Hver er munurinn á vinnuafli manneskju og vélar? Nú þegar kröfur verkalýðshreyfingar og fyrirtækjaeigenda eru að koma fram, sést stór munur á afstöðunni til vinnutíma fólks.
Verkafólk er að búa sig undir breytta tíma, með aukinni tæknivæðingu í fjölmörgum störfum og þeirra breyttu krafna til vinnuframlags fólks sem framtíðin muni fela í skauti sér. Lengi hefur verkafólk átt sér vonir um að aukin tækni muni létta því störfin og skila því betri afkomu. Tæknin á að draga úr einhæfum störfum og líkamlegu erfiði og einnig stytta þann tíma sem þarf í að vinna verk og þar með að auka frítíma fólks. Þessi ávinningur tækniframfaranna fyrir vinnandi fólk hefur látið standa á sér. Enn skal tekist á um hverjir skuli njóta ávinnings tækninnar.
Samtök atvinnulífsins (SA), en svo heita samtök fyrirtækjaeigenda, eru nú búin að leggja fram tillögur sínar um það á hvern hátt þau vilji koma að styttingu vinnutíma fólks. Í tillögum þeirra kemur fram afar gamaldags hugsunarháttur og langkunnugur. Vinnuafköst eru mæld í vinnuhraða og vinnutíma og jafnan er: Því hraðar og lengur sem unnið er, því meiru er afkastað.
Núverandi grunnlög á vinnumarkaði eru lögin um 40 stunda vinnuviku sem tóku gildi í ársbyrjun 1972. Þá var verið að stytta dagvinnutímana úr 48 stundum á viku og setja ítarleg ákvæði um vinnutíma að öðru leyti og í kjarasamningum komu nánari útlistanir á vinnutímum, hvíldartímum og matar- og kaffitímum. Á þessum tíma var ég unglingur að stíga mín fyrstu skref á launuðum vinnumarkaði, en hafði sem bóndadóttir auðvitað unnið frá því ég fór að ganga. Við færibandið í sláturhúsinu, frystihúsinu og verksmiðjunum, var ég tímavinnuvél sem afkastaði stykkjum á tímaeiningu. Seinna vann ég störf sem reyndu meira á rökhyggju, skipulagningu, þekkingu og hugmyndir, en undir suðaði áfram krafan um að mæla vinnuframlag mitt í klukkustundum. Og ennþá suðar tímamælingavél SA.
SA leggja til að stytta vinnudag fólks með því að fella niður matar- og kaffitímana. Þetta eru alveg 35 launaðar mín á dag (oftast skipt í tvennt) og svo þar að auki ólaunaður matartími í hádeginu. Þessi ólaunaði hádegismatartími átti við í þá tíð þegar karlar unnu í þorpunum og konur elduðu hádegismat fyrir karl sinn og börn sem löbbuðu heim í mat. Nú tekur víða lengri tíma að keyra heim í hádegismat - aðra leið - en sem nemur matartímanum. SA kallar það að stytta vinnutímann að fella öll hlé út og láta fólk vinna sama vinnutíma í einum spreng.
Það verður eitthvað skrautlegt þegar verkalýðsforingjar sem koma nú úr röðum vinnandi fólks fara að ræða samninga við uppvaxin dekurbörn sem þekkja ekki muninn á vinnufólki og vinnuvélum.