Umhverfismál hafa verið í brennidepli á undanförnum árum, ekki síst vegna Parísarsamkomulagsins. Samkvæmt því munum við Íslendingar ásamt 194 þjóðum miða að því að halda hækkun á meðalhitastigi jarðar vel innan við 2 gráður frá meðalhitastigi jarðar fyrir iðnbyltingu. Til að ná þessu metnaðarfulla takmarki þarf samhent átak hins opinbera og einkageirans ásamt almennum vilja til að setja þetta markmið í forgang.
Græn skuldabréf
Í tengslum við þetta hefur mikill vöxtur verið á markaði með skuldabréf sem eru kölluð græn og gefin eru út til að fjármagna verkefni sem ætlað er að vinna gegn neikvæðum breytingum í náttúrunni af mannanna völdum. Dæmi um slík verkefni eru uppbygging orkuvera sem koma í stað annarra óumhverfisvænna orkugjafa eða uppbygging samgöngumannvirkja sem stuðla að minni útblæstri koltvísýrings.
Vísbendingar eru um að fjárfestar geri í auknum mæli kröfu um að fjárfestingar þeirra standist skoðun þegar kemur að þáttum eins og umhverfisvernd, samfélagslegri ábyrgð og góðum stjórnarháttum. Þó svo við mætti búast að slíkar áherslur myndu takmarka fjárfestingakosti hafa rannsóknir gefið vísbendingu um að fjárfestar sem huga að slíkum atriðum njóti að minnsta kosti sömu kjara og þeir sem gera það ekki. Þó er vert að benda á að útgefendur grænna fjárfestingakosta skuldbinda sig til að uppfylla kröfur um upplýsingagjöf og fylgja skilyrðum um í hvað megi nota fjármunina.
Ávinningur grænna skuldabréfa
Ávinningurinn sem hlýst af því að gefa út græn skuldabréf er meðal annars fólginn í að gefa skýr skilaboð um stefnu viðkomandi fyrirtækja í umhverfismálum ásamt því að geta leitað til fjárfesta sem leggja áherslu á þessa þætti í sínum fjárfestingum. Því geta útgefendur grænna skuldabréfa notað útgáfuna í markaðsstarfi og staðfest viðleitni sína til að hafa jákvæð áhrif. Jafnframt verður sífellt algengara að lífeyrissjóðir og einkafjárfestar geri kröfur um að ákveðnum hluta fjárfestinga þeirra sé stýrt í slík verkefni sem gæti aukið eftirspurn eftir grænum skuldabréfum þegar fram líða stundir með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir útgefendur.
Vaxandi markaður - Norðurlöndin taka af skarið
Samkvæmt Climate Bond Initiative, alþjóðlegum samtökum sem vinna að því að nýta fjármagnsmarkaði til að spyrna við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, óx útgáfa á grænum skuldabréfum um 78% árið 2017 frá árinu 2016 í um 178 milljarða Bandaríkjadollara. Jafnframt er gert ráð fyrir miklum vexti næstu árin. Bandaríkin, Kína og Frakkland eru stærstu aðilarnir á þessum markaði en þó hafa Norðurlöndin vakið athygli fyrir sínar útgáfur og eru að mörgu leyti talin leiðandi á þessu sviði. Á undanförnum árum hafa Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland stigið ákveðin skref inn á þennan markað og í ár reið Landsvirkjun á vaðið fyrir hönd okkar Íslendinga með 200 milljón dollara útgáfu á grænum skuldabréfum og lagði þannig áherslu á umhverfislega kosti raforkuframleiðslu okkar Íslendinga.
Innlendur markaður verður til
Reykjavíkurborg gaf nýlega út grænt skuldabréf til að fjármagna m.a. gerð göngu- og hjólastíga, uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla og innleiðingu LED lýsingar. Með útgáfunni tók borgin af skarið sem fyrsti innlendi aðilinn til að gefa út grænt skuldabréf í íslenskum krónum og sendi þannig skýr skilaboð um umhverfisstefnu borgarinnar. Jafnframt hafa fleiri aðilar lýst yfir áhuga á grænni útgáfu, ekki síst vegna aukins áhuga fjárfesta á slíkum fjárfestingakostum.
Búast má við að innlendur markaður með græn skuldabréf eigi eftir að vaxa nokkuð á næstu árum. Því er vert fyrir þá sem þurfa að fjármagna verkefni með jákvæðum umhverfisáhrifum, hvort sem það eru sveitarfélög, ríki eða fyrirtæki, að skoða græna útgáfu á skuldabréfum og fjárfesti þannig í bættu umhverfi.
Höfundur er sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum.