Uppáhaldstími dagsins hjá mér er þegar við börnin mín tvö skríðum saman upp í rúm með bók. Við liggjum saman undir sænginni, þau bæði með höfuðið á öxlunum mínum og við leyfum okkur svífa út í þann heim sem við lesum um þetta kvöld. Það er ekki hægt annað en að segja að þar sæki ég og endurnýja orkuna mína, daglega.
Fyrir nokkrum kvöldum var ferðalagið okkar til Múmíndals, með aðstoð Tove Jansson og Sögunnar um ósýnilega barnið. Ég hef lesið söguna áður og finnst hún mjög góð. En í þetta sinn vakti hún eitthvað nýtt í mér og okkur. Við áttum eitt fallegasta samtal sem ég hef upplifað. Samtal okkar var um sjálfsmynd, umburðarlyndi, samkennd, kærleika, samlyndi, kaldhæðni, meinfýsni og dulda fordóma. Dóttir mín er níu ára og strákurinn minn tíu, og vitið þið þetta samtal gaf mér meiri innsýn og skilning á því lífi og samfélagi sem ég vil tilheyra en nokkurt samtal sem ég hef átt við fullorðið fólk.
Við, fullorðna fólkið, erum svo vafin í okkar eigin vandamál, okkar baráttu, okkar skoðun eða okkar „húmor“. Og við gleymum stundum að hugsa um það hvaða þýðingu og merkingu þessi orð hafa í lífi annarra.
Sagan er um Ninnu, lítið ósýnilegt barn sem Múmínfjölskyldan er beðin um að gera sýnilegt aftur. Eftir lesturinn hef ég hugsað mikið um ósýnilegt fólk og velt því fyrir mér af hverju í ósköpunum slíkt skuli vera til. Best er að ég deili hér örlitlu broti úr sögunni sjálfri svo að þið eigið auðveldara með að skilja hugleiðingar mínar.
„Þið vitið að fólk getur auðveldlega orðið ósýnilegt ef maður hræðir það nógu oft,“sagði Tikka-tú….
…“Jæja. Frænkan sem tók þessa Ninnu að sér, þótt henni líkaði ekki við hana, var alltaf að hræða hana. Ég hitti frænkuna og hún er hræðileg. Ekki reið, skiljið þið, svoleiðis getur maður skilið. Hún var bara kuldaleg og meinfýsin.“
„Hvað er meinfýsin?“ spurði múmínsnáðinn.
„Nú, ímyndaðu þér að þú rynnir á rotsvepp og lentir í miðjun haug af hreinsuðum sveppum,“ sagði Tikka-tú. „Eðlilegast væri að mamma þín yrði reið. En nei nei nei, það verður hún ekki. Í staðinn segir hún kalt og fyrirlitlega: „Mér skilst að þetta sé það sem þú kallar að dansa, en ég væri þakklát ef þú gerðir það ekki í matnum.“ Svona er hún til dæmis.“
„Oj, en ömurlegt,“ sagði múmínsáðinn.
„Já finnst þér ekki?“ samþykkti Tikka-tú. „Það var einmitt svona sem frænkan gerði. Hún var meinfýsin frá morgni til kvölds og á endanum byrjuðu útlínur barnsins að hverfa og verða ósýnilegar. Á föstudaginn sást hún alls ekki. Frænkan gaf mér hana og sagði að hún gæti alls ekki annast ættingja sem hún sæi ekki einu sinni.“
„Og hvað gerðirðu við frænkuna?“ spurði Mía og augun stóðu á stilkum. „Lumbraðirðu ekki á henni?“
„Það borgar sig ekki við þá sem eru svona kaldhæðnir,“ sagði Tikka-tú. „Ég tók Ninnu með mér heim. Og núna er ég komin með hana hingað, til að þið getið gert hana sýnilega aftur.“(Jansson.1962,bls. 102-3)
Ef við stöldrum hér aðeins við, getum við ekki hugsað um einhvern sem þarf aðstoð við að vera sýnilegur aftur? ......Við höfum ekki svigrúm hér á Íslandi til að leyfa einstaklingum að hverfa. Það er svo oft sem við sundrumst hér vegna það sem er ólíkt með okkur þó að við ætlum ekki að vera meinfýsin.
Ég man til dæmis ekki fyrir löngu þegar sagt var við mig „Nichole þú ættir ekki setja inn tilkynningu á facebook, þú talar svo vitlaust, þú veist málfarið hjá þér er ekki svo gott .“ Viðkomandi „meinti ekki illa“ og staðreyndin er jú sú að málfarið hjá mér er ekki fullkomið. En er nauðsynlegt að segja svona við fólk? Til er margt fólk af erlendum uppruna, börn og jafnvel fatlað fólk, sem myndi taka þessi orð þannig að best væri að tjá sig ekki og vera bara ósýnileg. Þetta snýst ekki um mig eða minn uppruna en þið náið punktinum hér, er það ekki?
Það er kannski óþarfi að telja upp atriði og fólk sem hefur upplifað sig sem ósýnilegt. Nóg er að líta aðeins á umræður um geðheilbrigðismál, fátækt, vímuefna- og áfengisneyslu, ofbeldi, áreitni, einelti í skóla og á vinnustöðum, fordóma, hvort sem er dulda eða beina, til að sjá hversu margir eru ósýnilegir í tengslum við þá umræðu.
Ég gekk til dæmis inn á samtal fyrir nokkrum dögum, þar sem fólk var að tala illa um fatlaða manneskja sem var einfaldlega að sækjast eftir réttindum sínum. Hér sat sama fólk og var yfir sig hneykslað yfir samtali sem fór fram á Klausturbar ekki fyrir löngu. Þar var sem betur fer á ferð ósýnileg kona sem tók upp samtal sem hlaðið var meinfýsni. Nú er hin ósýnilega Bára tilnefnd til manns ársins, og við höfum tækifæri til að ræða hvernig við viljum tala um og koma fram hvert við annað.
Nú er 2019 handan við hornið og fullt af ósýnilegu fólki sem á fullan rétt á að þurfa ekki að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kyneinkenni, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, trú, félagslega stöðu eða efnahag. Vitið þið hvað Múmínmama gerði? Það var nefnilega mjög einfalt. Hún hlúði vel að Ninnu, sýndi henni athygli, gaf henni bæði hrós og tækifæri til að vera með og njóta sín.
Sagan um ósýnilega barnið endar svona:
„Hún sest, hún sést!“ hrópaði múmínsnáðinn,“ Hún er bara sæt!“....
… „Ó“, hrópaði Ninna. En fyndið! Nei en skemmtilegt!“ Og hún hló svo mikið að bryggjan hristist öll.
„Hún hefur víst aldrei hlegið áður,“ sagði Tikka-tú undrandi. „Mér sýnist þið hafa breytt henni þannig að hún sé verri en Mía litla. En aðalatriðið er að hún sést.“ (Jansson. 1962 116-17)
Við getum öll gert þetta sama fyrir fólk sem er í kringum okkur, hvort sem það er manneskja sem við störfum með, býr í götunni okkar eða sem við mætum einfaldlega í strætó eða í búðinni. Við höfum öll tilhneigingu og vilja til að hlæja og vera sýnileg. Þó ekkert okkar sé fullkomið og höfum kannski öll agnar lítið bragð af Míu litlu í okkur, getum við öll stutt við hamingju og vellíðan hvert annars eins og Múmínfjölskyldan gerði fyrir Ninnu.
Með þessu vil ég óska öllum gleðilegs nýárs og vona að ykkur gangi vel að vera sýnileg á nýja árinu.
Jansson, T. (1962) Ósýnilega barnið og aðrar sögur. Þýdd eftir Guðrún Jarþrúður Baldvinsdóttir, 1998. Reykjavík: Mál og Menning