Síðustu daga hef ég mikið spáð í hvernig tollarnir eiga að vera framkvæmdir og hvernig ráðstafa á því fjármagni sem kemur úr þeim. Þetta hefur verið í umræðunni síðustu daga eftir að yfirlýsing kom um mikinn stuðning flokkana við þessa hugmynd. Þetta er í sjálfu sér ekki ný umræða og mjög mikið til af gögnum og umræðum frá því að hún kom upp fyrst. Maskína gerði könnun sem fór fram dagana 24. febrúar til 6. mars 2017 sem er með nokkrum lykiltölum sem gott er að horfa á án þess að farið sé mjög djúpt í málefnið. Hægt er að finna heildarskjalið hér.
Til að taka fyrir vegatollana eru nokkrir hlutir sem áhugavert er að horfa á. Ætla ég því að skipta þessu upp í nokkur mismunandi sjónarhorn og taka hvert fyrir sig. Fyrsta sjónarhornið er hvernig kostnaðurinn dreifist milli landsmanna. Jú það á að loka höfuðborgarsvæðinu af með tollum sem þýðir að allir ferðamenn þurfa að greiða töluverða tolla en einnig þeir sem sækja sér atvinnu í borginni, eða heilbrigðisþjónustu, eða já mjög margir aðrir sem sækja þurfa sérhæfða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Enda þegar skoðað er hverjir eru á móti tollunum eftir búsetu kemur skýrt fram að þeir sem eru búsettir á Suðurlandi og Reykjanesi eru flestir á móti þeim eða miðað við þessa könnun tæp 75%.
Það eru göng víðs vegar um landið sem fólk myndi þurfa að greiða fyrir að fara í gegnum og mögulega undir svipuðum skilyrðum. Munurinn liggur þó í því að verið sé að greiða fyrir not á dýrum göngum á móti venjulegum veg. Þegar við horfum til hversu margir munu keyra í gegnum tollana sem verið er að ræða um að setja í kringum höfuðborgarsvæðið á móti landsbyggðinni vaknaði ein spurning hjá mér. Mun fjármagnið sem kemur inn á hverju tollsvæði vera varið í framkvæmdir innan þess? Sem sagt þeir sem greiða fyrir að keyra inn til Reykjavíkur, verður sá peningur notaður í að bæta Hellisheiðina, brú yfir Ölfus, klára tvöföldun á Reykjanesbraut, Sundabraut. Hitt er að minnst af þessum gjöldum verða greidd af þeim sem eru búsettir í Reykjavík og þar af leiðandi ætti að takmarka hversu mikið af þessu fé fer í uppbyggingu þar. Hver vegatollur hlýtur af vera hugsaður fyrir visst svæði, líkt og að fara í gegnum göngin, og verið að rukka fyrir að fara Hellisheiðina. Þar af leiðandi er hvergi verið að borga tolla fyrir að keyra inní Reykjavík.
Næsta sjónarhorn sem kemur upp er hvort ég hafi valkost um eitthvað annað? Ef ég er neyddur til að keyra í gegnum tollana þá er þetta einföld skattlögn en ekki vegatollar. Hérna er ég ekki eingöngu að ræða að hafa aðra vegi sem hægt er að keyra heldur hvernig eru almenningssamgöngur. Núna vinnur makinn minn í bænum og ég einhverja daga en búum við á Selfossi og keyrum við því á milli. Þegar ég fór að skoða hvar tollarnir yrðu settir er ekki annar valkostur fyrir okkur en að keyra í gegnum hann og greiða. Til að komast inn til Reykjavíkur án þess að borga til þar annaðhvort að keyra Suðurstandaveginn og fram hjá Kleifarvatni og inn í Hafnarfjörð eða gegnum Þórsmörk (ef tollurinn verður þeim megin við) og inn í Hafnarfjörðinn. Hvorugt af þessu er raunverulegur valkostur þar sem þessir vegir eru ekki í forgangi með mokstur og ófærir þegar það er snjór, fyrir utan hversu mikið þetta bætir við ferðina. Þá fór ég að skoða almenningssamgöngur. Eini valkosturinn okkar er að taka rútu frá Selfossi og inn til Reykjavíkur, þar sem konan vinnur niður á Granda og ég á oftast erindi miðsvæðis horfði ég til þess að enda einhvers staðar þar. Fyrst tók ég fyrir hvernig hún kæmist til vinnu. Hún vinnur 10:00 – 18:00 virka daga líkt og margir ef þú ert í verslun. Til að hún nái að mæta klukkan 10:00 þyrfti hún að taka strætó frá Selfossi 7:23 og yrði komin þá 8:45 niður í vinnu sem er ekki ásættanlegt þar sem hún þyrfti að bíða í rúman klukkutíma áður en vinnan myndi hefjast. Þá var heimleiðin eftir. Hún myndi þurfa að vera komin út í strætó skýli fyrir 18:09, sem sagt 9 mínútu eftir lokum á versluninni, til að ná strætó heim og þá tæki 1 klukkutíma og 45 mínútur að komast. Ef hún missir af þeim þá er ekki næsti sem hún getur tekið fyrr en 21:15!. Niðurstaðan var fljótlega sú að fara fram hjá þeim tvöfaldar næstum vegalengdina og strætó tvöfaldar ferðatímann (miðað við að minnka við sig vinnu og vera aldrei sein út), hvorugt af þessu er því raunverulegur valkostur.
Þriðji og síðasta sjónarhornið er hvernig ætlum við að sjá uppbygginguna á nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins. Staðan á höfuðborgarsvæðinu er mjög einföld þegar kemur að búsetumálum, ekki nægilega góð. Það er ekki verið að byggja næg húsnæði miðað við fólksfjölgun, innviðin í öllum rekstri sveitarfélaganna þarf að ná að aðlaga sig að þessum stækkunum, samgöngur, almenningssamgöngur, innviðin svo eitthvað sé nefnt. Sveitarfélögin í kring hafa tekið við sér í uppbyggingu til að bjóða ódýrari húsnæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið og fólk geti þá sótt vinnu í borginni. Þetta tekur visst álag af uppbyggingunni sem þarf að eiga sér stað í borginni og er í samræmi við þá þróun sem hefur gerst annars staðar í heiminum. Fjölskyldufólk býr í úthverfum sem eru 30-45 mínútna keyrslu frá miðbænum, sem vill svo til að er svipuð keyrsla og til nágranna sveitarfélaganna við borgina. Það hækkar alltaf verðið að búa í borgum og sérstaklega miðsvæðis í þeim. Þeir sem vilja stærri hús, garð, minna áreiti og annað álíka leita því í úthverfin eða nágranna sveitarfélögin. Vegatollar er bein skattlögn til viðbótar fyrir þessa hópa, hópa sem skilgreinast í mörgum tilvikum sem barnafjölskyldur, eða jafnvel þeir sem hafa ekki efni á eigin húsnæði í Reykjavík og flytja því á þessi svæði. Tel ég að frekar en að setja upp tolla til að skattleggja aukalega þá sem ákveða að flytja frá höfuðborgarsvæðinu að hvetja þurfi til þess. Þetta myndi létta á húsnæðisvandanum sem á sér stað á höfuðborgarsvæðinu.
Síðasta sem enginn virðist benda á. Þetta er skattlögn sem mun nánast eingöngu leggjast á þá sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu! Engir tollar, gjöld eða álíka mun koma þar né verið að leggja meira í það að draga úr umferð á því svæði. Eingöngu til að komast inn og út úr borginni.