé tekið, þá væri viðkomandi líklegast rekinn. Hvað með alþingismenn? Hér þurfum við að staldra við og viðurkenna að við höfum aftur og aftur þurft að horfa upp á siðferðisbresti, þar sem ríkisstjórnir hafa sprungið oftar en einu sinni. Ráðherrar og þingmenn og -konur sitja samt fast áfram og ná meira að segja oftast að endurnýja umboð sitt.
Hvaða tilgangi þjóna siðareglur ef þær eru ekki virtar? Hvað ef við mundum laga siðareglur alþingis meira að samfélaginu en alþingi sjálfu? Tengja siðareglur alþingis við þær siðareglur sem almennir borgarar fara eftir í öðrum þjónandi störfum. Munið að þingmenn og konur eiga að þjóna samfélaginu en ekki sjálfum sér eða flokk sínum. Ég held til dæmis að tilgangurinn með siðareglum félagsráðgjafa eigi alveg heima á Alþingi og hjá alþingismönnum. „Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu. Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. Félagsráðgjafi vinnur gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað“.
Ég held að við getum öll verið sammála um að það samtal sem við urðum nú vitni að, bar engin merki um siðferðislega hegðun eða hugsun. Það er mjög mikilvægt að við höfum óvart fengið að hlusta á þetta samtal, eins óþægilegt og það er. Hvað ef við hefðum ekki fengið að heyra það? Hefði þetta fólk beðið nokkurn mann eða konu afsökunar? Hvað hefðum við sagt ef Ólafur og Karl Gauti væru allt í einu komnir yfir í Miðflokkinn án þess að við vissum hvað lægi á bak við þetta? Eða ef Gunnar Bragi væri sjálfur kominn til Finnlands sem sendiherra Íslands?
Hneykslun okkar er í rauninni bara endurvakning á þeim tilfinningum sem tengjast hruninu, Panamaskjölunum, Wintris, MeToo, Landsrétti og uppreist æru. Enginn, sem þar sat er saklaus á neinn hátt, þeim sem gerir eða segir ekkert er jafn sekur og sá sem aðhefst eitthvað. Sama gildir um okkur, viðurkennum að við höfum rétt á að vera hneyksluð. VIÐ getum notað þetta tækifæri og sett mörk og skilyrði um hvers konar samfélag við viljum. Látum menn og konur, sem ákveða að haga sér svona, og jafnvel þau sem kjósa að gera ekki neitt, greiða fyrir það. Ísland er lýðræðisríki og við höfum fullan rétt á að skilgreina hvernig landi við viljum búa í og hvaða siðareglur við viljum að okkar kjörnu fulltrúar fylgi eftir. Ekki fleiri Wintris- eða Klausturmál á okkar vakt, virðum okkar vilja og virðum okkur sjálf.
Svo getum við velt því fyrir okkur hvort staðan væri önnur ef alþingi hefði virt vilja 67% kjósenda undir lok 141. löggjafarþings vorið 2013 og samþykkt frumvarp að nýrri stjórnarskrá til laga, og fært þannig aukin völd til okkar. Gæti verið að þá ríkti meira traust og virðing milli almennings og alþingis? Bara pæling…