Fyrir u.þ.b. 150 árum síðan hófst iðnbyltingin svokallaða. Samfélög okkar umbreyttust í framleiðslusamfélög og á örskömmum tíma í neyslusamfélög nútímans. Smátt og smátt föttuðum við samt að þessi nýju samfélög okkar voru að taka sinn toll af náttúruauðlindum jarðarinnar, heimkynna okkar. Við eyddum vistkerfum, gengum hart á náttúruauðlindir, menguðum vatn, loft og jarðveg og byrjuðum örlagaríka vegferð sem ólíklegt er að náist að stöðva. Sú vegferð er loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Við vissum af loftslagsbreytingum fyrir meira en 100 árum síðan og árið 1960 hófust reglulegar mælingar á styrk koltvíoxíðs í andrúmsloftinu. Niðurstöður mælingar á næstu árum á eftir sýndu að hann jókst stöðugt frá ári til árs. Það var samt ekki fyrr en 1992 sem fyrsta alþjóðlega loftslagssamkomulagið var undirritað í Rio de Janeiro í Brasilíu sem var fylgt eftir með Kyoto bókuninni árið 1997 og svo Parísarsamkomulaginu árið 2015. Í stuttu máli reyna þessi samkomulög að takmarka á losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á alþjóðavísu og er það í grunninn á ábyrgð stjórnvalda í hverju landi fyrir sig að ná markmiðum þessa samkomulaga.
Svona stutt yfirlit yfir loftslagsbreytingar og alþjóðasamkomulög, sögu þeirra og tilgang væri efni í heila bók en stöldrum nú aðeins við. Nú þurfum við aðeins að líta nær okkur sjálfum. Í nærsamfélagið frekar en alþjóðasamfélagið, í aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum frekar en Parísarsamkomulagið og í ruslatunnuna undir vaskinum frekar en í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs (ekki að margir hafi séð né heyrt af þeirri áætlun). Því ef við deilum orsökum loftslagsbreytinga niður á alla íbúa jarðar, þá kemur í ljós að við berum öll ábyrgð. Vissulega er hún mismikil eftir því hvar við búum á jörðinni en við erum öll ábyrg. Hvert okkar er valdur af loftslagsbreytingum. Þó við séum ekkert endilega að reyna það. Þetta er bara staðreynd. Bara það að vera til, að borða, búa í öruggu húsnæði og vera með aðgang að hreinlæti krefst orku og auðlinda sem jörðin okkar þarf að skaffa, og í leiðinni hljótast nær oftast neikvæð áhrif af því að nýta þessa orku og þessar auðlindir.
Við í okkar vestrænu samfélögum, sem eru hratt að verða staðallinn á heimsvísu, notum auðlindir sem 1,7 til 2 jarðir geta gefið. Við eigum eitt stykki, ekki tvær, tíu eða hundrað, við eigum eina jörð. Við erum sem sagt að kreista meira út úr okkar eina heimili heldur en það getur gefið til lengri tíma. Hvað gerist þá að lokum? Dæmi: Þú átt milljón inn á banka og færð 10% vexti árlega, 100 þúsund krónur. Ef þú eyðir bara þessum 100 þúsund krónum á hverju ári þá áttu ennþá þessa milljón inná bankabók sem skilar þér aftur 100 þúsund krónum árlega inn í framtíðina, gefið að þú notir bara 100 þúsund á ári. Ef þú síðan notar meira en þennan 100 þúsund kall árlega þá lækkar höfuðstóllinn (upphafleg milljón) og þú færð lægri vexti á hverju ári þangað til milljónin er búin (viðskiptafræðingar og hagfræðingar vinsamlega lítið fram hjá einfaldleika þessa dæmis). Það er nokkurn veginn þetta sem er í gangi núna á jörðinni. Við erum komin á þann stað að okkar lífsstíllinn okkar, okkar neyslumiðaði, einnota, eyðslufreki lífsstíll er að ganga fram af okkur sjálfum. Birtingarmyndirnar eru allt í kring og alltaf í fréttunum. Útrýming dýrategunda, loftslagsbreytingar með tilheyrandi hækkun og súrnun sjávar, minni uppskera, öflugri og tíðari ofsarigningar og þurrkar, plastmengun í sjó og vatni og svo mætti lengi telja.
En fjandinn hafi það að maður leggist upp í rúm og fari að grenja, þó Salka Sól hvetji mann til þess í þrælskemmtilegu lagi með Baggalút. Ég segi nei söng Jónas Sig og það segi ég líka. Hristum nú allsvakalega upp í kollinum á okkur og byrjum heima. Tökum stöðuna og spyrjum okkur: „hver eru mín áhrif á samfélagið og umhverfið mitt nær og fjær?“. Ertu að borða kjöt sjö sinnum í viku? Helmingaðu það. Ertu að keyra í vinnuna? Gakktu, hjólaðu á góðviðrisdögum eða taktu strætó helminginn af tímanum. Kaupir þú vörur sem innihalda pálmaolíu? Reyndu að hætta því þó það sé erfitt, hún er út um allt. Flýgur þú til útlanda í frí reglulega? Gerðu það sjaldnar og farðu frekar hringinn, gakktu á fjall, farðu í tjaldútilegu, í sumarbústað eða upp á jökul. Kaupir þú ódýr föt oft á ári? Kauptu færri flíkur sjaldnar og kauptu flíkur sem endast lengur. Listinn heldur áfram og áfram og áfram.
Það hafa ýmsir vitnað í persónu Indriða úr þáttaröðunum um Fóstbræður í gegnum tíðina. Það koma upp aðstæður þar sem einhver aðili er svo hissa, svo forviða, gáttaður á því að hann sjálfur eigi að gera eitthvað. Þá getur verið gott að grípa til „og hver á að gera það, er það ég?!“.
En þessar aðstæður eru algengari en við höldum. Við höfum öll verið Indriði einhvern tímann, allavega innra með okkur. Þegar eitthvað óréttlæti, ósanngirni eða önnur vitleysa á sér stað fyrir framan nefið á okkur, þá höfum við ekki gert neitt í því. Einhver annar átti að taka af skarið og gera. . . . eitthvað. En ekki lengur. Nú er komið að þér, og mér, því þó ég og þú munum kannski ekki taka eftir breytingunum þá skulum við muna það að líklega munu börnin okkar lifa til ársins 2100 og þau munu þekkja einstaklinga sem munu jafnvel lifa til ársins 2200. Já, það er svona stutt í þessu fjarlægu ártöl. Svo ég segi upp úr sófanum, út á hjólið, inn með hringrásarhugsun, út með kjötið og fram fram fylking!
Höfundur er umhverfisverkfræðingur.