Að hugsa of mikið - Maraþon og kvíði

Guðrún Karls Helgudóttir prestur í Grafarvogskirkju fjallar um það hvernig var að hlaupa maraþon með kvíða. Í næsta hlaupi ætlar hún að njóta, ekki hugsa um tíma, reyna að taka þetta með hæfilegu kæruleysi og vera glöð yfir því að geta hlaupið.

Auglýsing

Kvíði er eitt­hvað sem hefur fylgt mér frá því ég var barn. Þá var hug­takið ekki til nema þá í merk­ing­unni að kvíða fyrir ein­hverju. Það var ekki fyrr en ég var komin yfir tví­tugt og búin að eign­ast mitt fyrsta barn og kvíð­inn fór að áger­ast að ég fór að leita skýr­inga og hjálp­ar. Það var flók­ið. Ég fór í ýmsar rann­sóknir á lík­am­anum því ein­kennin voru oft lík­am­leg, hraður hjart­slátt­ur, sjón­trufl­anir og straumar eftir vinstra hand­legg. Við vitum jú að þessi ein­kenni geta gefið vís­bend­ingu um annað en kvíða. Það kom jafn­vel fyrir að ég vakn­aði um miðja nótt með hraðan hjart­slátt og leið eins og ein­hver hefði tekið um hjartað á mér og væri að kreista það. Sárs­auk­inn var nán­ast óbæri­legur í sál­inni. Allt var sorg­legt og ömur­legt. Mig lang­aði ekki að halda áfram að vera til en mig lang­aði samt alls ekki að hætta því. Þegar ég hugs­aði til baka voru nokkur til­vik frá barn­æsku þar sem ég mundi eftir að hafa liðið svona en það vissi engin þá að það sem var að plaga mig var kvíði og stundum ofsa­kvíði.

Það var ekki fyrr en ég hlust­aði á við­tal við konu í útvarp­inu sem sagði frá svip­uðum ein­kennum sem hún kall­aði kvíða og þung­lyndi að ég skildi að það var ekk­ert lík­am­legt að mér heldur aðeins and­legt. Ég leit­aði lækn­inga í fram­hald­inu og fékk hjálp.

Ég hef náð góðum tökum á kvíð­anum og hann er sjaldan til mik­illa vand­ræða lengur en hann getur þó tekið sig upp á óvæntum stundum og jafn­vel þegar ég á síst von á. t.d. þegar ég hleyp í skipu­lögðum keppn­is­hlaup­um.

Auglýsing

10 km og hálft mara­þon

Ég byrj­aði að hlaupa fyrir nokkrum árum og hef, þegar þetta er skrif­að, tekið þátt í um það bil tíu slíkum hlaup­um. Í fyrsta sinn sem ég hljóp 10 kíló­metra í Reykja­vík­ur­mara­þon­inu gerð­ist þetta. Ég fór í hlaupið full eft­ir­vænt­ingar og taldi mig vel geta hlaupið þetta á um það bil klukku­tíma. Ég fór af stað og þetta var svo létt. Ég var full af orku og gaf í. Þegar ég var komin um það bil sex km. kemur brekka og einmitt þá hlaupa „hér­arn­ir“, sem haupa þetta á 60 mín­út­um, framúr mér. Við þetta gerð­ist eitt­hvað og ég fór að efast um sjálfa mig. Ég fyllt­ist von­leysi (þó ég reyndi af veikum mætti að hlusta á bók­ina sem ég var með í eyr­unum og gleyma mér) og þegar ég var komin um það bil 8 kíló­metra leið mér orðið svo illa að ég fór að sjá fyrir mér hvernig ég gæti farið út í kant og látið sem það væri að líða yfir mig og hætt hlaup­inu. Mér leið eins og ég væri föst í enda­lausu hlaupi sem mig lang­aði ekk­ert til að vera í en mætti alls ekki hætta. Ég hætti þó ekki þrátt fyrir erf­iðar hugs­an­ir. Ég bara hélt áfram að hlaupa og lauk hlaup­inu á 61 mín­útu. Þegar ég var búin sagði ég við fólkið mitt að þetta ætl­aði ég aldrei að end­ur­taka.

Ég stóð við það árið eftir en tveimur árum síðar tók ég aftur þátt og þá var þetta ekk­ert mál enda var ég bæði í góðu formi og svo hafði ég stjórn á hug­anum allan tím­ann. Eftir þetta fyllt­ist ég eld­móði og skráði mig í hálft mara­þon í útlönd­um. Það ár hljóp ég þrjú hálf­mara­þon. Mér gekk vel í þeim öllum og var glöð allan tím­ann. Eng­inn kvíði var að angra mig og allt gekk vel.

Þessi vel­gengni varð til þess að ég ákvað að láta verða af því að hlaupa heilt mara­þon. Ég hugs­aði sem svo að þar sem gat hlaupið hálft mara­þon þá hlyti ég að geta æft fyrir heilt og klárað það. Ákvörðun var tekin og ég skráði mig í mara­þon í Amster­dam. Ég æfði vel. Ég var með góða vin­konu sem hlaupa­fé­laga og við vorum með gott fjög­urra mán­aða prógram sem ég fylgdi næstum því und­an­tekn­inga­laust. Til að byrja með hljóp ég meira en gert var ráð fyr­ir. Engin meiðsli voru að hrjá mig og ég jók vega­lengd­irnar eins og gert var ráð fyr­ir. Svo nálg­að­ist lengsta hlaupa­æf­ingin fyrir sjálft mara­þon­ið. Þetta voru 32 km. sem ég átti að hlaupa. Ég var stödd í útlöndum og hafði ákveðið nákvæm­lega hlaupa­leið­ina og hlakk­aði til enda var betra veður þar en hafði verið á lengstu hlaupa­æf­ing­unum á Íslandi vik­urnar áður. Dag­inn fyrir þessa lengstu æfingu fyllt­ist ég svo af kvefi og á sjálfan hlaupadaginn var ég komin með hita. Það fór mjög illa í mig að þurfa að sleppa þess­ari æfingu. Ég var búin að hlaupa 28 kíló­metra tvisvar sinnum sem var lítið mál og tveimur dögum áður hafði ég hlaupið 15 kíló­metra eins og ekk­ert væri. En ég var veik og þurfti að sleppa þess­ari æfingu.

Það liðu sex dagar þar til ég treysti mér til að hlaupa þessa 32 kíló­metra. Það gekk sæmi­lega þrátt fyrir kvef og mik­inn mót­vind. Ég kláraði það og var ekk­ert sér­stak­lega þreytt á eft­ir. Eftir þetta fór ég að trappa niður æfingar og und­ir­búa sjálft mara­þon­ið. Ég fór að lesa allt sem ég gat um mara­þon. Las reynslu­sögur og kynnti mér hvernig fólk und­ir­bjó sig. Ég skoð­aði hvernig best væri að haga matar­æð­inu dag­ana fyrir hlaup og heyrði í flestum sem ég þekki sem ein­hvern tím­ann höfðu hlaupið mara­þon. Ég safn­aði í sarp­inn og reyndi að fylgja öllum leið­bein­ing­um. Þegar dag­ur­inn nálg­að­ist fór ég að sofa verr. Ég átti erfitt með að sofna á kvöldin og var þreytt á morgn­anna og síð­asta hlaupa­æf­ingin gekk illa. Ég var þreytt og fann að önd­unin var ekki í lagi.

Heilt mara­þon

Svo kom hlaupa­dag­ur­inn í Amster­dam. Ég dreif mig á fæt­ur. Borð­aði aðeins meiri morg­un­mat en venju­lega, bæði hafra­graut (kom með hafra­mjölið með mér frá íslandi) og lítið rún­stykki með osti og sultu, blá­ber, vatn og kaffi. Við fórum með neð­an­jarð­ar­lest­inni á stað­inn og allt gekk eins og í sögu. Svo kom að því að ég hljóp yfir start­lín­una og hlaupið var haf­ið. Ég ákvað að hafa ekk­ert í eyr­unum fyrstu 10 – 20 kíló­metrana en var til­búin með hlað­varp sem var fyndið og skemmti­legt og krafð­ist engrar ein­beit­ing­ar. Ég reyndi að hugsa um að hlaupa rólega í byrjun en ég var ekk­ert glöð. Þarna var fólk í skemmti­legum bún­ing­um, fólk sem tal­aði ólík tungu­mál. Merk­ingar á fötum gátu verið fyndn­ar. Þarna voru hljóm­sveitir og tón­list­ar­fólk að skemmta hlaup­urum á götu­hornum og fólk að hvetja. En mér fannst þetta ekk­ert skemmti­legt. Ég hugs­aði bara um hvað ég ætti langt eft­ir, hvort ég væri ekki örugg­lega að hlaupa allt of hratt eða allt of hægt og smám saman hellt­ist yfir mig dep­urð. Ég fann alls­konar lykt­ir. Ég fann steik­ing­ar­lykt, reyk­inga­lykt, kanna­bis­lykt og megna svita­lykt. Allt þetta pirraði mig. Á ell­efta kíló­metr­anum hitti ég hlaupa­vin­konu mína sem var ein­stak­lega hress og glöð. Hún náði sér í kraft úr öllu því sem var að ger­ast í kringum okkur og var ekk­ert að hugsa um hraða eða hvort þetta yrði ein­hvern tíma búið. Hún fór að spjalla við mig en ég bara þagði. Ég deildi engri gleði með henni. Ég var bara þreytt (á sál­inni) og var alls ekki að nenna þessu. Smám saman kom aftur þessi til­finn­ing, sem ég fann fyrir í fyrsta 10 km hlaup­inu, um að ég væri föst þarna og kæm­ist aldrei í burtu. Svo­lítið eins og hamstur í hjóli sem aldrei hættir að snú­ast.

Við hlupum saman nokkra kíló­metra og að lokum tók ég stóra ákvörð­un. Ég ákvað, og það var ekki auð­velt, að segja henni hvernig mér liði. Að ég væri að drep­ast úr kvíða. Hún var þá farin að taka eftir því að ég var móð­ari og þög­ulli en venju­lega, því yfir­leitt er það ég sem er blaðr­andi allan tím­ann þegar við hlaupum sam­an. Hún brást hár­rétt við og eftir svo­lítið sam­tal um þetta bað ég hana að hlaupa með mér alla leið­ina, að fylgja mér í gegnum þetta. Og það gerði hún. Hún tal­aði og ég þagði. Inn á milli gerði ég reyndar grín að þessri ömur­legu líðan enda er það er eina leiðin fyrir mig þegar þetta verður sem verst. Á tíma­bili fann ég fyrir því að önd­unin varð grunn og að stutt var í ofönd­un. Kannski ekki að furða enda er erfitt að vera á hlaupum í kvíða­kasti.

Þegar við vorum hálfn­aðar var mér orðið alveg sama um tím­ann og fór að ganga í smá stund á nokkrra kíló­metra fresti en þau sem þekkja til vita að það er vont að byrja að ganga í svona hlaupi því þá er yfir­leitt stutt í næsta labb. Þrátt fyrir þessa ömur­legu líðan næstum allt hlaupið þá var lík­am­inn í fínu formi. Ég fann ekki fyrir neinu nema svolitlum verk í öðru hnénu sem ég hafði byrjað að finna fyrir um það bil viku fyrr. Þessi verkur ágerð­ist þó aldrei og háði mér ekki lík­am­lega, en sjálf­sagt and­lega.

Þetta fór aðeins að verða auð­veld­ara eftir 32 kíló­metra. Þá voru aðeins 10 kíló­metrar eftir og ég var ekki lengur jafn hel­tekin af kvíð­an­um. Ég gat þó ekki glaðst yfir neinu og von­aði bara að þetta yrði ein­hvern tíma búið. Síð­ustu tveir kíló­metr­arnir voru ótrú­lega langir en það eru þeir vænt­an­lega hjá öllum mara­þon­h­laup­ur­um. Þegar 500 metrar voru eftir gaf ég í og hljóp eins hratt og ég gat í mark enda var lík­am­inn alls ekki lúinn.

Mikið var ég fegin þegar þetta var búið!

Nið­ur­staðan og fram­tíðin

Það sem eftir var dags­ins fór að miklu leyti í að vinna úr þess­ari reynslu. Ég gat ekki glaðst nógu vel yfir því að hafa hlaupið heilt mara­þon og verið góðu lík­am­legu standi allan tím­ann. Ég gat ekki glaðst nægi­lega yfir því að ég hafði æft vel og verið alveg til­bú­in, lík­am­lega, í þetta hlaup. Mér fannst ég ekki nógu dug­leg. Næstu klukku­tímar og svo dagar fóru í að sann­færa sjálfa mig um að ég hefði víst verið dug­leg, að ég hefði staðið mig vel. Ég er svo lánsöm að eiga hlaupa­vin­konu sem þekkir mig vel og hefur mennt­un, reynslu og inn­sæi til þess að geta hjálpað mér að vinna úr þessu. Nið­ur­staðan var í stórum dráttum sú að kvíð­inn hafi raun­veru­lega byrjað þegar ég veikt­ist dag­inn fyrir lengsta hlaupið þremur vikum fyrir mara­þon. Þá byrj­aði að öllum lík­indum kvíða­púk­inn minn að fá mig til að efast. Þá fór ég að hugsa of mik­ið.

Kvöldið eftir mara­þonið tók ég ákvörð­un; Ég ætla að gera þetta aft­ur, helst að ári. Ef ég get klárað mara­þon í kvíða­kasti þá hlýt ég að geta klárað það aftur án kvíða. Nú veit ég hvernig þetta er. Ég veit að ég get þetta auð­veld­lega en næst ætla ég að hugsa um að hætta að hugsa. Mark­miðið verður bara að njóta, ekki að hugsa um tíma, reyna að taka þetta með hæfi­legu kæru­leysi og vera glöð yfir því að geta hlaup­ið.

Höf­undur er prestur í Graf­ar­vogs­kirkju.

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Kallar eftir heildstæðri úttekt á starfsháttum og viðskiptaháttum Samherja
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir að enn sé margt mjög óljóst og óskýrt eftir að hafa rætt við sjávarútvegsráðherra á fundi atvinnuveganefndar í gær. Þar á meðal hæfi ráðherra til að byggja upp traust í kjölfar Samherjamálsins.
Kjarninn 21. nóvember 2019
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
FME kallar eftir upplýsingum frá íslenskum bönkum um Samherja
Íslensku bankarnir eiga að upplýsa Fjármálaeftirlitið um það hvernig eftirliti þeirra með viðskiptum við Samherja hafi verið háttað.
Kjarninn 21. nóvember 2019
James Hatuikulipi.
Enn einn „hákarlinn“ fellur – Hatuikulipi segir af sér
Allir þrír áhrifamennirnir í Namibíu sem tryggðu Samherja kvóta á undirverði gegn ætluðum mútugreiðslum hafa nú sagt af sér.
Kjarninn 20. nóvember 2019
Mussila hlýtur Norrænu EdTech verðlaunin
Sprotafyrirtækið Mussila framleiðir hugbúnað sem kennir börnum tónlist í gegnum skapandi umhverfi.
Kjarninn 20. nóvember 2019
Vitundarvarpið
Vitundarvarpið
Vitundarvarpið – Lífið breyttist eftir að Kamilla kynntist kakóinu
Kjarninn 20. nóvember 2019
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Menntamálaráðuneytið telur sig hafa uppfyllt eftirlitsskyldu sína með RÚV
Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur ekki afstöðu til ábend­ingar Rík­is­end­ur­skoð­unar um að færa eign­ar­hlut rík­is­ins í RÚV til fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins. Ráðu­neytið segir að það sé Alþingis að ákvarða um slíkt.
Kjarninn 20. nóvember 2019
Haukur ráðinn framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum
Enn hefur ekki verið ráðið í stöðu varaseðlabankastjóra á sviði fjármálastöðugleika.
Kjarninn 20. nóvember 2019
Ásta Svavarsdóttir
Þú ert svo sæt svona réttindalaus
Kjarninn 20. nóvember 2019
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar