Nýtt frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi til breytinga á lögum um lágmarks fjárframlag með hverjum nemanda sem stundar nám í sjálfstætt starfandi grunnskóla. Hverfa á frá lágmarksviðmiðinu 70-75% framlagi af landsmeðaltali til 85-90% framlags, sem er mikið fagnaðarefni.
Það blasir við að 2/3 meðaltalsframlags tryggir ekki frelsi allra til þess að velja skóla óháð rekstrarformi. Þegar svo naumt er skammtað þurfa foreldrar/forráðamenn að brúa bilið og greiða skólagjöld til þess að tryggja rekstur viðkomandi skóla.
Slíkt er algjörlega óviðunandi í landi þar sem kveðið er á um jafnrétti til náms í lögum.
Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum alla tíð eða frá stofnun samtakanna árið 2005 lagt ríka áherslu á að fjölskyldum sé ekki mismunað þegar kemur að vali um skóla fyrir börn og ungmenni og við höfum hvatt ráðamenn til þess að jafna tækifærin og tryggja fjölbreytileika í skólavali.
Samtök sjálfstæðra skóla gleðjast því mjög yfir þeim tíðindum að Viðreisn hafi nú tekið af skarið og fengið í lið með sér stjórnmálafólk úr ólíkum flokkum á Alþingi til að vinna að jafnari stöðu allra til að nýta sér ólík rekstrarform í þeim sveitarfélögum þar sem sjálfstæðir skólar starfa.
Sjálfstætt starfandi skólar eru dýrmætir fyrir menntaflóruna og hafa allir sem einn komið fram með nýjar leiðir og áherslur í námi til þess eins að gera betur fyrir börn og ungmenni. Sjálfstæðir grunnskólar spretta fram af hugsjón fyrst og fremst og eiga að fá frelsi til að móta menntun í þágu samfélagsins alls. En ekki síður frelsi til þess að geta boðið heilli stétt kennara upp á valkost um vinnuumhverfi. Því þannig er það að sjálfstætt starfandi grunnskólar skapa annars konar starfsumhverfi heldur en gerist í skólum reknum af sveitarfélögum. Umhverfi þar sem stjórnun er bundin við hvern einstaka skóla en er ekki hluti af stærra kerfi eins og heilu sveitarfélagi sem fer með stýringu sinna skóla. Það hefur áhrif og skiptir máli í stóra samhenginu um fjölbreytt rekstrarform grunnskóla.
Það er grundvallaratriði að sjálfstæðir grunnskólar sitji við sama borð og aðrir skólar þegar kemur að úthlutun fjármagns. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla hvetjum þingheim allan til þess að leggjast á eitt og þoka stöðu sjálfstætt starfandi skóla til betri vegar og nær því jafnrétti sem við hljótum að vilja að ríki í menntakerfi okkar. Þannig er betur hlúð að þeirri nýsköpun, frumkvæði og frumkvöðulsstarfi sem felst í sjálfstætt starfandi grunnskólum.
Höfundur er formaður samtaka sjálfstætt starfandi skóla.