Árið er 2018. Tíu ár eru síðan efnahagskerfið hrundi og kröfur um ný stjórnmál, nýja stjórnarskrá og nýtt Ísland eru háværar. Tvö ár eru frá því forsætisráðherra hrökklaðist undan völdum eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur við að koma sér undan því að greiða skatta. Eitt ár er síðan önnur ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum eftir að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins reyndu að leyna því fyrir samstarfsflokkum sínum að pabbi formannsins kvittaði undir að barnaperri fengi uppreist æru og gæti starfað sem lögmaður. Við Íslendingar fögnum 100 ára afmæli fullveldis.
Það ber í bakkafullan lækinn þegar ég fordæmi hegðun klaustursexmenninganna en lækurinn verður þó senn tómur og fyrr en varir hefur aurmælgi sexmenninganna fallið í gleymskunnar dá, ekki síst þegar við hristum hausinn á ný yfir einhverju óskyldu hneykslismáli. Við töldum botninum náð eftir hrunið. Síðan töldum við honum náð eftir birtingu Panamaskjalanna. Enn og aftur töldum við botninum náð þegar ráðherrar reyndu að hylma yfir þátt skyldra í uppreist-æru málinu og nú teljum við botninum náð þegar umræddir sexmenningar opinbera sig á bar þar sem stjórn Miðflokksins eins og hún leggur sig reyndi að tæla hálfan þingflokk Fólksins yfir til sín og lét fúkyrði falla um ýmsa kollega sína. Valdapólitík af gamla skólanum með stæka man(n)fyrirlitningu. Er botninum þá loksins núna náð?
Það veltur allt á viðbrögðunum í framhaldinu. Þessi ummæli kom fólki í opna skjöldu en fæstum ætti þau að koma á óvart. Svona orðræða kemur bara ekki upp úr þurru, ekki einu sinni á svona fylleríi. Þessi orðræða er ógeðsfelld birtingarmynd íslenskrar stjórnmálamenningar. Hinnar sömu og við höfum nú í tíu ár reynt að uppræta en viðgengst enn á meðan óskrifaðar reglur íslenskra stjórnmála hafa ekki breyst. Einhvers staðar hafa þessir menn fyrirmyndir sínar og einhvern tímann virkaði svona valdataktík. Eini munurinn er að í dag eru menn gripnir og almenningur umber ekki svona tal.
Klaustursexmenningarnir hafa sagst ætla að læra af atviki þessu. Hins vegar gagnast lítið að læra fyrir prófið þegar þú er þegar fallinn. Við munum eftir #metoo byltingunni. Hún var einungis fyrir ári síðan. Við sem fylgdumst með drógum þann lærdóm að konur hafa kerfisbundið þurft að þola áreiti og niðrandi tal kyns síns vegna. Reynsla sem er okkur karlmönnum framandi á margan hátt. Þetta fólk heldur hins vegar áfram svona tali í þeirri trú að það komist upp með það. Lærdómurinn átti hins vegar að vera sá að svona talar fólk ekki um náungann og svona hugsar fólk ekki um náungann. Sexmenningar féllu allir á prófinu og nú verða þeir einfaldlega að segja af sér þingmennsku, allir sem einn.
En það er þó ekki bara prófið sem við þurfum að huga að, námskráin er meingölluð. Því miður búum við enn við stjórnmálakerfi sem býður upp á svona leiki. Kerfi þar sem flokkurinn er lykillinn að völdum, leiðin liggur í gegnum einhvers konar refskák í kjölfar alþingiskosninga og Sjálfstæðisflokkurinn endar iðulega í ríkisstjórn. Kerfi sem bíður upp á að etja stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum saman um annað en málefni og kerfi þar sem ráðherrar komast upp með valdníðslu því stjórnarþingmenn bíta einfaldlega á jaxlinn til að missa ekki sín litlu áhrif með ríkisstjórnaraðildinni. Pýramídakerfi þar sem almenningur fær völd einu sinni á fjögurra ára fresti og á milli þess hugsa margir stjórnmálamenn: “Ég má gera hvað sem ég vil því ég hef umboð og þið getið ekkert sagt því þið kusuð mig.” Þeir sem standa sig eru svo leystir út með sendiherrastöðu.
Það er ekki nóg að fárast yfir svona viðburði því á meðan stjórnmálakerfið og stjórnmálamenningin er hin sama mun hann endurtaka sig. Við getum fagnað 100 ára fullveldi en brýnna er hins vegar að kunna að fara með full völd. Núverandi kerfi býður upp á samþjöppun valds. Stjórnarskráin nýja bauð upp á valdatilfærslu til almennings og #metoo var leiðrétting á margra alda kynbundinni valdaskekkju.
Hvaða leið viljum við fara og hvernig ætlum við að haga okkur á annarri öld fullveldisins?