Nýlega voru samþykktar breytingar á lögum um þingfarakaup alþingismanna og þingfarakostnað á sama tíma á fjárlög næsta árs voru afgreidd. Helstu fréttirnar eru þær að aðstoðarmönnum þingflokka er fjölgað um 17 talsins og framlög til stjórnmálaflokka hækkuð um 20%, það eftir tvöföldun árinu áður. Lög sem allir þingflokkar kvittuðu undir. Við því var búist að afgreiðsla þessi félli ekki í kramið hjá fólki í hverra augum stjórnmálamenn skömmtuðu sjálfum sér og má fyrir vikið heyra margar upphrópanir á athugasemdum vefmiðla sem og á samfélagsmiðlum.
Nú kann að vera að þessi ráðstöfun sé réttlætanleg. Að setja lög er heilmikil vinna: Vanda þarf texta til að minnstur vafi leiki og afla þarf heilmikilla upplýsinga til þess að unnt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig á að kjósa. Jafnframt að málafjöldi hefur aukist og jafnvel orðið flóknari.
Þegar litið er á staðreyndir málsins er eitt ljóst: Stjórnmálamenn er að skammta sjálfum sér. Þingmenn fara með fjárveitingavaldið, hið sama og færir stjórnmálaflokkum aukna fjármuni og þingmönnum auka 17 aðstoðarmenn.
Á sama tíma og Alþingismenn réttlæta fjárþörf sína er auðvelt að benda á fjárþörf annarra. Til að mynda er Háskóli Íslands enn þá verulega fjársveltur. Jafnvel þó að Háskólinn skori hátt á alþjóðlegum listum birtist fjárskorturinn svo sannarlega í daglegri starfsemi hans: Kennarar eru lengi að svara nemendum þar sem þeir hafa tekið á sig auknar skyldur, starfsfólk er að drukkna og er því seint til svaranna þegar kemur að niðurskurði og loksins má nefna Rannsóknarsjóð sem ekki hefur bolmagn í að styrkja það fræðafólk sem þarf og verðskuldar styrk og neyðist því til þess að vinna fyrir sér annars staðar eða leita út fyrir landssteinanna. Þetta er dæmi sem ég tek úr mínu eigin umhverfi og þekki því fjárþörfina jafnvel og stjórnmálamaðurinn sem samþykkir í atkvæðagreiðslu að ráða fleiri aðstoðarmenn. Mig hryllir við að heyra dæmi frá lækni sem þarf að sinna sjúklingi á spítala sem ekki hefur pláss fyrir hann.
Þannig er ljóst að Alþingi er ekki eina íslenska stofnunin sem þarf á auknu fjárframlagi að halda. Ólíkt öðrum stofnunum hins vegar fær Alþingi einhverju ráðið um eigin kjör. Slíkt er á mörkunum að geta talist eðlilegt.
Þá liggur eftir sú spurning hvernig starfsemi Alþingis verður háttað eftir breytinguna og hvort þessi ráðstöfun sé endilega sú rétta til að styrkja starfsemi þess. Hefði t.d. verið hægt að ráða 17 starfsmenn með sérþekkingu í stað 17 pólitískra aðstoðarmanna? Væru fjármunir betur settir í höndum frjálsra félagasamtaka á borð við Samtökin 78 eða Öldu, félag um Lýðræði og Sjálfbærni, sem hvor um sig veita gjarnan umsagnir um lagfrumvörp. Hefði verið hægt að nota þessa fjármuni til þess að skoða hvernig hægt væri að gera þingsköp almennt skilvirkari og vandaðri eða jafnvel hvort búa mætti til nýja umgjörð um Alþingi með aukinni aðkomu almennings að málum?
Hverju munu þessir 17 aðstoðarmenn skila: Betri stjórnmálum og vandaðri afgreiðslu mála í þágu almennings eða valdabaráttu á nýju stigi? Við höfum í raun enga tryggingu fyrir fyrrnefnda kostinum, flokkar ráða sína aðstoðarmenn pólitískt og, eru gerðar neinar menntunarkröfur og störfin eru í raun sjaldnast auglýst. Þetta er í raun bagalegt þar sem Alþingi hefur því miður ekki það traust sem til þarf. Þar má vel rökstyðja að það eru einmitt stjórnmálaflokkarnir, þó í mismiklu mæli, sem eigi þar sök á. Ólíklegt verður því að þessi ráðstöfun skili sér í auknu trausti á Alþingi eða bættra vinnubragða.
Það er alveg ljóst að taka þarf Alþingi og stjórnkerfi Íslands til heildarendurskoðunnar, núverandi kerfi er staðnað og úr sér gengið. Það gerist þó ekki á einni nóttu heldur er langtímaverkefni. Þar til verðum við, nú þegar þingmenn hafa fengið bót á sinni vinnuaðstöðu, að gera strangari kröfur til Alþingismanna og stjórnmálaflokka um betri stjórnmál á Alþingi.