Prímatahegðun er okkur meðfædd, en siðmenntin lærð. Því grynnra sem siðmenntin ristir, því sterkar kemur prímatinn í ljós. Fyrir mig, sem hef áhuga á dýraatferlisfræði, vakti samtal nokkurra stjórnmálamanna á Klaustubarnum afar áhugaverða stúdíu á athæfi nútíma prímata af mannkyni.
Mannkynið er ein af dýrategundum jarðarinnar. Við teljum okkur oft trú um að við höfum sagt skilið við dýrslegan uppruna okkar, en hann er samt þarna undir niðri og dýrið í okkur birtist á ýmsan hátt. Mannkynið er hluti af stofni prímata og er líka bæði rándýr og bráð. Prímatar búa í samfélögum og hafa með sér flókið samskiptakerfi og strangt valdakerfi. Eins og fleiri dýrategundir búa þeir yfir hvötinni til að vernda afkvæmi sín og vegna samfélagsskipunar sinnar líka hvötinni til að vernda samfélagið sitt. Því síðarnefnda fylgir oft talsverð íhaldssemi, þ.e. það liggur beinast við að verja það samfélagskerfi sem fyrir er, en ekki að breyta því.
Við búum ennþá yfir frumhvötum, en höfum bætt við okkur æ flóknara samskiptakerfi og siðfræði. Það er einmitt í siðfræðinni sem við sjáum okkur frábrugðin öðrum dýrum jarðarinnar. Því miður er siðmennt ekki öll jafn góð og inniber sitt af hverju af ofríki, kúgun, undirgefni, undirförli, umhyggju, gæsku, samhjálp, virðingu, fróðleiksfýsn, víðsýni, þröngsýni, frjálslyndi og stjórnlyndi. Siðfræðin var lengi sett í reglur sem trúarbrögð og ræktaði þar bæði nokkra kosti og skelfilega ljótan boðskap líka. Að hætti prímata setti hún samfélagsskipanina í ströng boð, fann valdakerfinu trúarlega réttlætingu, en boðaði líka umhyggju, sem þó var takmörkuð við það að ógna ekki valdakerfinu. Það er ótrúlega seint sem húmanisminn kom fram sem siðbót á trúarbrögðunum og fór að boða manngildi, mannúð og mannréttindi ofar stéttskiptingu og hafnaði misvirðingu fólks.
Sú siðfræði sem við tileinkum okkur ristir mis djúpt. Sú sem ristir dýpst verður lífsgildi, en sú sem ristir grunnt verður aðeins hentistefna, sýnd þegar hentar en leysist upp á stundum. Þær stundir eru t.d. aðstæður sem valda hömluleysi, svo sem þegar menn reiðast, verða hræddir eða neyta áfengis. Þegar siðmenntaði prímatinn dettur í'ða, skolast yfirborðið af fyrst og þær rætur sem liggja dýpra koma skýrar í ljós. Þess vegna fannst mér svo áhugavert að skoða samskipti pólitísku prímatanna sem ræddu saman á Klausturbarnum. Þarna var frumstæða prímatasamfélagið með sinni ströngu skipan, karlkyns höfðingi ættbálksins, aðrir prímatakarla í hans innsta hring, önnur karldýr sem átti að fá til liðs við ættbálkinn og svo konan sem hafði afmarkað leyfi til að blanda sér í umræðuna og var sett ofaní við þegar hún spillti móralnum með vitlausum athugasemdum. Til viðbótar höfðu þeir tileinkað sér svolítið af siðfræði, oflæti, undirförli, öfund og smjaður, sem þeir voru sanntrúaðir um að þyrfti til að viðhalda ættbálknum og höfðingjanum. Nýtilkomin siðfræði þeirra hafði skolast af við skvettu af áfengi, svo sem allar hugmyndir um jafnan rétt fólks óháð kynferði, kynhneigð, fötlun og fleiri lítilmagnandi eiginleikum þeirra sem voru þeim sjálfum síðri.
Það athyglisverðasta við samtöl þessa fólks var ekki sóðalega orðbragðið, það var bara vanmáttugt gól vansældar þeirra yfir hlutskipti sínu, sem þeir höfðu gert sér meiri væntingar um. Það athyglisverða kom fram í endurritinu á Kvennabladid.is á hinni pólitísku sýn þeirra á sjálfa sig og hvern annan. Þeir vilja hafa gamalt samfélagslegt kerfi og eru óhressir með þær stofnanir samfélagsins sem þeir töldu eiga að viðhalda kerfinu en hafa verið að boða einhverjar breytingar. Þar voru týnd til nýi þingflokkurinn Píratar sem er ekki að verja kerfið á Alþingi, Alþýðusambandið sem er komið í verkalýðsbaráttu og kirkjan sem hefur fjölgað konum í klerkastétt og tekið á kynferðisbrotum og varið mannréttindi óboðinna útlendinga og óhefðbundin hjónabönd.
Þeir hafa ekki þroskast upp úr prímatasamfélaginu, það má ekki á milli sjá hvorir dást meira að höfðingja ættbálksins, höfðinginn sjálfur eða liðsmennirnir. Þeir verja talsverðum tíma í að árétta þörfina á að hafa valdastrúktúr með höfðingja og Sigmundur Davíð er einmitt, að eigin áliti og hinna, slíkur höfðingi. Þessi höfðingjaþrá er bæði beitan sem Miðflokksmenn bjóða tvímenningunum úr Flokki fólksins og tilefnið fyrir ljótasta orðbragði Karls Gauta, þegar hann býsnast yfir því að konan sem er formaður í hans flokki sé ekki sá leiðtogi sem ættbálkur þarf að hafa. Hann kemur úr valdakarlasamfélagi valdstjórnarinnar þar sem prímataskipulagið ríkir. Það hvarflar ekki að honum að fjórar fullorðnar manneskjur geti starfað saman án þess að hafa valdapíramída með górillukarl á toppnum.
Hvað er prímataskipulag í nútíma? Það er höfðingi, hollusta við höfðingjann og refsing við að rísa upp gegn honum, vitund um að upphefð þín komi frá höfðingja þínum, vonin um að hljóta þá upphefð, viljinn til að verja höfðingjann og klekkja á öllum óvinum hans, aðdáun og smjaður uppávið, trúin á hinn sterka og með því andúðin á því veika. Fylgifiskur þessa óskapnaðar er oflæti höfðingjans, þráhyggja fylgjandans og ofstæki í garð allra sem ógna þessu fyrirmyndar skipulagi. Til að viðhalda þessu kerfi er engum meðulum hafnað, til þess þarf að beita klækjum og falsi, sú nauðsyn brýtur lög, skráð og óskráð. Þessi heimsmynd þeirra ristir svo djúpt að hún veldur óbeit á öllum þeim sem raska henni, þaðan kemur óbeitin á öllum þeim þjóðfélagshópum sem samþykkja ekki prímatasamfélagið eða falla ekki að því.
Þessir prímatar heyra í almenningsálitinu, þeir heyra raddir þeirra sem vilja frelsi, lýðræði, mannréttindi, jöfnuð, umhverfisvernd og sitthvað fleira sem hefur ekkert með uppbyggingu prímatasamfélags að gera. Þeir vita að þeir tapa stríði gegn þessum hugmyndum og fylgja því spakmælinu: Ef þú getur ekki sigrað þá, gakktu í lið með þeim. Þeir skreyta sig fjöðrum þessarra hugmynda, enda hvað gerir góður liðsmaður ekki til að verja ættbálk sinn. Samt pirra þessar hugmyndir þá, þeir vilja ekki fá samkeppni um völd frá konum sem hafa önnur sjónarmið og pirringur þeirra út í konur vex með vaxandi áhrifum kvenna. Þeir líta á allan veikleika sem ógn við prímatasamfélag sitt sem byggir á völdum hins sterka. Þess vegna hafa þeir í raun óbeit á öllum sem þeim finnst ekki sterkir, þess vegna líta þeir niður á fatlað fólk og fleiri þjóðfélagshópa. Dags daglega geta þeir alveg sýnt þessu fólki vináttu en ná samt ekki að líta á það sem jafningja. Hinn siðmenntaði prímati segist bera jafna virðingu fyrir öllu fólki og nefnir því til stuðnings að eiga vin sem sé svona og svona, en bætir ekki við því sem undirvitund hans veit, að hann sjálfur er þeim miklu fremri.
Við sjáum þetta prímatasamfélag í litlum flokkum og stórum ríkjum, í gömlum samfélögum og nýjum, fjarlægum löndum og heimalandi okkar, frumskógum og borgum. Prímataskipulagið er samfélagskerfi byggt á valdapíramída, sem þolir hvorki lýðræði né jafnrétti.
Langar þig ekki að komast lengra á þróunarbrautinni og verða að siðmenntuðu mannkyni? Langar þig ekki að úrelda prímatann úr pólitíkinni?