Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, auglýsti í vikunni breytingu hjá fæðingarorlofssjóði sem hann segir að nýtist þeim tekjulágu. Það er ekki rétt.
Á síðustu tveimur árum hafa hámörk í fæðingarorlofssjóði hækkað um 230 þúsund. Á sama tíma hafa lágmörk hækkað á bilinu 11 til 24 þúsund og þeir sem ekki geta unnið fá aðeins 77 þúsund en þeir sem eru í lágtekjustörfum eða námi fá 177 þúsund krónur. Hækkunin á hámarki er því hærri en það sem þeir sem hafa lægstu launin eða eru í námi fá. Hámarksgreiðslur eru áttfaldar lágmarksgreiðslur.
Enn er aðeins hægt að fá 80% úr sjóðnum óháð tekjum þannig að það eru aðeins þeir sem hafa 650 þúsund krónur eða meira sem geta nýtt hækkunina að einhverju leyti en 750 þúsund þarf til þess að fullnýta hana. Á sama tíma fær sá sem er með 300 þúsund krónur í laun aðeins 240 þúsund krónur í fæðingarorlof.
Fæðingarorlof hefur ekki verið lengt neitt og er því í mesta lagi 9 mánuðir ef báðir foreldrar hafa efni á að taka það. Erfitt er að finna umönnun fyrir börnin eftir það og alveg ljóst að þau eru mjög ung til að yfirgefa foreldra sína. Þá bregða margir á það ráð að reyna að dreifa orlofinu á lengri tíma en ljóst hlýtur að þykja að ekki er miklu til að dreifa fyrir suma.
Nú veit ég ekki hvort Ásmundur Einar, félags- og jafnréttismálaráðherra, haldi að 750 þúsund séu lág laun eða hvort hann sé að reyna að blekkja með orðum sínum: „Nú stígum við stærra skref með umtalsverðri hækkun sem er til þess fallin að koma tekjulágum foreldrum til góða.“ En hvað sem kemur til þá eru þessi orð fjarri sannleikanum þar sem einungis þeir sem hafa meðaltekjur eða hærri njóta þessarar hækkunar.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að einhenda sér í að „búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna“ stenst engan veginn þegar börnum er mismunað strax frá fæðingu. Það er ótækt að börn þurfi að alast upp við fátækt, skort og óviðunandi aðstæður. Peningarnir eru til en fara til þeirra sem minnst þurfa á þeim að halda.