Orðin skullu á honum eins og úthafsalda; brotnuðu á honum þannig að saltvatnið flæddi ofan í lungun; drekktu honum. Hann sökk máttvana ofan í þessa tilfinningu þangað til hann vissi ekki lengur hvar hafið byrjaði og tárin enduðu. Hvernig gátu einföld orð sært svona djúpt? Hver setning nýr rýtingur í bakið sem nú þegar var orðið eins og á broddgelti. Fyrst var það Sigurður Ingi sem hafði tekið allt sem hann átti eftir eitt andartak af veikleika og núna Lilja; fyrst hægri höndin hoggin af, svo sú vinstri. Núna var hann bara einn, handalaus og einn í þessum óendanlega hafsjó. Hún var vinur minn. Elsku vinur minn. Ekkert sem hafði verið sagt við hann í pólitík, í lífinu, í heiminum hafði sært hann svona mikið.
Sigmundur Davíð á erfitt með margt; erlend matvæli, mætingarskyldu í vinnu, nútímabyggingalist, klíníska söfnunaráráttu, að sleppa tökunum á menntaskólaárunum, skattalög, málefnalega gagnrýni, Gísla Martein Baldursson, tapsæri, eðli sannleikans, fótsýkingar og að greina á milli ólíkra hljóða, svo fátt eitt sé nefnt. Erfiðast á hann samt með að biðjast afsökunar. Meira að segja þegar hans pólitíska líf er að veði getur hann ekki sagt orðin beint út og einlægt; auðmýktin klínist á milli tannana á honum eins og munnfylli af hráu hakki á tekexi eða ómótstæðilegri súkkulaðiköku með perum.
En hvaða flugumaður ríkisstjórnarinnar var það sem kom hlerunarbúnaði fyrir þarna inni til þess að koma höggi á þessa bljúgu samfélagsþjóna? Úr hvaða meinfýsna fylgsni kom þessi siðlausa fyrirsát og árás á einkalíf þessa fólks? Það var ekki njósnari eða illkvittinn blaðamaður eða útsendari erlendra kröfuhafa. Nei, þetta var Bára Halldórsdóttir, 42 ára gömul fötluð, hinsegin kona með gamlan, brotinn Samsung Galaxy A5 síma. Kona sem sat undir því að hlusta á valdamestu stétt þjóðarinnar tala á þennan hátt um fólk eins og hana á opinberum vettvangi. Það er stóra samsærið. Stóra plottið gegn Sigmundi.
Það er fullt af sveittum miðaldra frethönum þarna úti sem eru meira en tilbúnir til að stökkva fram og segja okkur að hafa okkur hæg; að nú séu tilfinningar okkar komnar út í ofstæki og einelti. Ríkisreknasti málsvari einkaframtaksins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, setti upp sinn föðurlegasta yfirlætissvip eftir frábært viðtal Kastljóss við Lilju Alfreðsdóttur þar sem hún lýsti tilfinningum sínum gagnvart þeirri ofbeldisfullu orðræðu sem hún upplifði frá Sigmundi og sexmenningunum. Auðvitað á Lilja ekki að vera svona viðkvæm, taka þessu svona inn á sig. Hún þarf bara smá karlmannlegt sigg á þessa viðkvæmu kvenlegu húð sína. Kona! Þér eruð hysterísk! Þér ættuð að láta eiginmann yðar róa yðar þöndu taugar.
Fólk er nefnilega hysterískt, eða að misskilja, eða að ýkja eða gera úlfalda úr mýflugu. Það sem var sagt var tekið úr samhengi og þótt það hafi ekki verið tekið úr samhengi þá eru hvort eð er allir aðrir að segja það líka, og Sigmundur getur sannað það. Hann er tilbúinn að nefna nöfn, eiðsvarinn. Hann er nefnilega bara fórnarlamb sjúkrar menningar á þingi þar sem allir þingmenn ganga um og segjast loksins hafa fundið skrokka sem typpið á þeim dugi í. Einu mistök hans er að hafa burðast með það á bakinu að hafa heyrt þetta, að hann hafi ekki staðið upp og sagt eitthvað fyrr. Eina sem hann hefur á samviskunni er að vera of bljúgur og blíður. Einkennismerki sannra lygara er að halda að allir aðrir séu lygarar líka.
Fyrir utan allt mannhatrið og fáfræðina sem opinberaðist þarna væri forvitnilegt að heyra hvað þetta fólk er búið að kosta íslenska ríkið. Heilu þingfundirnir og þingnefndarfundirnir hafa ekki farið í neitt annað en að ræða þetta mál og svo er Ásmundur Friðriksson búinn að vera keyrandi stanslaust í kringum hverfið sitt með miðstöðina á fullu í kvíðakasti yfir því að eitt af svona 15.000 samtölum sem hann hefur átt um hvað Björn Leví Gunnarsson sé mikill skíthæll leki í fjölmiðla.
En við getum öll andað léttar. Alþingi Íslendinga, okkar valdamesta stofnun ætlar ekki að tækla þetta mál með neinum vettlingatökum, ó nei. Það er nefnilega búið að kalla saman siðanefnd Alþingis. Hún mun halda marga fundi yfir langt tímabil og að lokum skila ráðgefandi nefndaráliti um hvort siðareglur alþingis hafi verið brotnar. Það er eins og Sun Tzu sagði í The Art of War: „Ekkert blað er jafn beitt og hnífur langdreginnar, valdlausrar bjúrókrasíu“. Ég er viss um að allt þetta fólk muni segja af sér þegar minnisblað nefndarinnar verður lagt fyrir þingið, því ekki getur þingið rekið það, eða lýst vantrausti á það, eða bara gert nokkurn skapaðan hlut. Þau þurfa bara að finna það í sinu eigin hjarta að segja af sér. Fullkomið kerfi.
Í verðlaun fáum við fullkomlega óstarfhæfa stjórnarandstöðu þannig að núna er ríkisstjórnin bara með frítt spil til að gera nokkurn veginn hvað sem henni sýnist varðandi veiðigjöld, innflutning á kjöti eða hvert annað kjaftæði sem fólki gæti dottið í hug. Banna innflutt kjöt, banna innflutta osta. Bönnum allt innflutt. Allt skal vera framleitt á Íslandi úr íslensku hráefni. Við smíðum bara okkar eigin bíla, úr íslensku kjöti og beinum sem ganga fyrir mör og mjólk. Sigurður Ingi hefur loks Calígúlískt svigrúm til að skipa hrútinn Mola formann yfir Framkvæmdanefnd búvörusamninga og enginn getur sagt neitt. Gleðilega kjarasamninga.
Það sem gerir þetta mál samt svona einstakt er sannleikurinn. Burt séð frá áfenginu og maníunni þá var það sem náðist þarna þrjár klukkustundir af persónulegum sannleika þessa fólks, algjörlega ósíaður og óritstýrður. Þetta eru hliðar stjórnmálafólks sem við sjáum sjaldnast. Á alþingi er afreksfólk í svörum án svara. Engin afstaða afdráttarlaus eða sönn. Allt er sölumennska, snákaolía og óljós, fljótandi hugmyndafræði. Það er því svo rafmagnað þegar gríman fellur. Og ég skil þau að hafa bara sleppt þessu öllu út þarna; það hlýtur að vera óbærilegt að byrgja allan þennan skít inni alla daga. Það sem þau finna núna er að það er aldrei hægt að setja grímuna aftur upp. Krókódílatárin hafa orsakað of mikinn bjúg. Hún passar ekki á lengur. Sama hvað þau segja eða gera héðan í frá verður því aldrei trúað heldur mun það bara óma líkt og selshljóð fullkominnar örvæntingar; reiðhjólabremsa á óheppilegum tíma á Austurvelli. Pólitíska lífi þeirra er lokið, þau bara vita það ekki enn.
En hvern var talað um þegar gríman féll? Var talað illa um vondu bankamennina? Var talað niður til valdaelítunnar sem búin er að mergsjúga þetta land? Var gert grín að auðmönnum og hrægömmum? Nei, það var gert grín að fötlunaraktívistum og öryrkjum, það var gert grín að kynferðisbrotum, mannréttindum og sterkum konum. Sexmenningarnir eru ekki málsvarar neins nema síns eigin rassgats, og hafa aldrei verið. Það er ekkert stórt samsæri, bara 42 ára gömul kona með sómakennd sem gaf okkur sem þjóð tækifæri til að vera viðstödd einlægan sannleik þessa fólks.
Ef þið viljið að þjóðin hætti af ofsækja ykkur, að hatrið og ofstækið gegn ykkur hætti þá er það ekkert mál. Á einu andartaki verður þetta yfirstaðið; berið ábyrgð á því sem þið sögðuð. Nei, ekki með því að puðra út einhverri andvana afsökunarbeiðni í hálfum hljóðum. Segið af ykkur. Það er ábyrgð í verki. Segið af ykkur.
Og Sigmundur Davíð er ekki riddari neins. Hann er ekki bjargvættur hinna litlu eða fátæku. Hann er ekki kominn til að bjarga okkur úr klóm hrægamma og valdaelítu. Hann er bara enn einn auðmaðurinn og elítu-poplúlistinn sem þráir ekkert annað en að verða smá málsgrein í sögunni. Vel gert, það tókst. En núna ertu búinn. Láttu okkur vera. Segðu af þér.