Í veggjöldum liggur sá möguleiki að jafna fjárhag og félagsleg gæði ólíkra samfélagshópa á Íslandi.
Í kortunum er að vinnuhópur á vegum Samgönguráðuneytis leggi fram tillögu um vegtolla til samþykktar á þingi í janúar. Fátt er jafn umdeilt og nýjar leiðir til að skattleggja almenning og engin undantekning er á því í þessu máli. Fátækraskattur er orð sem mikið er fleygt í umræðunni og það er auðvelt að vera sammála þeirri fullyrðingu að veggjöld séu einmitt fátækraskattar miðað við þær tillögur sem fyrir liggja. Það á að gera fólki auðveldara að velja bílinn, en jafnframt dýrara.
Ekki hægt að vera sammála/ósammála vegtollum
Þegar gjöld eru tekin af almenningi verða þau alltaf að skoðast í samhengi við það sem ríkið eða sveitarfélög nota þau í. Hluti af þeim gjöldum sem við greiðum í gegnum útsvar er til dæmis notaður í að niðurgreiða leikskóladvöl barna. Þetta er ákveðin grunnþjónusta sem allir greiða fyrir og flestir eru sáttir við þá útfærslu að foreldrar sem nýta sér leikskólana greiði meira en þeir sem ekki eiga börn í leikskóla. Einnig borga þeir foreldrar sem eiga mörg börn í leikskóla meira en þeir sem eiga eitt. Það sama má segja um vegtolla og tafagjöld. Grunnurin er löngu tilbúinn en í hvað verður aukagjaldtakan af notenum nýtt?
Núverandi tillögur
Meirihluti Umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt til að gjöld verði tekin á þremur stofnæðum í og við Reykjavík, í jarðgöngum og við nýframkvæmdir sem stytta vegkafla á landsbyggðinni. Allt á þetta að fjármagna fleiri jarðgöng, nýframkvæmdir á landsbyggðinni og síðast en ekki síst nýframkvæmdir sem auka umferðarflæði innan höfuðborgarsvæðisins líkt og tvöfaldanir vega og mislæg gatnamót.
Aukið flæði umferðar = meiri umferð
Einhversstaðar í ferlinu hefur minnisblaðið um uppfyllingu Parísarsáttmálans glatast á leiðinni til Umhverfis- og samgöngunefndar. Aukið flæði umferðar í einkabílum býður upp á meiri umferð, jafn miklar tafir og meiri útblástur. Það er ekkert leyndarmál í hinum upplýsta heimi að séu möguleikar á umferðarflæði auknir mun umferð aukast á því svæði og tafir ekki minnka. Þetta hefur nú þegar sannað sig á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar. Fólki fjölgar og það velur þær leiðir þar sem mestar líkur eru á góðum millitíma. Það mun hrúgast í bílunum sínum á hin nýju landfreku mislægu gatnamót og þeysa um breiða tvöfalda vegi með hljóðmönum á báða bóga og ná frábærum millitíma nema, já nema, þegar allir aðrir ætla að gera það nákvæmlega sama á sama tíma. Þá fer allt í sama horfið og þótt allir séu í rafmagnsbílunum sínum þá menga þeir líka í framleiðslu, förgun og notkun.
Nýtist efnaminni best
Eina leiðin til þess að vegtollar og tafagjöld innan höfuðborgarsvæðisins nýtist bæði þeim sem borga og Íslandi í að ná sínum markmiðum er að fjárfesta í betri innviðum fyrir fólk sem ferðast gangandi, hjólandi og með almenningssamgöngum. Það er einnig eina leiðin til að bjóða þeim sem minna hafa milli handanna að ferðast ódýrara á höfuðborgarsvæðinu, meira að segja ódýrara en það er að ferðast núna með bíl, fyrir vegtolla. Samkvæmt útreikningum FÍB kostar það á milli 93 og 162 þúsund að reka nýjan bíl á mánuði, það er fyrir utan lánagreiðslur. Þetta gera um 1.1 til 2.3 milljónir á ári. Auðvitað er hægt að reka gamlan bíl en þá koma viðgerðir upp á móti sem eru oft óvæntur og óþægilegur kostnaður. Það eru ekki margir möguleikar fyrir efnaminna fólk til að bæta hag sinn um milljón eða meira á ári með einni aðgerð. Þess vegna myndu skilyrt veggjöld nýtast þeim best.
Stuðningur við veggjöld
Stuðningur Samtaka um bíllausan lífsstíl við vegtolla og tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu er algjörlega einskorðaður við að innkoman verði skilyrt til uppbyggingu vistvænna samgangna. Að nota innkomuna í að auka umferð einkabíla á höfuðborgarsvæðinu og þ.a.l. mengun, allt til þess að auka umferðarflæði tímabundið, er hreinlega galið. Skilyrða þarf innkomuna til þess að stuðla að hraðri uppbyggingu hágæða almenningssamgangna(lesist Borgarlínu), bæta núverandi strætókerfi, bæta deilikerfi og tengingu þeirra við almenningssamgöngur, byggja hágæða hjólastígakerfi og bæta öryggi gangandi vegfarenda. Þetta er eina leiðin til að koma til móts við efnaminna fólk, bæta umferðarflæði og standast alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Allt í sömu aðgerðinni. Í kaupbæti fáum við svo betri loftgæði, minni örplastsmengun, minni hljóðmengun, meiri hreyfingu, meiri útiveru, betur stæð heimili, líf á göturnar og almennt meiri hamingju.
Þar til ákvörðun um að veggjöld verði einungis notuð til byggja upp og styrkja innviði fyrir vistvæna fararmáta liggur fyrir geta Samtök um bíllausan lífsstíl ekki stutt hugmyndir meiri hluta Umhverfis- og samgöngunefndar um veggjöld, langt því frá.
Stjórn Samtaka um bíllausan lífsstíl:
Björn H. Sveinsson – formaður
Valgerður Húnbogadóttir – varaformaður
Axel Kaaber – meðstjórnandi
Björn Teitsson – meðstjórnandi
Taka skal fram að undirrituð taka ekki afstöðu í þessari grein til gjaldtöku í göngum og við nýframkvæmdir á landsbyggðinni.