Í Silfrinu á dögunum var Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í líflegu viðtali um Evrópusambandið. Í viðtalinu fór ráðherrann fyrrverandi ítrekað með rangt mál um ESB og EES-samstarfið. Fjallað hefur verið um rangfærslur Jóns Baldvins um EES-samninginn á öðrum vettvangi en hér ætla ég að leiðrétta röng og villandi ummæli hans um skattastefnu ESB. Í viðtalinu fullyrti Jón Baldvin m.a. að “skattsvikaparadísir” nytu verndar ESB og að fjármagnseigendur réðu lögum og lofum í sambandinu. Kallaði hann Jean-Claude Juncker, formann framkvæmdastjórnar ESB, “verndarengil og guðföður skattsvikarakerfisins í heiminum” og sagði hann “halda verndarhendi yfir því”.
Fullyrðingar ráðherrans fyrrverandi, um að ESB og framkvæmdastjórn þess haldi verndarhendi yfir skattaskjólum, standast enga skoðun. Dæmin sýna þvert á móti að ESB vinnur hörðum höndum að því að ráðast gegn skattaundanskotum bæði innan og utan sambandsins og tryggja að stórfyrirtæki borgi sinn skerf í sameiginlega sjóði Evrópubúa. Í þeirri vinnu er framkvæmdastjórnin enginn verndarengill skattsvikara, heldur er hún beinlínis í fararbroddi. Máli mínu til stuðnings ætla ég að nefna nokkur dæmi:
- Árið 2016 flutti bandaríski tæknirisinn Google 19 milljarða dollara af evrópskum hagnaði sínum í skattaskjól utan ESB. Google millifærði peningana frá írsku dótturfyrirtæki sínu til hollensks fyrirtækis og áfram til skúffufyrirtækis í Bermúda sem í eigu annars dótturfélags á Írlandi. Í fyrra samþykkti framkvæmdastjórn ESB nýjar reglur sem takmarka möguleika stórfyrirtækja á slíkum skattaundanskotum. Þökk sé hinum nýju reglum verða þessir gjörningar bannaðir frá árinu 2020.
- Nýlega kynnti framkvæmdastjórnin reglugerð sem snýr að aðilum sem bjóða upp á leiðir til að flytja fjármagn á milli landa í skattalegum tilgangi. Reglugerðin setur þær skyldur á þessa aðila, hvort sem þeir eru bankastarfsmenn, endurskoðendur eða lögfræðingar, að þeir tilkynni allar slíkar ráðstafanir til yfirvalda. Tilgangurinn, að sögn framkvæmdastjórnarinnar, er að fæla þessa aðila frá því að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við skattaundanskot.
- Það vakti mikla athygli fyrr á þessu ári þegar framkvæmdastjórnin tók sjö ríki sambandsins fyrir og gagnrýndi þau sérstaklega fyrir að stuðla að skattaundanskotum. Ríkin sjö eru Belgía, Kýpur, Ungverjaland, Írland, Lúxemborg, Malta og Holland. Þessi ríki bjóða fyrirtækjum einstaklega hagstæð skattaskilyrði og að mati framkvæmdastjórnarinnar bitnar það á skattgreiðendum í allri Evrópu.
- Stjórnvöld á Írlandi hafa legið undir ámæli fyrir að bjóða stórfyrirtækjum gríðarlega skattaafslætti. Framkvæmdastjórnin hefur m.a. brugðist við þessu með því að fyrirskipa tæknirisanum Apple að endurgreiða Írlandi 13 milljarða evra fyrir það sem framkvæmdastjórnin kallar ósanngjarnar skattaívilnanir. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar olli titringi meðal stjórnenda alþjóðlegra stórfyrirtækja, en bæði Apple og írsk stjórnvöld áfrýjuðu ákvörðuninni til evrópskra dómstóla.
- Árið 2015 gerði ESB samkomuleg við Sviss um afnám bankaleyndar þar í landi. Samkvæmt samkomulaginu geta aðilar með heimilisfesti innan ESB ekki falið skattskyldar tekjur í svissneskum bönkum. Síðan þá hafa sams konar samningar verið gerðir við Andorra, Lichtenstein og Mónakó.
- Framkvæmdastjórnin birti á síðasta ári svartan lista yfir skattaskjól. Ríkin á listanum áttu það sameiginlegt að hafa neitað að vinna með ESB í átt að því að gera umbætur á skattkerfum sínum til að koma í veg fyrir skattaundanskot. 17 ríki voru upprunalega á listanum en í dag, tæpu ári síðar, eru þau aðeins fimm. Frá því að listinn var birtur hafa því 12 ríki samþykkt að hefja samstarf við ESB um að vinna gegn skattaundanskotum.
- Framkvæmdastjórnin hefur unnið að innleiðingu á sam-evrópskum viðmiðum til útreiknings á skattstofni fyrirtækja sem starfa innan ESB. Reglugerðinni, sem ber enska heitið Common consolidated corporate tax base, er m.a. ætlað að tryggja að fyrirtæki greiði skatta í öllum ríkjum þar sem þau hafa starfsemi og að þau flytji ekki hagnað til ríkja þar sem fyrirtækjaskattar eru hagstæðari.
Þetta sem ég hef nefnt hér að ofan er aðeins hluti af þeim aðgerðum sem Evrópusambandið hefur ráðist í til að berjast gegn skattaundanskotum. Dæmin tala sínu máli. Þau sýna að framkvæmdastjórn ESB er enginn verndari skattaskjóla. Hún er þvert á móti í forystu í baráttu ESB fyrir því að allir einstaklingar og fyrirtæki borgi sína skatta til samfélagsins og að stærri hluti þeirra verðmæta sem skapast í hinu alþjóðavædda efnahagskerfi komi almenningi í Evrópu til góða.
Á tímum falsfrétta og vinsælda popúlista víða um heim er mikilvægt að staðreyndum og réttum upplýsingum sé haldið á lofti í opinberri umræðu. Jón Baldvin Hannibalsson var ráðherra utanríkismála í sjö ár. Hann leiddi Ísland inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Maður með slíka vikt í umræðu um utanríkismál Íslendinga ætti að vita betur en að fara fram með eins illa ígrundaðar og villandi fullyrðingar um Evrópusambandið og hann gerði í Silfrinu á dögunum.