Sæll Sigmundur.
Upptakan frá Klaustri Bar í nóvember hefur legið þungt á mér undanfarna daga, líkt og við á um stóran hluta þjóðarinnar. Hinn 3. desember síðastliðinn, heyrði ég þig svara blaðamönnum sem spurðu þig hvort þú íhugaðir afsögn. Þú sagðist ekki gera það og rökin sem þú gafst fyrir því voru þau að við störf þín sem þingmaður hefðir þú í gegnum árin orðið vitni að mörgum sambærilega rætnum umræðum á meðal þingmanna og jafnvel enn verri. Þú sagðir að ef samræmis ætti að gæta og þú þyrftir að víkja þá yrðu: „svo margir þingmenn sem þyrftu að fara í leyfi að ég held að þingið væri óstarfhæft.“
Um þennan rökstuðning langar mig að fjalla í þessu bréfi mínu og nota tækifærið og beina til þín þremur spurningum í lokin sem ég yrði afar þakklát ef þú myndir svara með skriflegum hætti.
Sé það rétt sem þú segir að Alþingi Íslendinga yrði „óstarfhæft“ ef orð þingmanna okkar yrðu gerð opinber má gefa sér að á þinginu hafi safnast einhvers konar „sori þjóðarinnar“. Nýjar skoðanakannanir gefa til kynna að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar, eða u.þ.b. 90%, vill að þið sem voruð þátttakendur í þessu samtali segið af ykkur þingmennsku. Ástæða þessarar óvanalegu afgerandi niðurstöðu er einföld: Samtalið samræmist ekki almennri siðferðisvitund fólksins í landinu. Mér þykir sú tölfræði, að nær allir á þingi tilheyri þeim 10-15% landsmanna sem telja að slíkt tal eigi ekki að valda afsögn – í sannleika sagt – afar ólíkleg og held að langflestir, sem slíkar fullyrðingar heyra, hafni þeim sem bæði röngum og ósönnuðum. Það hefur svo einnig komið fram með skýrum hætti af hálfu samstarfsfólks þíns á Alþingi sem hefur sagt opinberlega að þessi fullyrðing þín eigi ekki við rök að styðjast.
Ein af meginreglum réttarríkisins er sakleysi uns sekt er sönnuð. Í ljósi þess að þingmenn hafa svarið af sér slíkt orðfæri, verðum við að fá að trúa því Sigmundur að fólkið á þinginu (sem margt hvert hefur eflaust látið misgáfuleg og misfögur orð falla í gegnum tíðina eins og við flest) sé ekki almennt talandi klukkutímum saman með þeim óbærilega hætti sem þú og vinir þínir gerðu þetta kvöld. Sú staðreynd þýðir hins vegar að skýring þín á því hvers vegna þú vilt ekki víkja byggist á tilbúningi. Þá má velta fyrir sér hver tilgangurinn með þessum tilbúningi þínum sé. Mér sýnist í fljótu bragði tveir möguleikar vera þar á:
- Í fyrsta lagi er mögulegur tilgangur að drepa málinu á dreif. Beina athygli annað en að sjálfum þér, líkt og þú gerðir á fésbókarsíðu þinni þegar fyrstu fréttir bárust af upptökunni þar sem þú sagðist vona að farið yrði í „aðgerðir“ gegn fjölmiðlum vegna málsins. Þá afstöðu hefur þú reyndar ekki dregið til baka að mér vitanlega.
- Í öðru lagi sýnist mér að tilgangur þessa rökstuðnings gæti verið að hóta með óbeinum hætti samstarfsfólki þínu að þú munir upplýsa um eitthvað sem þú vilt meina að það hafi í gegnum tíðina sagt. Þessi möguleiki fær stoð í spurningu sem þú varpar fram í fyrrgreindu viðtali við fréttastofu Rúv þar sem þú segir orðrétt: „Er það núna orðin skylda mín að rekja það hvað tilteknir þingmenn hafa sagt um aðra þingmenn, sem sumt hvert, því miður, er jafnvel töluvert grófara en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum.“ Ef slíkar undirliggjandi hótanir eru tilgangur fullyrðinga þinna má velta fyrir sér hvort þú sért með þeim hætti að gera tilraun til að kúga tiltekna þingmenn til þagnar í því máli sem snýr að því hvort þér sjálfum sé stætt á áframhaldandi þingsetu.
Það sem mér finnst allra verst við ofangreindan rökstuðning þinn er hins vegar það sem ég vil nú koma að og felur í sér hyldjúpa hugsanavillu. Þú virðist telja (og ég hef heyrt þig nota svipuð rök áður) að ef einhver aðili í sambærilegri stöðu og þú sjálfur hefur áður hegðað sér með hætti sem er ámælisverður þá verði það til þess að þér sé sjálfum heimilt að gera slíkt hið sama. Ef þetta er raunveruleg ástæða þess að þú hefur ekki svo mikið sem íhugað að stíga til hliðar sem þingmaður, þá hef ég verulegar áhyggjur af því að þér sé yfir höfuð falið opinbert vald. Þetta segi ég í allri einlægni.
Þú hefur barist eins og ljón fyrir því að halda starfi þínu sem alþingismaður og þér hefur heppnast það vel. Þar með ert þú af gríðarlega einbeittum ásetningi að velja þér vinnustað sem þú segir að sé fljótandi í orðfæri á borð við það sem þið viðhöfðuð á barnum, á vinnutíma. Það er hins vegar þitt persónulega val og auðvitað mátt þú velja þér atvinnuaðstæður eftir smekk. En ekki gleyma því að í hvert sinn sem þú býður þig fram ert þú að sækjast eftir hluta af löggjafarvaldi íslensku þjóðarinnar. Þó hefur þú á sama tíma sýnt af þér hegðun sem gefur sterklega til kynna að þú berir ekki mikla virðingu fyrir lögunum sem frá Alþingi koma.
Hér nefni ég í fyrsta lagi sem dæmi þá staðreynd að þú hefur í gegnum tíðina gerst uppvís að því að mæta afar illa í vinnuna sem þingmaður þrátt fyrir að þingskaparlög kveði skýrt á um að það sé þín lögbundna skylda. Í öðru lagi skráðir þú lögheimili þitt í öðru kjördæmi en þú hafðir fast aðsetur í, sem er brot á lögheimilislögum. Þú gafst, í þriðja lagi, ekki upp þá hagsmuni sem fólust í helmingseign á Wintris aflandsfélaginu, sem þú hafðir með málamyndagerningi fært yfir á eiginkonu þína. Þú sagðir auk þess ósatt um tengsl þín við félagið í fjölmiðlaviðtali, kannski vegna þess að með eign ykkar hjóna í félaginu hafðir þú í raun setið báðum megin borðsins í samningaviðræðum sem vörðuðu þjóðina afar miklu. Þetta eru bara dæmi af handahófi sem mér duttu í hug í dag.
Auðvitað sækir ótti á venjulegan borgara, eins og mig, um það að fyrst þetta sé afstaða þín til þessara tilteknu laga þá sé afstaða þín svipuð til ýmissa annarra laga. Raunar benda orð þín til að svo sé því í hinni margnefndu upptöku frá Klaustur bar staðfestir þú að það sem Gunnar Bragi Sveinsson hafi sagt um sendiherraspillinguna sé satt. Þetta gefur tilefni til að ætla að þú hafir verið vitorðsmaður í fjórða lögbrotinu sem felst í misnotkun opinbers valds.
Öll mannleg kerfi byggjast á trausti. Þar er réttarríkið ekki undantekning. Án trausts þá hreinlega leysist samfélagið okkar upp. Sé það niðurstaðan að þingmaður geti framið lögbrot og sagt siðferðilega skelfilega hluti, en skákað svo í skjóli þess að aðrir hafi gert sambærilega eða verri hluti en hann sjálfur, þá rofnar augljóslega alfarið traustið sem hægt er að bera til löggjafarsamkundunnar sem hann tilheyrir. Þar með raknar upp grunnurinn að trausti gagnvart öllum þeim samfélagslegu kerfum sem eru grundvölluð á íslenskum lögum. Til að varpa ljósi á hversu alvarleg sú niðurstaða er má taka dæmi úr umferðinni. Við förum út í hana á hverjum degi hvort sem er keyrandi, hjólandi eða gangandi í þeirri blindu trú að við getum treyst hvort öðru. Ef mál þróast með þeim hætti að bara sumir stoppa á rauðu ljósi en aðrir ekki verður það fyrst til þess að saklausar manneskjur hljóta tjón af og að lokum til þess að kerfið hrynur. Allt stoppar.
Rökstuðningurinn sem þú notast við er því hættulegur og rangur sé hann skoðaður út frá siðferðislegum mælikvörðum en hann er einnig rangur í lögfræðilegum skilningi. Dómstólar hafa margoft kveðið á um það að hafa beri að engu varnir í dómsmálum sem byggjast á því að sýkna skuli aðila á grundvelli þess að fjölmargir aðrir aðilar hafi viðhaft sambærilega háttsemi og ákært er fyrir. Það þarf ekkert próf í rökfræði til að skilja að ef þessi rökstuðningur er haldbær væri aldrei hægt að ná framförum í samfélaginu, því í honum felst að til þess að ámælisverð hegðun hafi afleiðingar þurfi að refsa öllum þeim sem mögulega hafa gerst sekir um slíka hegðun. Þannig virkar réttarkerfið auðvitað ekki, heldur sæta þeir refsingu sem hægt er að sanna að hafi framkvæmt ámælisverða hluti. Líkt og við á um þig og vini þína á barnum.
Í ljósi þess að þú telur þennan rökstuðning vera nægilegan til að þú íhugir ekki einu sinni afsögn hef ég verulegar áhyggjur af meðferð þinni á löggjafarvaldi. Til þess að skilja betur hvort áhyggjur mínar séu réttmætar bið ég þig að svara þremur spurningum:
- Varstu að ljúga þegar þú tókst undir orð Gunnars Braga um að tiltekin skipun sendiherra myndi þýða að hann ætti inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum?
- Hvað meintir þú nákvæmlega þegar þú sagðir um Lilju Alfreðsdóttur: „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann“?
- Í símtali þínu til Freyju Haraldsdóttur, baráttukonu fyrir mannréttindum, útskýrðir þú að það sem þú meintir þegar þú sagðir að Gunnar Bragi hefði sérstakan áhuga á Freyju væri sú staðreynd að pólitískar skoðanir Freyju færu mjög í taugarnar á Gunnari. Hvaða skoðanir Freyju eru það sem þér er kunnugt um að fari í taugarnar á Gunnari?
Með von um viðbrögð,
Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins.