Það hefur rýrnað eitthvað í jólakortapokanum eftir árunum, en jólakveðjurnar í útvarpinu virðast lifa enn góðu lífi. Sem er mikið fagnaðarefni. Það er eitthvað svo ótrúlega gott að hlusta á þessar kveðjur svona rétt fyrir aðfangadag. Dagurinn sem allt stressið síðustu daga hefur snúist utan um. Kannski eru þessar kveðjur bara eitthvað sem ákveðnir aðilar tengja við jólin. Ég sjálf tengi þær sterkt við æsku minnar jól, man eftir móður minni að þrífa til klukkan tvö um nótt sveitt og kvíðin að hlusta á jólakveðjurnar og mér finnst þessi minning góð, hugguleg. Þökkum allar góðar stundir.
Kannski er ég skrítin en það er eitthvað við þessar kveðjur, eitthvað sem fær mig til að hugsa til fólksins sem sendi þær. Hvort þau hafa átt gott líf. Hvernig árið fór með þau og hvernig þau hafa það um hátíðarnar. Hugheilar kveðjur. Ég ímynda mér að sumir eigi bara oggulítið viðartré og finnist það gott. Sitji og hlusti á útvarpið. Aðrir að strauja skyrtu fyrir jólaboðið. Ég ímynda mér að það séu einhver þarna úti eins og mamma, einar með moppuna á veggjunum og rauðkálið í pottinum. Með metnað og ákveðni fyrir að gera vel við fjölskyldu sína. Verða þreytt daginn eftir, en mjög stolt. Með bestu óskum um gæfu og gleði. Það er einfaldleikinn sem virðist gefa mest. Ég fæ ekki einu sinni nema í mesta lagi eina kveðju stílaða til mín en ég hlusta á þær allar eins og þær séu allar til mín og minnar fjölskyldu. Með ósk um góð samskipti á komandi ári.
Ég skal vera alveg hreinskilin, ég var þarna með ykkur um daginn að hugsa allt illt um þessar hátíðir. Ég var korter í að kýla einhvern í umferðinni fjórum dögum fyrir jól. Í Sameiginlegu stresskasti af því að Siggi þarf meira en síðar buxur, pakkarnir aldrei nógu stórir eða góðir. Ekki nógu dýrir. Við það að gefa einhverjum olnbogaskot í síðuna í Bónus af því að það skal sko vera góð veisla. Gleymdi samt að kaupa nánast allt og þurfti að fara aftur af því að það er svo erfitt að hugsa með alla ofan í sér. Erfiðara að þurfa fara oft, en þessi veisla skal vera góð. Megi nýtt ár vera ykkur gjöfult.
Auðvitað viljum við hafa gott að borða og að sjálfsögðu viljum við gefa ástvinum okkar gjafir og sýna þeim að okkur þykir vænt um þau. Hafa það huggulegt og gera vel við okkur. Stundum þurfum við bara að láta af fullkomnunaráráttunni. Ég hugsa til mömmu minnar sem var af þeirri kynslóðinni að það þurfti að baka að minnsta kosti fimmtíu sortir og þrífa hvern einasta kima í húsinu. Við gleymum bara oft hversu góðir litlu hlutirnir eru. Núna hugsa ég til mömmu og verð smá leið að hafa ekki hjálpað henni meira. En á sama tíma hugsa ég hversu ánægð ég er að hafa átt hana og að hún hafi viljað gera allt einstaklega flott og hátíðlegt fyrir okkur fjölskylduna. Ég fann fyrir því og það var gott. Hún var örugglega ein taugahrúga. Nagli. Þökkum allt gott og liðið.
Í laufabrauðsgerðinni í ár hugsaði ég til þess hversu innilegt það er að gera eitthvað í sameiningu. Stórfjölskyldan saman að gera eitthvað, baka og skera út. Skapa í sameiningu. Sama má segja um skötuveisluna á Þorlák þegar allt í einu eru komnir um fjörutíu manns í eitt hús að mana hvort annað í að borða illa lyktandi fisk. Fjölskyldur að baka saman, börnin að gera kúlur og allir líta framhjá því þó að eitt þeirra hnerri aðeins í deigið. Ég hugsaði að þetta væri svona eins og þegar við tölum um ítalska eldhúsið. Ég hef ákveðið að kalla þetta sameiningareldhúsið jól. Með ósk um fleiri stundir saman á komandi ári.
Því hátíðirnar ættu að vera einmitt um það. Að gera eitthvað saman. Þrífa húsið saman og vera stolt af afrekinu þegar að aðfangadagur rennur loks upp. Njóta sameiginlega afrakstursins. Að hlusta á jólakveðjur frá ókunnugu fólki og finna til hlýju yfir góðum og fallegum orðum sem fara út í samfélagið. Hugheilar kveðjur til allra landsmanna. Þökkum allar góðu stundirnar á liðnum árum.
Það nefninlega verður oft þannig að það sem situr eftir og ristir oft dýpra en allt dótið er kannski kortið frá yfirmanni sem þakkar í allri einlægni fyrir samstarfið á árinu. Jólakort sem er stílað á glænýtt par því að ættingi reyndi af öllu megni að muna hvað nýi kærastinn heitir. Kossar frá fólki í jólaboðinu sem maður hefur ekki hitt lengi og lyktin af litlum negulnöglum í mandarínu. Að standa saman í eldhúsinu og einn gerir forrétt og annar aðalrétt, kannski er þriðji að gera tilraun að nýjum jóladrykk til að gefa öllum að smakka. Það sjá líklegast allir að lykilinn að þessari hugleiðingu er orðið “saman”. Vissulega vorum við öll saman í umferðinni og í röðinni að bölva í hljóði. En vonandi verðum við öll einnig saman í því að njóta og þakka fyrir það sem við höfum. Kannski á næsta ári verðum við meira saman í því að minnka óþarfa og meta einföldu hlutina. Gerum hátíðlegt saman en skiljum ekki einhvern eftir með allt á bakinu. Við þekkjum þennan pistil öll, þetta er klisjan í bókstaflega öllum jólamyndunum. Samt gleymum við honum of oft innst inni. Stressumst upp og viljum dýrara og meira. Förum í samkeppni um að vera best og flottust. En þegar maður hugsar aðeins út í það, þá er það einlægnin sem á vinninginn í hvert einasta sinn.
Með ósk um gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.