Við hjón buðum börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar til máltíðar um daginn. Samtals 18 manns og vantaði þó einn gaur. Þetta er allt skynsamir einstaklingar og hafa gaman af að velta fyrir sér allskonar. Eitt mál sem drepið var á snerti spurninguna hvort ætti að segja börnunum (þeim yngstu auðvitað) hvort jólasveinarnir væru til eða ekki. Kjarni umræðunnar var hvort það væri siðferðilega rétt að ljúga að börnum sínum.
Hér er ekki ætlun að ræða þetta fræðilega heldur fara yfir umræðuna um jólasveina á síðustu árum. Heldur verður ekki gerð grein fyrir umræðum fölskyldunnar né einhverjum sértækum niðurstöðum.
Siðmennt gleðispillir?
Í byrjun desember árið 2012 stóð Siðmennt fyrir heimspekikaffi um spurninguna: „Er siðferðilega rétt að segja börnunum að jólasveinar séu til?“ Heimspekingarnir Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Jóhann Björnsson voru meintu Grinch-ar í málinu og veltu þessu mikilvæga máli fyrir sér eins og um væri að ræða ein af stóru tilvistarspurningunum..
Málið vakti vægast sagt ótrúleg viðbrögð. Siðmennt var sakað um að eyðileggja uppeldi barna og taka frá þeim fallega upplifun og fleira og fleira og fleira. Málið var svo alvarlegt að það endaði í spjallþáttum ljósvakamiðla, lærðum greinum dagblaða, kommentakerfum um víðan völl og síðan í sjálfu Kastljósi.
En allir sem æstu sig upp úr öllu valdi höfðu að sjálfsögðu EKKI hlustað á heimspekikaffið heldur mynduðu sér skoðun áður en af því varð. Úr varð týpísk umræða a la bloggsvæði miðla.
Níu árum áður en Siðmennt ákvað að bjóða upp á heimspekikaffið um þessa mikilvægu spurningu hafði Eyja Margrét reyndar svarað spurningunni á Vísindavefnum. Þar veltir hún upp dæmum um aðstæður þar sem siðferðilega væri rétt að ljúgja og síðan aðstæðum sem ekki er verjandi að beita rangindum.
Eyja Margrét, eins og sannur heimspekingur, segir m.a. á Vísindavefnum: „Við getum þá spurt: er siðferðilega rétt að segja einhverjum ósatt ef það er honum til góðs? Hér verður spurningunni ekki svarað heldur er henni vísað til lesandans.“ og lætur okkur eftir að kryfja málið sjálf!
Ég ætla að pósta hér vangaveltum í kringum þessa miklu spurningu svo þið sjáið hversu alvarlegt málið er. Fyrst kemur svar Eyju Margrétar á Vísindavefnum, en hún var ein af meintum Grinch-unum í heimspekikaffinu.
Jóhann fylgdi sjálfsögðu fordæmi Eyju Margrétar og hagaði sér eins og heimspekingur enda er hann það og setti þessi skrif á síðu sinni:
„Sem lið í að undirbúa mig fyrir samræðurnar ákvað ég að leggja spurninguna fyrir nemendur mína í heimspeki við Réttarholtsskóla og fá álit þeirra. Óskaði ég eftir því að þau kæmu bæði með rök á móti og með því að börn fengju að vita það að jólasveinar væru ekki til. Síðan fór fram heimspekileg samræða um málið og hin ýmsu sjónarhorn komu upp.“
Hugmyndir nemenda Jóhanns má finna í færslu hans og eru þær einstaklega áhugaverðar. Hér birti ég aðeins örfá dæmi um hugmyndaauðgi nemendanna og hvet alla til að lesa færsluna þar sem fleiri snilldar rök koma fram bæði með og á móti afhjúpun jólasveina:
„Ef foreldrar vilja spara peninga (þurfa þá ekki að kaupa dót í skóinn). Mótrök en það þarf ekki að kosta mikið, þú getur t.d. gefið mandarínu sem var hvort sem er til.
Börnin eiga rétt á því að trúa því sem er skemmtilegt.
Jólasveinninn er gleðigjafi.
Er betra að lifa hamingjusamur eða glaður í lygi en óhamingjasamur í sannleika?
Er það börnunum í raun til góðs að trúa á jólaveininn?“
Nokkur fjöldi sótti heimspekikaffið og að loknum erindum spruttu ansi fróðlegar og skemmtilegar umræður meðal þátttakenda á milli þess sem þeir fengu sér kaffi og kruðerí.
Jólasveinar, prestar og Jesú
En það er ekki einungis Siðmennt sem stóð að tilræði við jólasveininn. Þekkt er þegar prestur hér á landi upplýsti börnin í sókn sinni að jólasveinninn væri ekki til og þá Grýla og Leppalúði ekki heldur og það kortér fyrir jól. Upp varð fótur og fit og presturinn tekinn á teppið.
Jónas Kristjánsson tók upp hanskann fyrir prestinn og skrifaði m.a.:
„Verið getur, að sá jólasveinn spari starfsfólki leikskóla góðar hugmyndir við að hafa ofan af fyrir börnunum á jólaföstunni. En vitleysan gengur of langt, þegar foreldrar eru farnir að gefa börnum gjöf á hverjum degi í fjórar vikur. Þá er kominn tími til, að séra Flóki segi stopp.
Hvort sem íslenzku jólasveinarnir eru til eða ekki, þá er öruggt, að rauðklæddi jólasveinninn er alveg laus við að vera til. Og börnin eiga heimtingu á að fá að vita það.“
Rúsínan í pysluendanum er síðan hvernig Baptistakirkjan svarar spurningunni: „Af hverju að trúa á Jesú Krist en ekki jólasveininn“. Ég verð að segja að fátt er um rök þrátt fyrir að vera fjölmörg að sögn svarandans í eyðimörkinni og þá helst að miðdepill dagtalsins míns sé – einmitt hinn eini sanni Jesú Kristur!
Prestarnir í ofangreindum málum hefðu að mínu mati mátt, auk þess að afneita jólasveinum þrisvar, að komast að svipaðri niðurstöðu um ósýnilega vini sína.
Jólasveinarnir handbendi bissnissafla?
Að mínu mati er rétt að draga fram að allt með jólasveina er náttúrulega kaos. Eru þeir 13 eða bara einn? Af hverju eru þeir allt í einu góðir? Af hverju nota sumir foreldrar þá sem hluti af uppeldinu? „Ef þú ferð ekki að sofa þá . . . !“
Í gamla daga voru Grýla og Leppalúði hið mesta hyski og illmenni og synir þeirra litlu betri. Vita börnin að samkvæmt frásögn átti Grýla þá Bola og Gust fyrir eiginmenn og Leppalúði er sá þriðji? Því er haldið fram að hún hafi étið þá tvo fyrst nefndu!
En hvað með fornu heiti jólasveinanna? Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur, Langleggur, Skjóða, Völustakkur og Bóla, í þeirri útgáfu af ljóðinu sem kunnari er. Þröstur, Þrándur, Böðvar, Brynki, Bolli, Hnúta, Koppur, Kyppa, Strokkur, Strympa, Dallur, Dáni, Sleggja, Sláni, Djangi, Skotta. Sighvatur og Syrpa.
Nú eða Tífill, Tútur, Baggi, Lútur, Rauður, Redda, Steingrímur og Sledda, Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur, Bjálmans barnið, Litlipungur, Örvadrumbur.
Ekkert af þessum nöfnum er lengur notað.
Af því ég nefndi börn mín í upphafi greinarinnar þá vakti ýmislegt efasemdir þeirra um tilvist sveinka þegar þau voru börn. Stærsta áfallið var að á meðan þau voru að fá einfaldar og þægilegar skógjafir eins og mandarínur og nýbakaðar smákökur úr eldhúsi foreldranna og afar sjaldan kartöflur. En stúlka ofar í stigaganginum fékk myndbandstæki einn daginn og sjónvarp hinn daginn! Það fannst börnum okkar hjóna merki um mismunun og reyndi þá á útskýringarhæfni foreldranna (og hæfnina að segja fallega ósatt).
Þess utan trufla skógjafir svefn barna þar sem þau taka upp á því að vakna á nóttunni til að skoða í skóinn og koma örþreytt í skólann missæl með hvað jólasveinninn þann daginn bar í hann!
Nútíma jólasveinarnir 13 eru gengnir í björg markaðshyggjunnar! Þeir eru óspart notaðir til þess að selja foreldrum allskonar dót og drasl. Þeir meira að segja mæta í nóvember til byggða í sérverkefni í verslunum og við opnun allskonar markaða og eru á fullu fyrsta í aðventu þó opinberlega séu 12 dagar þar til fyrsti jólasveinn á að koma til byggða!
Bíddu, bíddu - hver er svo niðurstaðan?
Ég ætla nú ekki að auðvelda þetta með því að setja hér niðurstöðu Eyju og Jóhanns. Það er hægt að lesa úr þeirra málflutningi! En umræðuefnið er einstaklega fróðlegt, skemmtilegt og getur valdið deilum eins og dæmin sanna.
Ég játa hér í lok greinar að ég laug að börnunum mínum og gaf þeim í skóinn. Sé ekkert eftir því þar sem þau komust að því seint um síðir að þetta var ekki raunveruleikinn.
Minni á að Stekkjastaur kemur í bæinn aðfararnótt 12. desember!
P.S. Ekki leyfa börnum undir 8 ára að lesa greinina!